Blindfullur með hershöfðingjanum í viku

Hershöfðinginn veiddi hjá Árna bæði á Íslandi og á Grænlandi. …
Hershöfðinginn veiddi hjá Árna bæði á Íslandi og á Grænlandi. Þeir drukku sig blindfulla á hverju kvöldi og daginn eftir þurfti Árna að rifja upp hvað hafði verið sagt og sverja að þegja um samtalið um aldur og ævi. Ljósmynd/Sporðaköst

Fjölmenni fagnaði útkomu bókarinnar Í veiði með Árna Bald í útgáfuhófi, í höfuðstöðvum Sölku, sem gefur bókina út. Sagnamaðurinn viðurkenndi rétt fyrir hófið að hann væri stressaður hvort nokkur myndi mæta. Árni Baldursson fékk húsfylli af vinum, veiðifélögum og fjölskyldu. Faðmlög voru ekki spöruð og eftir hressilega ræðu myndaðist fljótt löng röð af fólki sem vildi kaupa áritað eintak.

„Allir stærstu sigrar okkar Völu eru ekki peningar og afkoma. Það eru allir vinirnir sem við höfum eignast í gegnum veiðina síðustu 35 ár. Við eigum vini um allan heim sem hafa gefið okkur aðgengi að heimahögum sínum og kynnt okkur fyrir vinum og ættingjum, lífinu sem þau lifa og veiðinni á þeirra slóðum. Verðmætin í mínu lífi felast í þessum vinum,“ segir meðal annars í eftirmála bókarinnar sem heitir einfaldlega Í veiði með Árna Bald.

Frá vinstri; Árni Baldursson, Valgerður kona hans og dóttir þeirra …
Frá vinstri; Árni Baldursson, Valgerður kona hans og dóttir þeirra Gunnhildur Erla. Lengst til hægri er svo sjálfur Norman Schwarzkopf. Myndin er snjáð en engu að síður dýrmæt. Árni gróf þessa mynd upp fyrir okkur í morgun. Þeir drukku sig blindfulla öll kvöld í vikunni sem karlinn var á Íslandi. Ljósmynd/Árni Baldursson

Blindfullur með Norman Schwarzkopf

Bók Árna er skemmtileg lesning. Hann lýsir þar veiðikynnum af þjóðþekktu og heimsþekktu fólki. Þar sem hann sem fer á trúnó með Norman Schwarzkopf bandaríska hershöfðingjanum sem meðal annars var æðstráðandi í Persaflóastríðinu. Þetta var reyndar trúnó á hverju kvöldi í viku. „Hann drakk mikið þessi ljúfi kall, við urðum alltaf blindfullir á hverju kvöldi og svaf hann út til svona ellefu,“ skrifar Árni. Daginn eftir þurfti svo að fara yfir hvað rætt var kvöldið áður og Árni látinn sverja dýra eiða að þagmælsku um innihaldið.

Það var fullt út úr dyrum í útgáfuhófinu. Hér eru …
Það var fullt út úr dyrum í útgáfuhófinu. Hér eru mættir Friðjón Mar, Reynir Sigmundsson, Alli Nocco, eins og hann er kallaður, Oliver Snær og Sigmundur. Aftast glittir í annan rithöfund, Óskar Magnússon. Ljósmynd/Sporðaköst

Skipaði Clapton í rúmið

Veiði með Eric Clapton í Laxá á Ásum er skemmtilegur kafli í bókinni. Þeir voru tveir saman og á hverju kvöldi var Clapton að semja og spila og Árni eini tónleikagesturinn. Vandamál Árna var að koma gítarleikaranum í rúmið svo hægt væri að vakna snemma og fara að veiða enda voru þeir á besta mögulega tíma og áin full af fiski. „Þegar klukkan slær tólf segi ég bara: „Eric can you please stop singing, this is not good, it´s midnight and we have to go to bed.“ Hann hlýddi og hætti að syngja og hunskaðist í rúmið.“ Þessi saga af Árna og Eric Clapton segir allt sem segja þarf um Árna Baldursson. Það kemst ekkert að nema veiði. Veiði, veiði og aftur veiði.

Húsfyllir var á báðum hæðum og bókin rauk út. Hér …
Húsfyllir var á báðum hæðum og bókin rauk út. Hér er í forgrunni, Reiða öndin eða Þorbjörn Helgi. Ljósmynd/Sporðaköst

Ætlaði að kyrkja kellinguna

En sagan af japanska vini hans, Yasuji Sugai er kannski mögnuðust. Sugai er ljósmyndari og japanskur að uppruna. Í bókinni segir hann frá því að Sugai kynntist ítölsku barónessunni Raimonda Lanza og mál æxluðust þannig að ljósmyndarinn bauð henni með sér til Íslands í veiði. Lesa má á milli línanna hjá Árna að ljósmyndarinn var hrifinn af barónessunni en það var ekki endurgoldið. Barónessan einokaði stöngina í hálfan mánuð og á síðasta veiðidegi þessara undarlegu veiðifélaga missti karlinn þolinmæðina. Raunar vitið, telur Árni. Þegar hálftími var eftir af veiðitímanum réðist hann á hana og ætlaði að kyrkja hana til að geta veitt sjálfur síðasta hálftímann af veiðitímanum, enda hafði hann ekkert fengið að kasta í öllum veiðitúrnum. þegar þetta gerðist voru þau stödd í Selá og voru að klára vikuveiði sem kom í kjölfar viku í Laxá í Aðaldal. Þetta er mögnuð saga og hefur verið á floti í veiðiheiminum um árabil. Árni Baldursson lokar frásögninni með þessum orðum. „Þessi saga lýsir því hvað laxveiðin getur haft mikil áhrif á fólk, við erum tilbúin til að myrða til að komast í ána og veiða lax.“

Hlustað á höfundinn greina frá tilurð bókarinnar.
Hlustað á höfundinn greina frá tilurð bókarinnar. Ljósmynd/Sporðköst

Hér er rétt tæpt á broti af þeim fjölmörgu sögum sem Árni deilir með lesendum. Það skín í gegn í bókinni að Árni er ekki höfðingjasleikja. Hann kemur fram við alla með sama hætti. Að upplifa með þeim veiði og geta sjálfur verið að veiða líka. Veiða mikið. Hann er einfaldlega drifinn áfram af meiri veiðidellu en hægt er að gera sér í hugarlund.

Ilmspjaldið 2023/24. Árni Baldursson er fyrirsætan. Þegar búið er að …
Ilmspjaldið 2023/24. Árni Baldursson er fyrirsætan. Þegar búið er að setja þig á ilmspjald er kominn tími til að gefa út bók. Ljósmynd/Sporðaköst

Sjaldan eða aldrei hefur útgáfa veiðibóka verið jafn blómleg og fyrir þessi jól. Við höfum áður fjallað um stórvirkin tvö, Drottning norðursins og Laxárbókin sem fjallar um urriðasvæðin í Laxá í Þing. Laxárdalinn og Mývatnssveit. Svo er það bók Árna og loks sú fjórða sem Sporðaköst eiga eftir að fjalla um, en það er bókin Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól sem þeir Arnór Sigurjónsson, Einar Sigurjónsson og Stefán Þórarinsson skrifa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert