Flóknar deilur um aðgengi veiðimanna að efstu svæðum Eystri Rangár og aðgengi að sleppitjörnum við ána, þar efra, tóku nýja stefnu með úrskurði Landsréttar í lok nóvember.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt Veiðifélagi Eystri Rangár í vil í málinu gegn landeigendum. Landsréttur vísaði málinu hins vegar frá héraðsdómi þar sem Veiðifélag Eystri Rangár uppfyllti ekki lagaskyldur til að geta verið aðili málsins. Upp er komin mikil réttaróvissa í kjölfar niðurstöðunnar.
Stjórnarformaður Veiðifélags Eystri Rangár, Birkir Tómasson á Móeiðarhvoli hefur í kjölfar þessa sagt af sér sem formaður og varaformaður, Hörður Þórhallsson á Minna Hofi er tekinn við.
Deilan sem rataði inn á borð dómstóla snerist um að systkinin Einar, Dagmar Sigríður og Dóra Lúðvíksbörn meinuðu veiðimönnum umferð um vegi á svæðum 8 og 9 við Eystri Rangá. Jafnframt meinuðu þau aðgengi að þremur sleppitjörnum í landi jarðanna Bakkavalla, Vallarhjáleigu og í sameignarlandi í eigu jarðanna Árgilsstaða 1 og 2. Svæði 8 og 9 eru efstu veiðisvæðin í Eystri Rangá.
Upphaf deilunnar má rekja aftur til ársins 2019 þegar nýr meirihluti tók yfir Veiðifélag Eystri Rangár og framkvæmdastjóra félagsins var sagt upp störfum. Það er áðurnefndur Einar Lúðvíksson. Í framhaldi af þeirri hallarbyltingu meinuðu systkinin umferð bíla veiðimanna um jarðir sínar og einnig aðgengi að seiðatjörnum við ána á sínum jörðum. Lögbann var sett á aðgerðirnar og í framhaldi af því höfðaði Veiðifélagið dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem félagið vann. Því var áfrýjað til Landsréttar sem hefur nú vísað málinu frá.
Þetta reyndist flókið úrlausnarefni sem varðar fyrst og fremst samþykktir Veiðifélags Eystri Rangár í kjölfar lagabreytingar sem var gerð árið 2006. Hefur Veiðifélagið ekki uppfyllt þær skyldur sem lögin kváðu á um og sneru meðal annars að því að setja félaginu samþykktir. Til er nefnilega félagið Veiðifélag Rangæinga sem tók yfir allt hið víðfeðma vatnasvæði sem Rangárnar báðar spanna og raunar fleiri ár á svæðinu. Það félag er enn til og Veiðifélag Eystri Rangár er í raun deild í því félagi.
„Skorti lögmætan grundvöll“
„Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að miða við að stefndi starfi sem deild í Veiðifélagi Rangæinga en án samþykkta. Við þær aðstæður verður ekki talið að stefndi uppfylli þann áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/ 1991 að geta átt réttindi eða borið skyldur að landslögum, enda verður að líta svo á að stefnda skorti lögmætan grundvöll fyrir starfsemi sinni.“
Tilvitnunin hér að ofan er úr úrskurðarorðum Landsréttar í málinu og með þessu er málinu vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Athyglisvert er að hluti gagna málsins er bréf frá Fiskistofu þar sem segir að Veiðifélag Eystri Rangár hafi lagt fram samþykktir til Fiskistofu en stofnunin ekki viljað samþykkja þær samþykktir og gefið félaginu frest til að bregðast við. Ekki bárust andmæli frá félaginu fyrir tilsettan frest.
Svo segir, „Þá er í fyrrgreindu bréfi Fiskistofu vísað til þess að í gildi sé samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinganr. 115/ 1994 sem nái til allra jarða sem land eigi að vatnasvæði Hólsár, Ytri-Rangár, Þverár og Eystri-Rangár. Taldar séu upp sömu jarðir og nefndar séu í samþykktum Veiðifélags Eystri-Rangár, sem Fiskistofa fékk til staðfestingar, að jörðinni Keldum undanskilinni. Því sé lagt til grundvallar að veiðiréttarhafar sem tilgreindir séu í þeim samþykktum stefnda tilheyri nú þegar Veiðifélagi Rangæinga og að umdæmi þess félags taki meðal annars til þess umdæmis sem tilgreint sé í áðurnefndum samþykktum stefnda. Þá segir að með hliðsjón af því að Veiðifélag Rangæinga sé starfandi í sama umdæmi og taki til sömu veiðiréttarhafa og tilgreindir séu í samþykktum stefnda sé Fiskistofu þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að staðfesta framlagðar samþykktir stefnda Veiðifélags Eystri-Rangár samkvæmt 8. mgr. 39. gr. laga nr. 61/ 2006.“
Og aftur er vitnað í bréf frá Fiskistofu í dómnum. „Með hliðsjón af því að hvorki var um að ræða fund veiðifélags né er hægt að líta svo á að um stofnfund veiðifélags hafi verið að ræða 28. ágúst 2021, getur ákvörðun sem Veiðifélag Eystri-Rangár tók [...] 28. ágúst 2021, ekki talist ákvörðun sem tekin er á fundi veiðifélags í skilningi 43. gr. laga um lax-og silungsveiði.“
Samkvæmt þessum orðum Fiskistofu og uppkveðnum úrskurði Landsréttar er ekki annað að sjá en Veiðifélag Eystri Rangár sé þannig séð umboðslaust. Í það minnsta ekki samþykkt sem slíkt af yfirvaldinu sem í þessu tilviki er Fiskistofa.
Verður kært til Hæstaréttar
Sporðaköst leituðu til málsaðila og óskaði eftir viðbrögðum. Birkir Tómasson stjórnarformaður hefur sagt af sér og vísaði á Guðjón Ármannsson lögmann Veiðifélags Eystri Rangár. Niðurstaðan kom Guðjóni á óvart. Hann sagði í skriflegu svari vegna málsins;
„Niðurstaða Landsréttar kemur verulega óvart. Veiðifélag Eystri-Rangár hefur með höndum viðamikla starfsemi og er með sjálfstæðan fjárhag. Þá er félagið með samþykktir og sjálfstæða arðskrá sem birt hefur verið í B-deild Stjórnartíðinda. Aukinheldur hefur félagið tvívegis átt aðild að dómsmálum fyrir Hæstarétti Íslands, sbr. dóma frá 2003 og 2011.
Það er með engum hætti hægt að una við þessa niðurstöðu og því verður úrskurður Landsréttar kærður til Hæstaréttar Íslands. Í kjölfarið mun Hæstaréttar kveða úr um það hvort málið fær efnislega úrlausn.“
„Veiðifélagið er umboðslaust“
Einar Lúðvíksson sagði liggja fyrir að með þessum úrskurði væri Veiðifélag Eystri Rangár umboðslaust. En spurður frekar um stöðuna í ljósi þessarar niðurstöðu þá sagði Einar að svæðið væri alls ekki lokað veiðimönnum.
„Menn geta labbað og notað aðra veiðivegi en í gegnum okkar jarðir. Ég benti þeim á að breyta svæðunum og þeir gerðu það. En hvað við gerum það á eftir að koma að í ljós. Ég er ekki búinn að setja keðju á hliðið. Hins vegar er miklu alvarlegra mál að veiðifélagið er umboðslaust. Veiðifélagið er ekki veiðifélag og er deild í Veiðifélagi Rangæinga sem hefur heldur ekki sett sér nýjar samþykktir eftir lagabreytinguna 2006. Þannig að þeir geta heldur ekki notað það. Leigusamningur við núverandi leigutaka er fallinn úr gildi. Það blasir við,“ sagði Einar í samtali við Sporðaköst.
Hann segir málið allt hið ótrúlegasta og greinilegt að Fiskistofa viti ekki hvort hún er að koma eða fara í málinu. „Ég vildi stofna nýtt félag og slíta Veiðifélagi Rangæinga á sínum tíma. Menn vildu það ekki og nú er þetta komið í afar sérstaka stöðu.“
Úrskurðinn kváðu upp Landsréttardómararnir Jón Höskuldsson, Kristinn Halldórsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Eystri Rangá er ein af aflahæstu laxveiðiám á Íslandi og í sumar sem leið gaf hún 2.202 laxa. Mesta veiði í henni var hins vegar sumarið 2020 þegar veiddust 9.076 laxar í Eystri Rangá.
Tungufoss í Eystri-Rangá. Hann er farartálmi fyrir laxinn eins og staðan er í dag. Deilur um aðgengi að veiðisvæðinu hafa staðið síðan 2019 og er ekki lokið.
Ljósmynd/GIH
Einar Lúðvíksson, var framkvæmdastjóri Veiðifélags Eystri Rangár. Þegar nýr meirihluti tók óvænt við félaginu 2019 var honum sagt upp störfum. Deilur hafa staðið síðan. Einar er af mörgum talinn vera sá sem byggði upp laxveiðina í ánni.
Ljósmynd/Aðsend
Seinustu hundraðkallar sumarsins
Lengd á laxi |
Veiðisvæði |
Veiðimaður |
Dagsetning
Dags.
|
102 cm |
Hvítá við Iðu |
Ársæll Þór Bjarnason |
19. september
19.9.
|
101 cm |
Víðidalsá |
Stefán Elí Stefánsson |
4. september
4.9.
|
101 cm |
Laxá í Dölum |
Hafþór Jónsson |
27. ágúst
27.8.
|
102 cm |
Haukadalsá |
Ármann Andri Einarsson |
23. ágúst
23.8.
|
103 cm |
Laxá í Aðaldal |
Birgir Ellert Birgisson |
12. ágúst
12.8.
|
103 cm |
Miðsvæði Laxá í Aðaldal |
Máni Freyr Helgason |
11. ágúst
11.8.
|
101 cm |
Laxá í Aðaldal |
Agnar Jón Ágústsson |
10. ágúst
10.8.
|
Skoða meira