Stangaveiðifélag Reykjavíkur tekur upp nýtt fyrirkomulag í Korpu í sumar til að bregðast við mikilli eftirspurn. Korpa sem líka gengur undir nafninu Úlfarsá verður á laxveiðitímanum seld með sama fyrirkomulagi og Elliðaárnar og Leirvogsá. Seldir verða eingöngu hálfir dagar. Árni Kristinn Skúlason hjá SVFR segir þessa breytingu fyrst og fremst gerða til að fleiri komist að en mikil ásókn er í þessar þrjár laxveiðiár innan borgarmarkanna.
En frekari breytingar eru fyrirhugaðar varðandi fyrirkomulag í Korpu. Í sumar mun laxasvæðið ná upp að Lambhagaveg, sem er skammt ofan Vesturlandsvegar. Þar fyrir ofan verður til nýtt svæði með einni stöng sem nær alveg upp í Hafravatn, þar sem Korpa á upptök sín. „Þetta svæði hefur verið mjög lítið stundað en þarna má finna töluvert af silungi og þegar líður á sumarið er bæði lax og sjóbirtingur kominn á efra svæðið,“ upplýsti Árni Kristinn í samtali við Sporðaköst.
Hann segir að markmiðið með því að bjóða sérstaklega upp á efra svæði í Korpu sé fyrst og fremst til nýta til fullnustu þá möguleika sem félagið hefur upp á að bjóða.
Nýtt veiðisvæði er komið undir regnhlíf SVFR en það er Vatnsdalsá í Vatnsfirði. Veitt er á tvær stangir í Vatnsdalsá. Í raun er um að ræða tvær ár og vatn. Efri áin er um 2,5 kílómetrar og rennur í Vatnsdalsvatn. Neðri áin rennur úr vatninu til sjávar og er hún um það bil kílómetri á lengd. Bæði er lax og bleikjuveiði í Vatnsdalsá. Eingöngu er heimillt að veiða flugu og sleppiskylda á laxi. Lítið veiðihús er í boði og eins og gefur að skilja flokkast svæðið undir sjálfsmennsku en mikil eftirspurn hefur einmitt verið eftir slíkum svæðum.
Búið er að opna fyrir umsóknir félagsmanna í SVFR og er umsóknarfrestur til áramóta. Nokkuð hefur verið um að félagsmenn hafi ekki áttað sig á úthlutunarreglum og því kjörið að kíkja á heimasíðu SVFR og fá þau mál á hreint.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |