Höfðu mestar áhyggjur af viskíhestinum

Grútskítugir en kátir hestasveinar. Einar Sigurjónsson og Stefán Þórarinsson. Gallabuxurnar …
Grútskítugir en kátir hestasveinar. Einar Sigurjónsson og Stefán Þórarinsson. Gallabuxurnar er vel smurðar hestafitu og mold. Ljósmynd/Úr einkasafni

Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól er veiðibók skrifuð af bræðrunum Einari og Arnóri Sigurjónssonum og Stefáni Þórarinssyni. Þeir voru allir hestasveinar við Þverá eins og hún hét einfaldlega þá. Hér er á ferðinni saga af ungum mönnum, nánast drengjum sem tókust á herðar stórt verkefni. Að vera leiðsögumenn, annast hestana sem veiðimenn ferðuðust á upp og niður með ánni. Frá fjalli og niður að ós við Hvítá. Allir þrír eru þeir höfundar efnis en Stefán sá að mestu um að skrifa endanlegan texta.

Þessir ungu menn fóru fyrstir á fjall og huguðu að girðingu fyrir hestana þar sem þeir voru geymdir. Undirbúa þurfti veiðihúsið og kynda upp og koma hita í kofann áður en ráðskona kom til að þrífa og fyrstu veiðimenn lögðu leið sína, á hestum upp í Víghól.

Kjarrá eða Kjarará?

Sporðaköst ræddu við Einar Sigurjónsson, fyrrum hestasvein og einn af höfundum bókarinnar. Kjarrá eða Kjarará, eins og aftur er farið að kalla hana. Hvað segir Einar um það. „Fyrir mér eru bæði nöfnin dálítið þvælin. Vegna þess að þegar við komum þarna 1966, ég og Arnór bróðir þá var þetta bara Þverá. Hún skiptist í fjallveiðina sem nú er þetta Kjararár eða Kjarrár dæmi. Svo var það Norðtunga og Melshúsin og Brennan. Þannig skiptist þetta. Karlarnir skiptu þessu þannig að þeir sem voru veiðiglaðastir og þurftu að komast sem fyrst í fisk fóru í Brennuna til að byrja með. Elstu karlarnir voru settir í Melshúsin. Það er Steinahylur og Lundahylur og það allt saman. Þeir voru þá lausir við gljúfur og höfðu þægilegt aðgengi. Síðan var það Norðtunguveiði frá Gerpi og upp í Myrkhyl. Fjallveiði var svo þaðan og alveg upp í Starir,“ upplýsir Einar.

Forsíða bókarinnar, Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin er …
Forsíða bókarinnar, Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin er skemmtileg flétta af fróðleik og áhugaverðum sögum. Ljósmynd/Skrudda

Fimm stangir voru á fjallinu eða Kjarará (Kjarrá). Fimm stangir skiptust svo milli neðri hlutans. Tvær voru þar sem kallað var Melshús og þrjár í Norðtungu.

Einar segir að herforingjaráðskort hafi hangið uppi í veiðihúsinu og skiptingin á sínum tíma hafi ekki verið flóknari en það að Gunnar Sveinbjörnsson var einhverju sinni staddur í veiðihúsinu. Hann setti fingur á kortið og sagði þetta er Kjarrá eða Kjarará. Þá var lausnin komin. Þetta var eftir að farið var að leigja út ána en fram til þess tíma hafði veiðiklúbbur verið með alla ána. Nú er þessi skipting öll orðin formlegri og hefur verið um langt skeið og rekið sem tvö aðskilin veiðisvæði eins og flestir veiðimenn þekkja. Annars vegar Þverá og hins vegar Kjarará. Kjarrá hefur hún verið kölluð til áratuga í það minnsta meðal veiðimanna. Síðustu ár hefur nafninu verið breytt í Kjarará. Hvort það er til bóta er óljóst. En í dag er talað um Kjarará.

Mestar áhyggjur af viskíhesti

Hvað fær gamla karla til að setjast niður og skrifa svona bók?

„Já. Það er góð spurning. En þetta hafði lengi blundað í Stefáni og Arnóri bróður að segja frá þessum aðstæðum og lífinu sem hestasveinar. Stefán hefur veitt þarna allar götur síðan að við hættum. Hann hefur mikla ást og þekkingu á þessu svæði. Þetta mótaði okkur gríðarlega að vera þarna sem ungir menn og það var til staðar þörf að segja frá þessu,“ svarar hann. Einar var lengst þeirra félaga eða öll sumur frá 1966 til 1974. Stefán gekk til liðs við þá bræður 1970 var hann fermingabróðir þeirra og þeir réðu hann á staðnum og tilkynntu það þeim Sveinbirni og Kjartani á Guðnabakka að þeir væru búnir að ráða mann. Þetta voru ungir og ákveðnir menn og tókust hiklaust á við mikla ábyrgð. Einar var fjórtán ára þegar hann byrjaði sem hestasveinn og hinir á svipuðu reki.

Borgfirðingahollið sem veiddi árum saman í Kjarrá, eða á Fjallinu. …
Borgfirðingahollið sem veiddi árum saman í Kjarrá, eða á Fjallinu. Frá vinstri, Valdimar Ásmundsson, Pétur Geirsson, Helgi Stefánsson og Aðalsteinn Björnsson. Þetta var hörkugengi eins og kemur fram í bókinni. Ljósmynd/Valdimar Ásmundsson

Hesturinn var svo sannarlega þarfasti þjónninn á þessum tíma og öll aðföng voru flutt á hestum. Stundum var lestin löng, jafnvel tólf hestar. Farangurinn var enda mikill. Olía, lín, matur, veiðigræjur og svo var það viskíhesturinn. „Karlarnir höfðu nú oft mestar áhyggjur af honum. Það kom oft fyrir að hann var leystur úr lestinni og teymdur einn og sér þannig að ekkert færi til spillis ef upp kæmi fælni í lestinni,“ hlær Einar að minningunni.

Það þarf töluverðan manndóm til að vera strákgutti, eins og þeir félagar voru og taka að sér nokkurs konar leiðtogahlutverk í hópi manna sem voru að stjórna stórum fyrirtækjum bæði hér á landi og einnig úti í hinum stóra heimi. „Við vorum ákveðnir og höfðum gott sjálfstraust og það reyndi alveg á það á köflum. Þarna var áfengismenningin önnur en er í dag. Svo breyttist það þegar Ameríkanarnir komu upp úr 1970. Þá datt eiginlega fylleríið niður. Þarna hækkuðu veiðileyfi í verði og veiðimenningin tók breytingum. Kaninn breytti meiru en menn halda, á þessum árum.

Samningur í hnakkageymslunni

Einar flettir í bókinni. „Hér er saga sem ég hef gaman af,“ segir hann. Þarna lýsir hann því þegar nokkrir af helstu forstjórum íslenskra stórfyrirtækja ásamt eiginkonum voru mætt til að veiða í Kjarrá. Áður en haldið var til veiða kallaði Hallgrímur Hallgrímsson forstjóri Skeljungs djúpri röddu. „Hestasveinar, hestasveinar. Það er fundur í hnakkageymslunni.“ Þeir félagar hlýddu kallinu og þröngt var á þingi í geymslunni. Einar les. „Hann hóf fundinn svo. Hestasveinar. Þið vitið allt og hvar bestu staðirnir eru til að veiða í þessari á. Nú vil ég að þið látið konurnar veiða. Ég borga ykkur eitt hundrað krónur fyrir hvern veiddan lax. Að svo búnu var samningurinn handsalaður án frekari orðaskipta. Við héldum til veiða fyrir neðan veiðihúsið með konunum sem voru áhugasamar og góðir veiðimenn. Þetta var á síðdegisvaktinni fyrsta daginn. Áin var í vexti og nokkuð lituð og fiskurinn var á ferðinni. Systurnar veiddu vel. Það voru því kátar og stoltar veiðikonur sem komu í hús um kvöldið með 25 laxa. Karlarnir sem líka höfðu veitt vel, en ekki nærri eins og systurnar, ráku upp stór augu en samglöddust systrunum. Þeir höfðu augljóslega ekki átt von á þessu moki þeirra. Við hestasveinarnir vorum einnig kampakátir þó að við stilltum okkur fyrir framan Hallgrím enda höfðum við þénað aukalega heil mánaðarlaun hestasveina á sex tímum.

Arnór Sigurjónsson, einn höfunda bókarinnar með sinn fyrsta lax. Veiddur …
Arnór Sigurjónsson, einn höfunda bókarinnar með sinn fyrsta lax. Veiddur í veiðistaðnum Ólafíu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Aftur fundað í hnakkageymslu

Daginn eftir kallaði Hallgrímur til okkar. Hestasveinar, hestasveinar það er fundur í hnakkageymslunni. Hallgrími var mikið niðri fyrir og hann sagði; Hestasveinar, þið stóðuð ykkur vel en í ljósi aðstæðna finnst mér samningurinn ekki raunhæfur. Ég borga hverjum ykkar 2.500 krónur fyrir allan túrinn. Þannig verður samningurinn núna. Við mótmæltum og kváðum þetta vera samningsbrot, þó að undir niðri værum við sáttir við að vera að tvöfalda mánaðarlaunin okkar auðveldlega. Okkar mótmæli hrinu ekki á Hallgrími sem sleit fundi.“

Einar lítur glottandi upp úr bókinni. Uppsker léttan hlátur og hefur vonandi tekið eftir aðdáunarglampanum í augum þess sem hlustaði. Það er margt í þessari stuttu sögu. Mögnuð veiði og sextán ára gamlir unglingsstrákar sem þorðu að mótmæla þó svo að það hafi ekki borið fullan árangur. En allir skyldu sáttir eins og kemur fram í sögulokum.

Þetta voru þriggja mánaða tarnir og ekki tækifæri til að vera að skjótast í bæinn. Hestasveinarnir mættu fyrstir og fóru síðastir og oft var vetur að setjast að þegar heim var haldið.

Þessi mynd er tekin af þeim félögum Árna Baldurssyni og …
Þessi mynd er tekin af þeim félögum Árna Baldurssyni og Tóta tönn, Þórarni Sigþórssyni árið 2001 þegar þeir ríða fram í Starir í Kjarrá. Þórarinn er til hægri og á undan, eins og vera ber. þetta er nokkuð eftir tíð hestasveinanna en sögufræg mynd engu að síður. Ljósmynd/Lax-á

Það er gaman að heyra Einar lýsa aðstæðum í þessari veiðiparadís sem Kjarrá var á síðustu öld og er raunar enn. Nestið þeirra hestasveina var yfirleitt brauð og meðlæti, jafnvel kótelettur en ávallt var kakóbrúsi með í för fyrir hestasveina. Þetta var fyrir tíma stálbrúsanna þannig að margra metra löng kjötgrisja var vafinn um brúsann til að forða hnjaski og halda enn betur hita á innihaldinu. Þvottar voru ekki í forgangi í aðstöðunni og hlær Einar að því hvernig gallabuxur þeirra félaga voru í lok vertíðar, stífar af hrossafitu og öðru því sem þær höfðu verið í snertingu við allt sumarið. „Maður var ekki laus við hrossafituna af höndunum fyrr en í október,“ hlær Einar.

Bókin Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól er áhugaverð bók og fyllsta ástæða til að óska þeim þremenningum til hamingju með hana. Bókin er hafsjór af fróðleik um Kjarrá og lífið þar efra á þeim tíma sem hestasveinar voru leiðtogar og leiðsögumenn. Stefán Þórarinsson var fremstur í hópi jafningja þegar kom að því að skrifa en eins og Einar segir, „Við erum grobbnir af henni í dag og það var þörf að segja frá þessum merkilega tíma.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert