Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra Íslands sumarið 1969 þegar hann lenti í miklum háska við veiðar í Kjarrá. Frá þessu hefur ekki verið greint fyrr en nú í bókinni Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól.
Einar Sigurjónsson var hestasveinn þar efra og er einn höfunda bókarinnar. Einar greinir frá þessu atviki í bókinni. Kaflinn heitir „Einar, Einar, hjálpaðu honum“ Hann var með þrjá veiðimenn fram á Eyrum, sem kallast. Var riðið þar fram eftir á hestum og var Einar eins og fyrr segir hestasveinn en um leið leiðsögumaður þeirra við ána. Veiðimennirnir voru Bjarni Benediktsson, frú Sigríður Björnsdóttir forsætisráðherrafrú og Hallgrímur Fr. Hallgrímsson forstjóri Skeljungs. Einar segir frá því að Bjarni hafi verið að veiða Einarsstreng og að hann og Sigríður hafi verið að fylgjast með veiðimanninum. Hallgrímur var nokkuð frá þeim en á leið til þeirra á hesti sínum Vindi. Svo skrifar Einar. „Bjarni var að veiða og fetaði sig rólega eftir grasbakkanum niður með strengnum. Allt í einu losnaði stór fylla úr bakkanum þar sem Bjarni stóð og féll í ána með Bjarna. Áin hafði holað sig undir bakkann sem gaf sig er Bjarni steig á hann. Bjarni fór á kaf og hreyfst með straumnum. Frú Sigríður hrópaði: „Einar, Einar, hjálpaðu honum.“ Ég hljóp út í ána og náði taki í regnkápu Bjarna og náði að stýra honum þar sem hann barst með straumnum niður strenginn að eyrinni neðan til. Þar náði Bjarni að fóta sig og komst á fætur. Í þeim svifum kemur Hallgrímur ríðandi og sér að allt er í lagi með Bjarna fyrir utan að hann var gegnblautur.
Frú Sigríður hugðist kveikja sér í sígarettu eftir þetta sjokk en kveikjarinn, sem hún hafði fengið að gjöf frá Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseta á sínum tíma, stóð á sér. Þá rumdi í Hallgrími: „Hestasveinn, hestasveinn, farið þér í Víghól og sækið eld handa frúnni.“ „Nei, nei enga vitleysu,“ kvað þá í Sigríði. „Við verðum að koma Bjarna í skjól svo að ekki slái að honum svona gegnblautum.“ „Hvað leggur þú til?“ spurði Bjarni mig. Ég sagði stutt væri að fara í leitarmannakofann við Gilsbakkasel. Það varð úr að fara þangað og leita skjóls til að huga að Bjarna. Hvítsíðingakofinn var opinn eins og alltaf og gasprímus og eldfæri til staðar þannig að hægt var að hita svolítið með honum. Frú Sigríður dreif Bjarna úr rennblautum fötunum og klæddi hann í grisjurnar sem við notuðum til að verja kaffibrúsana samstuði í nestistöskunum. Grisjurnar dugðu á bol, fætur og um hálsinn á Bjarna sem stóð þarna hinn rólegasti um stund á svefnpallinum í grisjunum og sagði brosandi: „Ég er að verða eins og egypsk múmía.“ á meðan að við frú Sigríður undum lopapeysuna hans. Því næst fór hann í peysuna, regnfötin og stígvélin og við riðum heim í Víghól.“
Þetta er frásögn Einars í bókinni. Ljóst er að litlu mátti muna til að ekki færi verr. Einar staðfesti það í samtali við Sporðaköst að vissulega hafi verið háski á ferð og jafnvel lífsháski, þegar Bjarni féll óvænt í straumharða og kalda ána.
Þau forsætisráðherrahjón vitjuðu Einars og hinna hestasveinanna um kvöldið og þökkuðu fyrir hjálpina. „Þau voru létt í lund en sögðu að ekki mætti segja þessa sögu fyrr en þau væru öll.“ Einar hefur ekki áður sagt frá þessum háska þáverandi forsætisráðherra. En eins og kunnugt er þá fórust þau Bjarni Benediktsson og kona hans Sigríður Björnsdóttir í bruna á Þingvöllum ári síðar. Í því hörmulega slysi lést einnig fjögurra ára gamall dóttursonur þeirra.
Forsætisráðherrahjónin launuðu fyrir sig með því að senda hestasveinum, síðar um sumarið stóran kassa sem í var bæði sælgæti og lesefni fyrir ungu piltana sem voru þar efra allt sumarið.
Bókin Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól er hreint út sagt frábær bók. Hún bætist í ríkulega flóru veiðibóka sem koma út fyrir þessi jól. Fyllsta ástæða er til að þakka þeim hestasveinum, Stefáni Þórarinssyni, Arnóri Sigurjónssyni og Einari Sigurjónssyni og Skruddu sem gefur út, fyrir þetta ritverk.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |