„Þetta var geggjað sumar. Ég fór í marga frábæra veiðitúra en það sem var sammerkt með þeim öllum er að veðrið var alltaf í einhverju tómu rugli,“ hlær Þorbjörn Helgi Þórðarson þegar hann rifjar upp veiðisumarið 2024. Þorbjörn Helgi er fyrsti af nokkrum veiðimönnum sem ætla að fara yfir veiðisumarið með okkur á næstu dögum, eða þar til nýtt ártal skellur á okkur.
Þorbjörn Helgi er í hópi veiðimanna jafnvel betur þekktur undir nafninu Reiða öndin. Já og á tyllidögum jafnvel, Reiðari öndin. En hann hefur hannað vörur og flugur fyrir veiðimenn um langt skeið og er handbragð hans eitthvað sem margir veiðimenn dást að og sækjast eftir.
„Þetta byrjaði vel í Laxárdalnum í vor en lentum svo í aftakaveðri. Stórhríð og ég hef ekki áður gert snjókarl í veiðitúr. Við vorum búnir að vera að veiða sjálfir og svo voru að koma erlendir veiðimenn sem við ætluðum að aðstoða. Það kom bara vetur og já. Þetta var aftakaveður. Það var samt einn sem fór út að veiða og það var Valli. Lét sig hafa það og fór út með einn af gestunum. Út í storminn og hríðina. Hann var búinn að reikna út að þeir fengju skjól í norðanáttinni af Auðnuhólma. Sumir eru bara þannig að það stöðvar þá ekkert,“ upplýsir öndin og greina má vott af aðdáun í röddinni.
„Svo var það Laxá í Kjós og það var svona í lagi. Næst var það Hítará og þar lentum við í flóðum. Ég og Októ félagi minn við veltum fyrir okkur hvort ekki væri betra að fá lánaða traktorsslöngu og fara bara í rafting. Aðstæður voru flottar fyrir það. Hítaráin var bara ein flúð og þetta var 17. til 19. júlí,“ hlær hann.
Vatnsdalurinn stóð undir nafni og þar var mjög mikið vatn. Svo lá leiðin í Stóru Laxá, með frúnni. „Þetta er til svo mikillar fyrirmyndar hjá Finni. Hann er sennilega með flottasta pall sem nokkurt veiðihús getur státað af. Pallurinn kallar á mann að maður fari út og leggist á hann. Það var sko ekki smuga. Það var hífandi rok og skítakuldi og þetta var um verslunarmannahelgina. Maður fór svo upp í gljúfur að veiða og það bara fauk af manni draslið.“
En hápunktur sumarsins hjá Þorbirni Helga og sjálfsagt mörgum fleirum. Krauna leiðsögumanni í Aðaldal, Herði Filipssyni og fleirum var veiðin á Knútsstaðatúni. Þar sem þeir félagar áttu töfrastund með Björgvini Krauna Viðarssyni. Græjur frá því í gamla daga, bambusstöng hjól og lína, að ógleymdri flugu eins og voru mest notaðar um miðbik síðustu aldar. Og laxinn sem þeir lönduðu. Allt þetta má lesa í fréttinni sem er hér að neðan um þetta magnaða síðdegi á Knútsstaðatúninu. „Þetta var top of the line, eins og Björgvin Halldórsson myndi segja.“ Fréttinni fylgir myndband sem tekið var upp af þessari mögnuðu baráttu Krauna við stórfiskinn með gömlu græjunum.
Þorbjörn Helgi er afburða hnýtari og hefur hannað margar flugur sem bera ábyrgð á hamingjustundum veiðimanna. Í sumar var hann að vinna með Hregginn sem skilaði góðum árangri og ekki síðri er Valbeinninn í öllum útfærslum. Um þessar nýju flugur sagði Þorbjörn Helgi. „Hreggur stóðst öll próf og túban svín virkaði. Valbeinn míkró eða gára og þríkrækja númer átján virkar eins og vindurinn.“
Veiðibækur víða um land staðfesta ummæli höfundar. Víða var bókað á þessar flugur og þær eru eitthvað sem væri vert að hafa bak við eyrað fyrir næsta sumar – sumarið 2025.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |