Át ömmuna eins og úlfurinn í Rauðhettu

Ólafur Tómas með merktan urriða úr Laxárdal. Hann hefur tekið …
Ólafur Tómas með merktan urriða úr Laxárdal. Hann hefur tekið ástfóstri við dalinn. Veiðisumarið hans var með talsvert öðru sniði en fyrri ár. Fór til dæmis ekki lax í fyrsta skipti í tuttugu ár. Ljósmynd/ÓTG

Veiðin hjá Óla urriða eða Ólafi Tómasi Guðbjartssyni var með öðru sniði í ár. Vorveiði á niðurgöngufiski heillar hann ekki lengur og í fyrsta skipti í tvo áratugi fór hann ekki í lax. Það varð hins vegar ekki skortur á ævintýrum hjá Óla sumarið 2024. Við höldum áfram að skyggnast í minningakistur veiðimanna frá því í sumar.

„Veiðisumarið mitt var yndislegt eins og alltaf. Það var þó ívið rólegra en oft áður. Ég byrjaði seint að veiða og sleppti vorveiðinni alveg. Í það minnsta hvað varðar niðurgöngufisk. Enda er það óttaleg andleg snákaolía, með þessum verðmiðum sem nú eru komnir á hana, að mínu mati. Ég hef orðið afhuga henni í seinni tíð, þó hún hafi glatt mig í mörg ár. Mögulega er það bara leti.

Gamlinginn úr Norðlingafljóti sem Óli bankaði upp á hjá með …
Gamlinginn úr Norðlingafljóti sem Óli bankaði upp á hjá með þurrflugu. Hann var heima að þessu sinni. Ljósmynd/ÓTG

Fallinn fyrir Laxárdal og Norðlingafljóti

Ég eyddi mestum persónulegum veiðitíma mínum í að eltast við urriða á þurrflugu. Ég tók þátt í að merkja þá nokkra í Laxárdalnum en dalurinn hefur skotið rótum sínum djúpt í hjarta mitt. Það var mjög góð veiði í dalnum þetta árið og gaman að sjá nýja kynslóð fiska koma upp. Annað svæði sem hefur algjörlega fangað mig er Norðlingafljótið. Það er eitthvað svo heillandi við að týna sér undir jöklum með flugustöngina. Ég hef undanfarin ár farið með hópa í ferðir í fljótið og þekki því svæðið nokkuð vel. Ég er meira að segja farinn að heimsækja einstaka fiska í hvert sinn sem ég fer. Stundum eru þeir heima, stundum ekki. En einn vinur minn var heima þetta árið þegar ég bankaði létt hjá honum með Caddisþurrflugu. Þessi urriði á heima á furðulegum stað, sem flestir veiðimenn ganga framhjá. Í lítilli holu, rétt við bakkann. Þar situr hann þessi gamli urriði og leggur kapal undir pendúlslætti gamallar viðarklukku og nagar Sæmundarkex í formi sjálfdauðra skordýra. Hummar og haaa-ar þangað til einhver kíkir í heimsókn. Það getur liðið langur tími milli heimsókna. En hann fagnar hverri og einni þeirra. 

Bleikjuamman úr Hópinu. Óli urriði át þessa ömmu eins og …
Bleikjuamman úr Hópinu. Óli urriði át þessa ömmu eins og úlfurinn gerði í ævintýrinu um Rauðhettu. Þessi er silfurgljáandi og einfaldlega úrvals hráefni. Ljósmynd/ÓTG

 

Enginn lax en bleikjuamma

Þetta var sérstakt veiðisumar fyrir þær sakir að þetta var fyrsta veiðisumarið mitt í yfir tuttugu ár þar sem ég fæ ekki lax. Ég fór reyndar ekki neitt að veiða lax í sumar, svo það segir sig sjálft. Laxveiðileyfin eru farin að kosta svo mikið að ég nýt þess ekki lengur að veiða lax undir þeirri pressu. Einnig fékk ég aðeins einn sjóbirting og eina sjóbleikju. Sjóbirtingurinn var bara unglingur en sjóbleikjan var lífsreynd amma sem var nýgengin inn í Hópið úr sjó og var líklega á leiðinni upp í Víðidalsá. Ég tók sénsinn í enda júní og beið eftir fyrstu sjóbleikjugöngunum, vitandi að þær stóru koma fyrst. Ég tók mér úlfinn í Rauðhettu til fyrirmyndar og át þessa ömmu. Það getur mögulega grætt einhverja, en hún gladdi marga á móti. Hún var jafnframt eini fiskurinn sem ég drap þetta sumarið, þrátt fyrir hávær loforð til fjölskyldu og vina að ég skildi nú taka nokkra silunga í forða fyrir veturinn. Maður þorir varla að birta myndir af dauðum fiskum lengur.

Óli og María. Kærustuparið fór víða og eltist við silung …
Óli og María. Kærustuparið fór víða og eltist við silung í sumar. Óli spyr: Er ekki pláss fyrir annað Óla og Maríu par í veiðinni? Svarið er jú, það er nóg pláss. Ljósmynd/ÓTG

Kærustupar í veiði

Við María kærastan mín flökkuðum síðan um fallega landið okkar með topptjald á jeppanum, þegar fór að dimma á kvöldin í lok sumars og köstuðum músum fyrir urriða í litlum ám í gull fallegri náttúru. Að veiða urriða á mýs í rökkrinu er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri. Tökurnar eru svo brútal að hjartað tekur harkalegan kipp í hvert sinn sem þeir ráðast á hana fyrirvaralaust í yfirborðinu. María er mikil veiðikona og mér finnst það yndislegt að ferðast með henni og upplifa veiði frá ýmsum sjónarhornum. Var ekki annars pláss fyrir annað Óla og Maríu par í veiðinni? Ég endaði svo tímabilið í lok ágúst með hóp upp í Norðlingafljóti og pakkaði saman eftir það. Það hefur ekki gerst frá því að ég kastaði mínu fyrsta kasti fyrir fisk sem barn að ég byrji jafn seint og hætti jafn snemma. En munurinn á veiðinni minni nú orðið samanborið við árin á undan, er að ég vel mína veiði eftir þeim veiðiaðferðum sem mig langar helst að beita. Það fara margir klukkutímar í það að sitja við bakkann, horfa og hlusta, snúa við steinum og njóta þess að anda að sér Íslenskri náttúru, er maður plottar hvernig maður eigi að verða sem náttúrulegasti partur af henni. Það gerir hverja ferð að lúxus upplifun. Ég get vart beðið eftir ævintýrum næsta sumars.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert