„Þetta var fínt sumar hjá mér. Óvænt ánægja í Aðaldalnum. Mér telst til að ég hafi fengið fisk nánast á hverri einustu vakt í allt sumar. Ég var þarna í 27 daga. Stundum fékk tvo og einu sinni fékk ég fjóra,“ hlær hann og það er tilfinning í hlátrinum. Við erum að sjálfsögðu að tala við Kónginn, Bubba Morthens. Hann er ekki bara hefðarmenni þegar kemur að tónlist. Í Aðaldalnum eyðir hann fleiri dögum en nokkur annar veiðimaður. Jahh kannski er einn eða tveir á svipuðum slóðum.
Partíið hjá Bubba í Aðaldalnum stækkaði í fyrra. Sonur hans Brynjar Úlfur Morthens og félagi hans Magnús Anton Magnússon hafa í tvö ár komið með í Aðaldalinn. Bubbi sér fram á að þeir verði hér eftir sem tungl á braut um jörðu með honum fyrir norðan.
„Brynjar hringdi í mig fyrir tveimur árum og sagðist vera byrjaður að veiða. Ég spurði hvað hann væri að tala um. Ertu að fikta eða er þetta í alvörunni?“ Bubbi hlær og skilur af hverju það er hlegið á móti. „Hann svaraði að hann væri bara heltekinn. Þá sagði ég, þú skalt bara koma heim og ég fór með hann ofan í kjallara og við völdum fyrir hann stangir og flugur. Ég sagði við hann, það þýðir ekkert að ræða við mig um þetta fyrr en þú ert búinn að koma með mér í Aðaldalinn og læra að veiða í erfiðustu á, á Íslandi. Það var sem við manninn mælt að þeir mættu þarna félagarnir í fyrsta skipti í fyrra og þeir lentu í ævintýrum. Þeir settu báðir í fiska sem voru í tíu kílóa klassanum og misstu þá. Svo lönduðu þeir öðrum minni. En ég sá alveg hvað var að gerast. Þetta er svona þegar maður horfir í augun á fólki og sér breytinguna. Þetta var alveg gríðar gaman,“ upplýsir Bubbi um þetta og það má greina stolt, hlýju og mikla ánægju í röddinni.
En í hvaða hlutverki ertu þegar þeir eru á svæðinu? Pabbi, leiðsögumaður eða veiðifélagi?
„Ég er enn sem komið er meiri pabbi og leiðsögumaður. En svo þegar þeir eru tveir að veiða þá segi þeim bara hvaða staði þeir eigi að fara á og hvernig eigi að veiða þá staði.“ Hann nefnir sem dæmi að hann vildi sjálfur veiða Grundarhyljina. „Ég skyldi Brynjar eftir á Grundarhorninu og útskýrði fyrir honum hvar hann ætti að kasta og hvar væru líkur á að fiskur tæki. Sjálfur var ég bara eitthvað að væflast í Grundarhyljunum. Ég er heyrnalaus sko, en heyrði samt eitthvað hljóð berast með ánni. Eitthvað torkennilegt hljóð. Ég hugsaði með mér að kannski hefði hann sett í fisk og lallaði mér til hans í rólegheitunum. Þá sá ég að allt var í keng hjá honum og þá varð ég nú glaður og hann var líka mjög glaður. Það er svo mikilvægt að setja í fisk sjálfur. Það er eins og að opnist fyrir manni bókin. Já. Svona er þessi hylur. Þetta er einmitt kúnstin við Aðaldalinn. Hún er þannig að þú sérð enga tökustaði og þetta er svo stórt og mikið.“
Bubbi hélt áfram að kenna þeim í sumar og þeir fóru saman í gegnum fjölmarga veiðistaði og hann metur stöðuna sem svo að þeir séu alveg orðnir veiðifærir í ánni. „Sérstaklega hefur neðsti hlutinn í ánni reynst þeim vel, en þeir hafa líka gert góða hluti ofan fossa. Maggi fékk 92ja sentímetra fisk á Mjósundi. Brynjar setti í tíu kílóa fisk á Hólmavaðsstíflu með Krauna. Ég spurði Krauna hvort hann hefði virkilega verið svona stór og Krauni játti því. Brynjar setti í hann á litla Sally einkrækju en svo lak úr honum, eins og gengur.
Þetta gleður mig mikið og ég verð að segja það að maður yngist allur upp þegar maður er kominn með svona unga stráka með sér í veiðina. Það breytist andrúmsloftið. Þeir sögðu við mig mjög alvarlegir í haust þegar ég spurði þá hvert planið væri, að þeir myndu veiða í Aðaldalnum á meðan yrði leyft að veiða þær. Mér þótti vænt um það.“
Bubbi segir þá vera duglega og þeir fari víðar til að veiða og geri gott mót.
En aftur að Laxá í Aðaldal og síðasta sumri.
„Þetta var besta veiðin í æði langan tíma. Það var fiskur á öllum stöðum þegar leið á og fiskur var farinn að sýna sig í uppánni svona fyrstu vikuna í júlí. Hann var mættur á Nes svæðið á þeim tíma og þetta er þriðja árið í röð sem hefur verið töluvert af smálaxi. Nú ætla ég að leyfa mér að vona að það verði töluvert af tveggja ára fiski í sumar.“
Já. Eigum við ekki bara að vera sammála um það Bubbi að næsta sumar verði spennandi?
„Jú. Ég væri allavega orðinn heilbrigður ef ég héldi eitthvað annað. Enda eru veiðimenn þannig upp til hópa að þeir eyða miklum peningum í laxveiði ár eftir ár og oft gerist ekkert en svo kemur janúar og þá hugsar maður. Já, þetta verður miklu betra í sumar og ég get sagt þér það að ég er nú fyrrverandi fíkill og edrúmaður. Þetta minnir mig á tímana þegar maður var í neyslu og sagði, nú er ég hættur. Svo vaknaði maður að morgni dags og hugsaði, þetta var nú ekkert svo slæmt. Ég get alveg byrjað eftir hádegi. Allavega smá.“ Hann hlær lengi.
Mig langar að skilja ástarsamband þitt við Laxá í Aðaldal.
„Það er logandi heit ást. Hún á það til að vera köld á köflum við mann en ég er svo kollfallinn fyrir drottningunni að ég sé bara ekkert annað. Auðvitað fer ég öðru hvoru eitthvað annað í aðrar ár og mér finnst það alveg átakanlegt að vera að kasta í þessar sprænur. Það stenst ekkert samanburð við það að setja í nýgenginn stórlax í Kistukvísl, á Brúarflúð eða uppi á Hólmavaði. Það er ekkert sambærilegt. Við vöðum ekki svo mikið til að ná í fiskinn. Þetta er svo allt annar leikur. Líkur á að halda stórlaxi í Aðaldalnum eru bara ekki þér í vil. Það þarf alls konar skemmtilega og stundum fáránlega hluti til að ganga upp þannig að þeir landist. Svo veiði ég mikið einn og það eykur nú ekki líkurnar.“ Hér stoppar Bubbi en skáldið er bara að ná utan um hugsanir sínar. Svo kemur;
„Fegurð hennar er líka einstök. Hún hefur mismunandi leiðir til að tala við mann. Nes svæðið er til dæmis miklu hægara og hljómurinn í ánni er miklu dekkri. Hann er ekki eins ærslafullur og bjartur og niðurfrá. Áin dregur lit í sig af heiðinni alveg frá Brúarflúð og upp á Óseyri. Það eru mismunandi raddir í Laxá og ólík litbrigði. En það er ekkert sem jafnast á við að veiða til dæmis Kirkjuhólmakvíslina í byrjun í júlí.“
Bubbi á sér þann draum að geta veitt þann ágæta stað að kvöld og næturlagi þegar birtan er mest. Byrja kannski um sex leitið í eftirmiðdaginn og veiða til morguns og fara þá í koju.
„Laxá í Aðaldal er einstök og það er ástæða fyrir því að hún er kölluð drottningin. Auðvitað eru allar ár sem geyma laxa fallegar og ég vil ekki tala niður til annarra áa en hún er bara svo einstök. Menn verða helteknir af Laxá og hún er stóra ástin mín þegar kemur að laxveiði. Ég er orðinn svo heltekinn af henni að ég er alvarlega að spá í að splitta öskunni þegar verður búið að brenna mig. Helmingurinn af dollunni fer í Laxá og helmingurinn verður eftir í dollunni. Þetta er ekki flóknara en það. Laxá er stórbrotnasta á sem við eigum.“
Sagan í Aðaldalnum, hvernig veiðin hefur gengið þar mann fram af manni áratugum saman, heillar Bubba líka. Hann nefnir til sögunnar nokkra af merkismönnum sem þar hafa gengið um bakka. Heimir á Tjörn, Snorra, Sæmund og Steingrím. Fjölskyldurnar í Nesi og á Laxamýri. Það er stutt í að kóngurinn verði meir á þessum síðustu dögum ársins. Það er smitandi.
Bubbi, veistu hvaða lag hljómar í hausnum á mér þegar ég hlusta á þessar ástarjátningar?
„Nei. Segðu mér.“
Fallegasta lag sem ég hef heyrt og þú samdir. Þessi fallegi dagur.
„Já. Hugsaðu þér. Takk fyrir það. Það er ekki leiðinlegt og fallegur vitnisburður. Sko þetta er ekki bara að mæta á staðinn og vilja að lax taki. Ég er ekki enn farinn að nefna berin. Bláberjabreiðurnar sem blasa við manni á haustin. Ég fer oft í ber þarna. Einu sinni var ég fyrir norðan og það var leiðindaástand á ánni. Komst einhver þörungur í hana og það var engin veiði. Ég fór í ber og var staddur ofan við Kirkjuhólmakvísl og allt í einu blöstu við mér fjórir hershöfðingjar. Þeir lágu upp á klöpp á grunnu vatni stutt frá eyjunni. Ég var búinn að tína gríðarlegt magn af berjum. Var með stóran bala og hann var orðinn alveg kúfaður af bláberjum. Það greip mig mikill skjálfti við að sjá þessa stórfiska liggja þarna og reri yfir. Ég byrjaði að kasta um klukkan þrjú og þrákastaði þar til klukkan var orðin hálf sjö um kvöldið. Þá tók einn þeirra. Loksins. Ég náði honum eftir mikið ævintýri. Hélt fyrst að ég hefði fest í klöppinni og var farinn að reyna að leysa festuna. Vafði línunni um höndina á mér en þá stökk hann. Þetta reyndist 103 sentímetra fiskur og sá eini sem veiddist í hollinu enda áin afskaplega erfið þessa daga. Þannig að ég var með fimmtíu lítra af bláberjum og einn 103ja sentímetra lax eftir túrinn.“
Hvað gerir þú við öll þessi bláber?
„Ég hreinsa þau að Aðaldælinga sið með hárblásara. Set bara á kaldan blástur og blæs ruslinu í burtu og eftir sitja berin. Ég frysti þetta svo í hæfilegum skömmtum og nota í búst á veturna. Þetta er alveg geggjað og maður er nánast með Aðaldalinn í seilingarfjarlægð allan veturinn.“
Þú ert svo „all in,“ Bubbi. Fyrirgefðu að ég sletti.
Hann grípur þetta á lofti. „All in. All in. Það er eina leiðin til árangurs, Eggert. Sjáðu bara Árna Baldursson. Hann er stórkostleg fyrirmynd. Ef ég væri ekki atvinnu tónlistarmaður og það væri sem ég vinn við stóran hluta ársins, væri ég sennilega bara eins Árni Bald. Stjörnugeggjaður. Árni Baldursson er all in. Hann veiðir til að lifa. Mér finnst þetta svo virðingarvert og dáist að þessu. Svona mættu allir vera gagnvart því sem þeir taka sér fyrir hendur. Þannig fáum við árangur og lífsgleði og fyllingu.“
Það er erfitt að setja punkt þegar umræðuefnið er Laxá í Aðaldal. Bubbi nefnir bókina eftir Steinar J. Lúðvíksson sem kom út fyrir jólin. Drottning norðursins. Hann er mjög hrifinn og segir svo greinilegt hvað bókin er skrifuð af mikilli ástríðu. Hann hefur nýlokið við lesturinn og á vart orð til að lýsa hrifningu sinni. Víst er að bók Steinars J. er mikið og vandað verk.
Bubbi og Brynjar Úlfur sonur hans prýddu forsíðu Sportveiðiblaðsins sem kom út fyrr á árinu. Þar er Bubbi í ótrúlega fallegri lopapeysu. Blá með hvítum og gulum bekk.
Hvar fékkstu þessa peysu Bubbi?
„Hún er frá Húsavík. Kaðalín handverkshús. Það eru konur á Húsavík sem eru með búð og eru að selja meðal annars lopapeysur og ég fór bara í búðina til þeirra og bað þær um að prjóna á mig peysu. Það var nú ekki málið og þær prjónuðu líka fyrir buff. Ég verð að segja það að eftir að ég fékk þetta frá þeim þá fer ég varla þennan tískufatnað lengur. Jú auðvitað koma dagar þar sem maður þarf vöðlujakka en þetta eru dásamlegar flíkur. Og svo er þetta svo fallegt og góð tenging við gamla tíma að vera í lopapeysu.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |