„Þetta var mjög gaman og mikið fyrir þessu haft, að ná þessum myndum. Ég var búinn að sjá þær frá veginum og tók myndir af þeim þar. En til að komast í návígi við þær þurfti ég að labba upp fyrir skóginn og á dágóðum kafla þurfti ég að vaða snjóinn í klof. En fyrir ofan skóginn var betri birta og það borgaði sig. Það var ekki til að þær væru styggar. Flögruðu bara á milli trjánna en voru afskaplega rólegar og ég truflaði þær ekki mikið,“ sagði Höskuldur Birkir Erlingsson spurður út í einstaklega fallegar myndir sem hann tók um helgina af rjúpum í trjágróðri fyrir norðan.
Höskuldur er maður margra jakka. Hann er aðalvarðstjóri í lögreglunni á Norðurlandi vestra á Blönduósi, söngelskur með afbrigðum og leiðsögumaður, rjúpnaskytta og ekki síst áhugaljósmyndari. Þetta er ekki tæmandi listi en síðastnefnda áhugamálið hefur í fjölmörg skipti ratað á síður Morgunblaðsins eða á mbl.is.
Þessi trjálundur sem Höskuldur fann rjúpurnar í er ekki stór. Hann giskaði á fjögur til fimm hundruð metrar á breidd og hundrað metra á lengd. En hann sá töluvert magn af rjúpu á flögri og sitjandi í birkinu. „Ætli ég hafi ekki séð tuttugu til þrjátíu fugla en örugglega verið fleiri fuglar inni í skóginum.“
Höskuldur er einn þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða um land allt sem telja rjúpur á afmörkuðum svæðum árlega. Þær talningar eru hluti af því ferli að meta stofnstærð rjúpunnar árlega. Talningar fara fram bæði að vori og hausti.
„Þessi skógarlundur sem ég var að mynda í er ekki við Blönduós en ég hef tekið eftir því að hér í okkar nærumhverfi er mjög mikið af rjúpu. Til dæmis í Vatnahverfinu þar sem golfvöllurinn er, þar er gríðarlega mikið af rjúpu.“
Er það ekki gott fyrir samvisku veiðimannsins að sjá svona mikið af fugli, á þessum tíma?
„Það er nákvæmlega málið. Þegar maður sér svona mikið af fugli liggur fyrir að stofninn er á góðu róli og mikið lifað af umhleypingar og veiði. Það er á marga fugla setjandi og útlitið er gott.“
En hvernig gekk rjúpnaveiðin hjá þér?
Höski, eins og hann er iðulega kallaður, skellir sér úr lögreglujakkanum og í rjúpnagallann. „Rjúpnavertíð hjá mér gekk bara vel. Fyrir þó nokkuð mörgum árum síðan þá fór ég í þarfagreiningu. Eftir að maður hætti að veiða til þess að selja þá fór ég í greiningu á því hvað ég þarf marga fugla. Ég hef síðan alltaf stefnt að því og yfirleitt náð því. Ég sá þó nokkuð af fugli í haust. Bæði hér í námunda við Blönduós og líka í árlegri veiðiferð í námunda við Hólmavík.“
Hvað heyrðirðu almennt á veiðimönnum?
„Ég heyri almennt á mönnum að þeir hafi náð því sem að var stefnt. Það hafi ekki verið vandamál og margir slepptu dögum af því að þeir voru komnir með nóg fyrir sig. Varðandi nýja fyrirkomulagið þá hef ég ekki heyrt neitt nema jákvætt frá þeim veiðimönnum sem ég umgengst. Fyrir mína parta þá er mér alveg fyrirmunað að menn séu að hnýta í þetta. Ég heyri ekki betur en að menn séu að ná því sem þeir þurfa. Auðvitað verður aldrei fullkomin sátt með allt en við vorum komnir á þann stað að það varð að setja á einhvers konar veiðistjórnunarkerfi og við erum allavega komnir þangað. Væntanlega verður það svo skoðað og endurmetið. Mér finnst þetta jákvætt og skref í rétta átt og væntanlega eitthvað sem verður til frambúðar.“
Fyrir marga eru rjúpur sérstök hátíðamáltíð tengd jólum og jafn mikilvægar og sjálft jólatréð. En hver er jólahefðin hjá Höska með rjúpuna?
„Ég er alinn upp við að borða rjúpur á jólunum og ólst upp við það hjá foreldrum mínum en eftir að ég byrjaði að búa sjálfur þá er ekki vilji fyrir því,“ hlær hann. „Það er eins og gengur og þá þarf að fara bil beggja. Í eitt skipti fórum við bræður með rjúpur til foreldra okkar og mamma eldaði þær upp á gamla mátann, á nýju ári.
En svo er orðin til hefð sem mér þykir afskaplega vænt um. Það er þannig að við leiðsögumenn við Laxá á Ásum erum með holl sjálfir um mánaðamótin ágúst september í einmitt Ásunum. Þar hefur skapast sú hefð að ég kem með rjúpur í hollið og meistarakokkurinn Sturla Birgisson eða kokkar á hans vegum elda fyrir okkur rjúpnaveislu.“
Jesús minn.
„Þú getur rétt ímyndað þér að vera með Bocuse d´Or meistarann þarna á kantinum að elda fyrir okkur rjúpu. Það hefur verið til skiptis annað hvert ár rjúpnasúpa Stulla, sem er besta rjúpnasúpa í heimi og svo hitt árið léttsteiktar rjúpnabringur og guð minn almáttugur...“
Já það var einmitt það sem ég hugsaði þegar þú birtir þessar myndir. Hin bragðgóða fegurð.
„Já, já. Akkúrat.“
Aftur í lögreglujakkann Höski. Var eitthvað um að þyrfti að hafa afskipti af veiðimönnum á rjúpnaveiðitíma?
„Heilt yfir var þetta bara í fínu lagi. Ég man ekki eftir að það hafi verið mikið um tilkynningar um annað. Mér finnst og það byggi ég bara á tilfinningu, að þetta veiðimannasiðferði hafi snöggtum skánað núna á síðustu árum. Þetta er komið í gott horf. Það eru nánast allir komnir með rafræn skilríki. Bæði skotvopnaleyfið og veiðikortið er í símanum og það er orðið svo auðvelt að hafa þetta í lagi. Það eru allir með símann á sér og menn hafa ekki lengur þá afsökun að þeir hafi gleymt skírteinunum heima.“
Myndirnar sem fylgja þessari frétt eru allar teknar af Höskuldi um helgina og sýna þennan fagra ljúffenga heimskautafugl í vetrarumhverfi þegar rjúpan leitar í trjágróður. Þær verða ekki fallegri jólakúlurnar á trjánum. Þetta eru myndir af rjúpum í birkihaga, þar sem þær éta fræin og það má treysta því að ekki væsir um þær þó að frostið sé töluvert og bíti menn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |