Rótgróin hefð er fyrir stangveiðikeppnum víða í heiminum. Flest lönd í Evrópu eru með landslið í þessum greinum og keppa reglulega bæði í karla og kvennaflokkum. Það telst því til tíðinda þegar Íslendingur keppir á slíku móti. Ólafur Hilmar Foss er mættur til Wales og er þar að fara keppa í harraveiði. Sá fiskur heitir upp á ensku grayling og þekkist gjörla af stórum og miklum bakugga. Þennan fisk má víða finna í ám á Bretlandseyjum og víðar og þykir hinn ágætasti sportfiskur.
Keppnin hefst á morgun og stendur í tvo daga. Tveir eru saman í liði og það lið sem veiðir flesta fiska stendur uppi sem sigurvegari. Alls konar reglur gilda í keppnum sem þessum og ein er sú að keppendur mega ekki skrá sjálfir afla. Annað lið fylgist með mótherjum og skráir og staðfestir það sem veiðist. Þannig skiptast liðin á að veiða og skrá.
„Þetta er Welsh Grayling Cup og þarna keppa sextán tveggja manna lið. Keppnisvöllurinn er áin Rhymney sem rennur í gegnum bæinn Caerphilly í Wales. Þetta verður mjög skemmtilegt trúi ég því hef aldrei farið í svona keppni. Þetta snýst sem sagt um fjölda fiska en ef menn verða jafnir þá ráðast úrslitin af stærðinni,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.
Veiðiaðferðin er Euro nymhing, sem sagt veitt á púpur andstreymis. Heimilt er í keppninni að nota tökuvara en það er ekki mikið um það.
„Mestu eru þetta mjög smáar flugur og ég er búinn að hnýta einhvern heilan helling. Heilt vopnabúr og við verðum mest að vinna með mjög litlar púpur. Ég mun líka örugglega njóta góðs af því að vera í liði með heimamanni en liðsfélagi minn er Sparky Price sem er frá Caerphilly þar sem keppnin fer fram. Þannig að hann þekkir allar aðstæður mjög vel og ég er ekki að renna blint í sjóinn,“ upplýsir Ólafur.
Þarna eru fleiri reynsluboltar á ferðinni. Einn þeirra er Lewis Hendry sem Ólafur þekkir vel en Lewis þessi afrekaði það í lok síðasta ár að lið hans bar sigur úr býtum í Hanak European Grayling Festival og lagði þar að velli fyrrum heimsmeistara Howard Croston og liðsfélaga. Þannig að Ólafur og Starky fá máta sig við þá bestu.
Raunar var það fluga frá Ólafi sem réði úrslitum í þeirri keppni sem Lewis Hendry vann. Úrslitafiskurinn, ef svo má taka til orða kom á flugu sem Ólafur hafði hnýtt og gefið Lewis.
Keppnin hefst eins og fyrr segir á í fyrramálið og stendur í tvo daga. Skilyrði spila stóran þátt eins og gefur að skilja en þegar menn vöknuðu í morgun var áin þreföld og kolmórauð. „Þeir segja að hún sé fljót að ganga niður,“ sagði spenntur Ólafur Hilmar Foss.
Ef hún verður gruggug á morgun er Ólafur klár með taktíkina. „Mjög smáar flugur. Ef fiskurinn er að nærast er hann að horfa upp og sér þá útlínurnar þó að við sjáum ekkert ofan í vatnið. Stærri flugur myndu ekki hjálpa okkur trúi ég. Hann er að éta sömu skordýr og áður en rigndi.“
Það verður spennandi að sjá hvernig íslenski púpukappinn stendur sig á mótinu. Þarna eru líka þátttakendur úr landsliði bæði Bretlands og Wales. „Ég er að horfa á tvenns konar markmið. Í fyrsta lagi að vinna Lewis örugglega. Þá meina ég örugglega. Til vara er markmiðið að verða ekki í síðasta sæti,“ hlær hann.
Sporðaköst munu birta niðurstöðuna eftir helgi og sjá hvort þessi markmið Ólafs hafi náðst. Svo er náttúrulega líka spurning hvort Íslands á ekki að fara að huga að því að setja á laggirnar landslið af þessu tagi. Íslenskir sjóstangaveiðimenn hafa verið að keppa og náð góðum árangri á móti landsliðum frá öðrum löndum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |