Ferðamálaskóli Íslands býður nú upp á nám í veiðileiðsögn sjöunda árið í röð. Yfir hundrað manns hafa útskrifast úr náminu á undanförnum árum. Aukin eftirspurn hefur verið eftir leiðsögumönnum á Íslandi síðustu ár þegar kemur að veiði.
Í náminu, sem er bæði verklegt og í formi fyrirlestra er farið yfir breitt svið. Allt frá skyndihjálp yfir í veiðitækni. Skólastjóri, eða faglegur umsjónarmaður námsins er Reynir Friðriksson sem hefur víðtæka reynslu þegar kemur veiðileiðsögn. Raunar gengur skólinn undir nafninu „gædaskólinn“ meðal veiðifólks enda eru leiðsögumenn gjarnan kallaðir gædar sem er náttúrulega ekkert annað en sletta úr ensku. En ágætlega hljómþýtt orð og mörgum tamt.
Misjafnt er hvað gerir það að verkum að fólk sækir námið. Margir hugsa sér að hefja vinnu sem leiðsögumenn. Aðrir eru þegar starfandi leiðsögumenn og vilja bæta við sig þekkingu. Svo er það þriðji hópurinn sem vill einfaldlega vita meira um veiði.
Við spurðum Reynir Friðriksson hvort einhverjar áherslubreytingar væru að þessu sinni.
„Við erum með aðeins meiri áherslu á verklega kennslu varðandi hnúta og reddingar á bakkanum ásamt því að ég er að taka inn meiri áherslu á tauma. Förum yfir hvaða taumar henta við ólíkar aðstæður. Skoðum og kennum teiperingar og kosti og galla mismunandi efna í taumum. Svo eru alltaf að dýpka pælingarnar með línurnar,“ upplýsti Reynir í samtali við Sporðaköst.
Bjarki Már Jóhannesson bætist í hóp þeirra sem veita fræðslu og kemur það í hlut Bjarka að ræða um lestur á vatni, svo eitthvað sé nefnt. Bjarki er reyndur leiðsögumaður og afbragðs fluguhnýtari.
Meðal kennara og fyrirlesara í náminu eru Þröstur Elliðason, Haraldur Eiríksson, séra Bragi Skúlason, Sindri Hlíðar Jónsson og Kristján Friðriksson svo einhverjir séu nefndir.
Samskipti við viðskiptavini er hluti af náminu, líkt og skyndihjálp og áfallahjálp. Það er rétt að hafa það í huga fyrir núverandi leiðsögumenn og verðandi að sólríku dagarnir, þar sem allt leikur í lyndi, eru blessunarlega fleiri heldur en þeir, þar sem komið geta upp á ófyrirséðir hlutir. Þá reynir á að kunna að bregðast við. „Það er mikilvægt að þekkja svæðið vel þar sem þú ert leiðsögumaður en þegar eitthvað óvænt kemur upp á, getur ábyrgð leiðsögumannsins verið mikil. Þá er gott að vita hvernig á bregðast við. Svo er líka mikill bónus að geta svarað einföldum spurningum um íslenska náttúru,“ segir skólastjórinn Reynir Friðriksson. Hann hefur undanfarin ár verið leiðsögumaður í Vatnsdalsá og raunar víðar. Eftir síðasta sumar segist hann hafa fengið viðurnefnið herra september í sumum vinahópum. Það skyldi þó ekki tengjast fréttinni hér að neðan?
Það getur líka verið gott tól í verkfærakistu leiðsögumannsins að þekkja fugla og jafnvel nöfn þeirra á ensku. Sporðaköst urðu einu sinni vitni að því þegar leiðsögumaður var með viðskiptavin í fokdýrri laxveiðiá. Viðskiptavinurinn benti á stelk og spurði, „What bird is that?“ Leiðsögumaðurinn hafði takmarkaða þekkingu á fuglum og enn minni áhuga á öðru en að koma viðskiptavininum í fisk. „It´s a spörfugl,“ upplýsti leiðsögumaðurinn. Í hádegismatnum mátti heyra viðskiptavininn æfa framburðinn á þessu skemmtilega íslenska orði. Spörfugl.
Fyrir áhugasama er hægt að finna Ferðamálaskóla Íslands á facebook eða fara inn á menntun.is.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |