Breytingar á vopnalögum á síðasta ári gera það að verkum að allar byssur verður að geyma í læstum byssuskáp. Lögreglan er nú að fylgja þessu eftir og hafa byssuskápar selst í bílförmum undanfarna mánuði, eftir að það spurðist út. Lagabreytingin var ekki síst gerð í ljósi þess að margir vopna eigendur stóðu í þeim misskilningi að ekki þyrfti byssuskáp fyrr en þeir eignuðustu fjórðu byssuna.
„Það var útbreiddur misskilningur meðal byssueigenda. Gömlu vopnalögin sögðu að þú ættir að geyma skotvopn í læstri hirslu en við fjórðu byssu þá þurfti að geyma þær í viðurkenndum byssuskáp. Þá lásu menn þetta þannig að ef þeir áttu þrjár byssur eða færri þá mætti geyma þær undir rúmi eða inni í fataskáp, jafnvel niðri í geymslu,“ upplýsir Þórarinn Þórarinsson hjá leyfadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Sporðaköst kannast vel við þennan misskilning að ekki þyrfti að geyma byssur í byssuskáp fyrr en viðkomandi eignaðist fjórðu byssuna. Vissulega sagði í lögunum að vopn skyldu geymd í læstri hirslu. En eins og Þórarinn bendir á þá sagði á öðrum stað í vopnalögunum að húsnæði skyldi jafnframt vera læst þannig að þar var ekki verið að líta á húsnæði sem hirslu. Þórarinn gengur lengra. „Enda segir Árnastofnun að hirsla sé húsgagn til að geyma hluti í.“
Nú hljóða vopnalögin upp á það að öll skotvopn skulu vera geymd í viðurkenndum byssuskáp. „Það er hin eiginlega breyting og við héldum að skotvopnaeigendur myndu grípa þetta og gera ráðstafanir ef þyrfti. Við kynntum þetta eftir fremsta megni, bæði á samfélagsmiðlum og í gegnum fjölmiðla. Við vorum í sambandi við verslanir sem selja byssuskápa og það var lítið að gerast. Við sendum aftur frá okkur tilkynningu og fórum að hringja í menn og kanna stöðuna og fara í heimsóknir til að ganga úr skugga um að geymsla vopna væri í samræmi við lög. Þetta virtist ekki ná nægilega til fólks og við erum enn í átaki að kynna þessa breytingu.“
En það fór á flug saga af lögreglumanni sem kom óvænt inn á heimili og haldlagði byssu hjá gömlum manni. Kannastu við þá sögu?
„Já. Ég kannast við þá sögu, en get ekki tjáð mig um hana enda bundinn þagnarskyldu. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum að reka á eftir mönnum og ef við komum í eftirlit heim til manna og þeir eru ekki með skáp, þá gefum við þeim að jafnaði tækifæri til að bæta úr því.“
Þórarinn segir að vissulega séu til nokkur dæmi af því að lögreglan hafi haldlagt byssur þar sem geymsla á þeim hafi ekki verið með lögboðnum hætti. „Flestir hafa brugðist vel við athugasemdum og ég held að það sé almennur skilningur á þessum hertu reglum. Svo eru alltaf undantekningar í þessu eins og öðru. En þetta mál snýr að öryggi. Við erum ekki að horfa eingöngu til þess að byssum kunni að vera stolið. Það verður að tryggja að börn og aðrir sem ekki mega fara með skotvopn geti ekki nálgast þau,“ segir Þórarinn.
Þó svo að byssueign Íslendinga miðist að langstærstum hluta við veiðibyssur eru dæmi um annað og þeim hefur fjölgað síðari ár. Þar má nefna árásarriffla sem framleiddir eru fyrir hernað og fleiri vopn sem bönnuð eru með öllu hér á landi. Það gefur augaleið að lögregla leggur hald á slík tól án mikillar umræðu. Myndin sem fylgir fréttinni er dæmi um slík vopn sem lagt hefur verið hald á. Þórarinn staðfestir á aukin ásókn virðist vera í slík vopn.
Sala á byssuskápum hefur rokið upp úr öllu valdi síðustu mánuði. Allir byssuskápar í landinu seldust upp í lok síðasta árs og verslanir sem eru að flytja inn byssuskápa eru oftar en ekki búnar að selja alla sendinguna áður en hún er komin til landsins.
Þórarinn og hans menn hafa fylgst með þessari stöðu og er það þeirra mat að eftir að spurðist út að lögreglan væri að fylgja því eftir að byssur væru geymdar í byssuskápum, hafi á stuttum tíma selst fimm hundruð slíkir skápar í landinu. „Það segir okkur náttúrulega hversu slæmt ástandið var,“ segir Þórarinn.
„Nýmæli í lögunum er einnig að eigendur skulu geyma skotvopn á lögheimili sínu, nema þeir fái sérstakt leyfi lögreglu til annars. Þannig er til dæmis ekki heimilt að vera með byssurnar „uppi í bústað,“ eða í geymslurými úti í bæ nema fá til þess sérstakt leyfi. Vert er að benda á að slíkt leyfi þarf að liggja fyrir áður en við bönkum upp á við úttekt,“ segir Þórarinn. Hann staðfestir að lögreglan hafi lagt hald á nokkrar byssur, en segir að í þeim tilfellum hafi oft á tíðum spilað fleiri hluti inn í.
„Við höfum lagt okkur í líma við að leiðbeina fólki og kynna þessar breytingar, sem fagna bráðum árs afmæli, en ný ákvæði vopnalaga tóku gildi í lok febrúar 2024. Það er hins vegar viðbúið, eftir því sem fram í sækir, að við förum að framfylgja lögunum með fastari hætti en verið hefur. Skápaskyldan er þannig búin að vera í ákveðnu aðlögunarferli og er það að mörgu leiti ennþá meðan skápaskortur er í landinu. Að endingu kemur þó væntanlega að því að þessum lögum verður framfylgt af festu og engir sénsar gefnir, öll aðlögun tekur jú enda.“
Af þessu má öllum byssueigendum vera ljóst að þessari lagabreytingu verður fylgt eftir. Ef að þú ert að geyma byssuna þína með öðrum hætti en í læstum byssuskáp áttu á hættu að lenda í veseni. Svo það sé bara orðað pent.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |