Ríflega tuttugu þúsund veiðimenn, landeigendur, bændur og aðrir þeir sem stunda veiði í Þýskalandi, hvort sem er sem áhugamál eða lifibrauð mótmæltu í Hannover í Þýskalandi um síðustu helgi. Mótmælin voru friðsamleg, hávær og vel skipulögð. Þátttaka varð raunar mun meiri en búist hafði verið. Skipuleggjendur reiknuðu með tíu þúsund manns en eins og fyrr segir tvöfaldaðist sú tala þegar upp var staðið.
Ein stærsta veiðisýning Evrópu, Jag und Hund var haldin í þýsku borginni Dortmund um sömu helgi. Sýnendur tóku vel eftir því að aðsókn féll afar mikið daginn sem mótmælin voru í Hannover.
Mótmælin beindust að því að sveitarstjórn í Neðra–Saxlandi áformaði breytingar á reglum sem gilda um veiði og ýmislegt sem snýr að henni. Þar á meðal var stefnt að því að banna þjálfun veiðihunda með lifandi bráð og margt fleira sem allt lítur að sama markmiði að þrengja að veiðum og veiðisamfélaginu. Græningjar og SPD eða Jafnaðarmannaflokkurinn mynda meirihluta í Neðra–Saxlandi.
Ýmis félög veiðimanna í Þýskalandi sóttu viðburðinn og mótmæltu harðlega þessum hugmyndum. Margir lögðu á sig langt ferðalag til að taka þátt í mótmælunum.
Auðvitað miða flestar þessar hugmyndir að því að draga úr veiðum og þrengja að veiði. Þessir tuttugu þúsund mótmælendur sem komu víða að eru búnir að fá upp í kok af endalausum boðum og bönnum sem stöðugt er verið að setja fram þegar kemur að veiðum. Veiðihefð í Þýskalandi er rótgróin og byggir á aldagömlum hefðum.
Mótmælunum lauk með fundi þar sem ræðumenn ávörpuðu þau tuttugu þúsund sem mættu. Einn af leiðtogum Græningja í Neðra Saxlandi flutti ræðu og útskýrði sjónarmið Græningja. Sömuleiðis kom einn af leiðtogum samstarfsflokksins upp og ávarpaði samkunduna. Ljóst er að undanhald er hafið hjá meirihlutanum og ágreiningur milli flokkanna er opinberaður og kominn upp á yfirborðið. Líkast til munu þessi afar fjölmennu mótmæli verða til þess að breytingar verða ekki samþykktar. Í það minnsta ekki í þeirri mynd sem búið var að kynna upphaflega.
„Eitt er ljóst. Eftir daginn í dag eru væntingar rúmlega 60.000 félagsmanna okkar miklar. Við treystum á lög sem taka mið af faglegum rökum veiðimannasamfélagsins og sleppa algjörlega hugmyndafræðilegum hömlum og bönnum,“ sagði Helmut Dammann-Tamke, forseti Landssambands veiðimanna í Þýskalandi.
Það er ljóst að þessi fjölmennu mótmæli virkuðu og líkast til munu stjórnmálamenn hrökklast undan fjöldahreyfingunni og breytingar á reglum um veiði verða litlar eða engar þegar upp er staðið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |