Veiðifélag Skógár leitar að nýjum leigutaka strax í sumar. Öll veiði í ánni byggir á seiðasleppingum og er veiðifélagið því að leita að áhugasömum aðila sem er tilbúinn til að koma að ræktun og uppbyggingu á veiði í ánni. Skógá hefur sveiflast afskaplega mikið í veiði síðustu ár. Hennar gullaldartími var fyrr á öldinni og skilaði hún þá frábærri veiði í nokkur ár. Stóra sumarið hennar var árið 2008 þegar 1.600 laxar veiddust á fjórar stangir. Svo fór að gjósa. Mikil aska og afleiðingar af henni leiddi til þess að veiði lagðist nánast af í nokkur ár.
Þegar best lét var Ásgeir A. Ásmundsson leigutaki. Hann kom svo á nýjan leik að borðinu fyrir nokkrum árum. Farið var í sleppingar og byggt var nýtt og huggulegt veiðihús. Veiðin náði sér ekki á strik og nú er Ásgeir að sleppa hendinni af Skógá.
Það er stórt verkefni að taka við Skógá. Nú er veiðifélagið að leita að nýjum aðila til uppbyggingar. Guðni Ingólfsson í Drangshlíðardal er formaður veiðifélagsins og geta áhugasamir sent tölvupóst á netfangið hans sem er dalur@emax.is.
Sporðaköst spurðust fyrir um þessi áform og við fengum til baka auglýsingu sem send hefur verið á nokkra aðila. Öllum er hins vegar frjálst að leggja inn tilboð. Hér að neðan má sjá hluta úr auglýsingunni og jafnframt hvað væntanlegur leigutaki þarf að leggja fram og það fljótlega, eða í síðasta lagi þann 15. febrúar.
„Með tilboðinu fylgi upplýsingar um tilboðsgjafa, væntanlega tímalengd samnings og leigugjald (gjalddagar/tryggingar) annars vegar fyrir veiðiréttinn og hins vegar fyrir veiðihúsið. Gott ef tilboðinu fylgir greinargerð um áform væntanlegs leigutaka um hvernig hann hyggst standa að uppbyggingu árinnar. Tilboðum skal skilað á sama netfang fyrir 15. febrúar næstkomandi. Veiðifélagið áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |