Hreindýrakvótinn niður í 665 dýr

Hreindýrakvótinn minnkar milli ára og er sá minnsti í rúma …
Hreindýrakvótinn minnkar milli ára og er sá minnsti í rúma tvo áratugi. Verð fyrir veiðileyfin hækkar um allt að tuttugu prósent. Ómar Óskarsson

Hreindýrakvóti fyrir veiðiárið 2025 hefur verið gefinn út. Töluverð fækkun er frá í fyrra þegar kemur að fjölda dýra. Var kvótinn í fyrra sá minnsti í tuttugu ár. Kvótinn nú er 665 dýr en var 800 dýr í fyrra. Á sama tíma hækkar verð fyrir veiðileyfin verulega milli ára.

Í fréttatilkynningu sem birt hefur verið á vef stjórnarráðsins er gerð grein fyrir kvóta og reglum vegna hreindýraveiði síðar á árinu. Þar segir:

„Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið veiðiheimildir til hreindýraveiða, gjaldskrá veiðileyfa fyrir árið 2025 og skiptingu þeirra milli sveitarfélaga, að fengnum tillögum frá Náttúruverndarstofnun.

Alls verður heimilt að veiða 665 hreindýr á veiðitímanum, 265 kýr og 400 tarfa. Þetta er 135 hreindýrum færra en á undanförnu ári sem stafar fyrst og fremst af áframhaldandi fækkun í stofninum. Ástæður þessarar fækkunar eru ekki þekktar en m.a. hefur verið nefnt mögulegt aukið veiðiálag fyrri ára vegna ofmats á stofnstærð.

Veiðitími tarfa er frá 15. júlí til 15. september. Veiðitími kúa er frá 1. ágúst til 20. september.

Fyrstu tvær vikur veiðitímabilsins er veiðimönnum gert að forðast í lengstu lög að fella mylkar kýr svo draga megi eftir megni úr áhrifum veiðanna á kálfa. Þess í stað eru veiðimenn eindregið hvattir til að veiða eingöngu geldar kýr. Er í þessu sambandi bent á hlutverk og skyldur leiðsögumanna við að aðstoða og leiðbeina veiðimönnum við val á bráð.

Þá eru veturgamlir tarfar alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tarfa sem eru tveggja vetra og eldri.

Óheimilt er að veiða kálfa.

Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda.

Líkt og fyrri ár skiptist veiðin milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í meðfylgjandi auglýsingu.

Gjald fyrir úthlutun hreindýraveiðileyfis fyrir tarf er 231.600 kr. og 132.000 kr. fyrir kú.

Náttúruverndarstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimildanna.“

Veiðisvæðin eru níu talsins eins og kemur fram að ofan. Kvótaskiptingin milli svæða er sem hér segir.

Svæði 1: 45 kýr, 75 tarfar. Samtals 120 dýr.

Svæði 2: 30 kýr, 30 tarfar. Samtals  60 dýr.

Svæði 3: 30 kýr, 40 tarfar. Samtals 70 dýr.

Svæði 4: 10 kýr, 15 tarfar. Samtals 25 dýr.

Svæði 5: 10 kýr, 30 tarfar. Samtals 40 dýr.

Svæði 6: 35 kýr, 50 tarfar. Samtals 85 dýr.

Svæði 7: 65 kýr, 70 tarfar. Samtals 135 dýr.

Svæði 8:  0 kýr, 50 tarfar. Samtals 50 dýr.

Svæði 9: 40 kýr, 40 tarfar. Samtals 80 dýr.

Samtals: 265 kýr, 400 tarfar - 665 dýr.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert