Stofn hreindýra var verulega ofmetinn

Stofn hreindýra hefur verið ofmetinn síðustu ár. Loks náðist góð …
Stofn hreindýra hefur verið ofmetinn síðustu ár. Loks náðist góð vetrartalning á stofninn, í fyrra. Varúðarsjónarmið liggja til þess að draga úr veiðiálagi. mbl.is/Sigurður Bogi

Áratugur var síðan að vel hafði tekist að ná góðri vetrartalningu á hreindýrastofninum. Það tókst í fyrra og þá kom í ljós að stofninn er áætlaður 3,200 dýr en ekki 4,100 eins og talið var. Í ljósi þessa er dregið úr veiðiálagi til að dýrunum fjölgi á nýjan leik.

Hálfdán Helgi Helgason er sviðstjóri hreindýrarannsókna hjá Náttúrustofu Austurlands.

„Stofnmatið sem við byggjum kvótann á eru margþætt. Byggist á talningu og vöktun. Það er orðið langt síðan að náðist að framkvæma heildartalningu á stofni hreindýra. Það þarf margt að ganga upp svo að slík talning heppnist vel að vetrarlagi. Rétt snjóalög, veðurskilyrði og við reiðum okkur á fjölda fólks sem er tilbúið að leggja fram vinnu við slíka talningu. Síðasta talning sem talin er hafa tekist vel er frá árinu 2014, þar til í fyrra. Það er búið að vera að reyna að gera þessar talningar á síðustu árum. 2018 og 19 var reynt að telja stofninn en lukkaðist ekki nógu vel. Við reyndum aftur 2023. Það gekk ekki en svo tókst það betur í fyrra og við teljum að við höfum náð að dekka stofninn nægilega, en þetta er samt alltaf lágmarksmat. Þá kom í ljós að stofnstærð reyndist umtalsvert minni en sú stofnstærð sem hafði verið áætluð eftir framreikninga frá eldri talningum og vöktun. Stofnmatið var um 4,100 dýr en talning í fyrra leiddi í ljós að hann virðist í kringum 3,200 dýr,“ upplýsir Hálfdán í samtali við mbl.is.

Hálfdán segir að á sama tíma hafi dreifing og útbreiðsla dýranna verið að breytast. Kvótinn tekur mið af minni stofnstærð en þessi óvissa hefur leitt til þess að nú er líka verið að draga úr veiðiálaginu á stofninn. Miðað hefur verið við 25 til 27 prósent veiðiálag á hverju svæði. Nú er dregið úr veiðiálaginu og fer það niður í 20 prósent. 

Hreindýr á beit við Hvalnesskriður. Kvótinn í ár er 665 …
Hreindýr á beit við Hvalnesskriður. Kvótinn í ár er 665 dýr eða sá minnsti frá árinu 2002. mbl.is/Sigurður Ægisson

Þar sem hreindýrin eiga sér enga náttúrulega óvini hér á landi þá er nauðsynlegt að stýra þéttleika dýranna og það er gert með veiðunum. Hálfdán segir viðmiðið vera að fjöldi dýra fari ekki upp fyrir eitt dýr á hvern ferkílómetra beitihaga, að vetrarlagi innan hvers veiðisvæðis. Fjölmargir aðrir þættir spila inn í. Kynjasamsetning og aldursáhrif.

Stofnstærð og veiðikvóti á öldinni

   Ár       Áætluð stofnstærð   Veiðikvóti

2000              3000                  404
2001              3500                  446
2002              4000                  574
2003              4000                  800
2004              4000                  800
2005              4500                  800
2006              4600                  909
2007              5138                1137
2008              5950                1333
2009              6422                1333
2010              6422                1272
2011              5805                1001
2012              6409                1009
2013              6000                1229
2014              6039                1277
2015              6338                1412
2016              6338                1300
2017              6486                1315
2018              6896                1450
2019              6896                1451
2020              6668                1325
2021              6190                1220
2022              5149                1021
2023              5112                  901
2024              4100                  800
2025              4125*                665

Stofnstærð hér, miðjudálkurinn er stofn eftir nýliðun og miðast við júlí. Veiðikvótinn er hins vegar metinn út frá áætlaðri stofnstærð að vori. 2025 er áætluð stofnstærð í júlí á komandi sumri eftir burð.

Er ekki líklegt að kvótinn eigi eftir að minnka meira áður en hægt verður að auka hann?

„Þetta er góð spurning. Kvótasetningin síðustu ár hefur verið unnin í samvinnu við veiðileiðsögumenn og hagsmunaaðila. Nú varð mjög góð sátt um að fara í minna veiðiálag til að reyna að komast fyrir þessa fækkun. Það hefði verið hægt að fara í enn harðari aðgerðir en miðað við okkar gögn og bestu spár þá ætti dýrunum að fjölga lítillega við þetta. En það þarf líka að fara í stefnumótum varðandi markmið stofnstærðar.“

Hálfdán Helgi Helgason er sviðsstjóri hreindýrarannsókna hjá Náttúrustofu Austurlands.
Hálfdán Helgi Helgason er sviðsstjóri hreindýrarannsókna hjá Náttúrustofu Austurlands. Ljósmynd/Náttúrustofa Austurlands

Hálfdán bendir á að miðað við veiðiálag eins og það hefur verið 25 – 27% þá hefði kvótinn verið í kringum 800 dýr. Með því að draga úr veiðiálaginu verður til þessi kvóti upp á 665 dýr.

„Við reyndar byrjuðum á þessu í fyrra og miðað við eldra stofnmat þá töldum við okkur vera að draga úr veiðiálaginu niður í tuttugu prósent. En þegar við fengum svo betra og uppfært stofnmat þá sáum við að veiðiálagið í fyrra var í raun um 25%. En með þessari síðustu vetrartalningu teljum við okkur hafa náð utan um stofnstærðina,“ segir Hálfdán.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert