„Gráti nær þegar maður talar um þetta“

Sigurður Aðalsteinsson segir að minni kvóti á hreindýr sé eðlileg …
Sigurður Aðalsteinsson segir að minni kvóti á hreindýr sé eðlileg ráðstöfun úr því sem komið er. Hann býst við að kvótinn geti minnkað meira áður búast má við aukningu á ný. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

„Þessi mikla fækkun á hreindýrum er eingöngu út af ofveiði. Við leiðsögumenn vorum margsinnis búnir að grenja í þeim sem fóru með stjórnun á þessu að minnka kvótann. Við værum að ganga á stofninn,“ segir Sigurður Aðalsteinsson hreindýraleiðsögumaður í samtali við Sporðaköst. Hann segir að ekki hafi verið hlustað á þessar ábendingar og kröfur leiðsögumanna fyrr en þeir fóru í fjölmiðla með þetta og þá hrökk málið aðeins til baka.

Síðustu tvö ár hefur kvóti á hreindýr verið ákveðinn í samráði við leiðsögumenn. „Ég sé ekki betur en að hann minnki meira á næsta ári,“ bætir Sigurður við.

Hann telur að hluti af ástæðunni fyrir því hversu illa er komið fyrir hreindýrastofninum sé að Umhverfisstofnun sem nú er reyndar orðin Náttúruverndarstofnun hafi fengið umsýslukostnað fyrir hvert hreindýr sem var fellt og það „hafi verið þeirra hagur að halda kvótanum uppi til að þeir fengju meiri pening og þeir gerðu það,“ segir Sigurður. Sama staða var uppi varðandi Náttúrustofu Austurlands og áhugaverð spurning hvort þetta sé réttasta fyrirkomulagið þegar kemur að fjármögnun á slíkri stjórnsýslu.

Leiðsögumenn töluðu fyrir daufum eyrum um langt árabil. Hann nefnir dæmi „Eitt árið gáfu þeir út 170 dýra kvóta á svæði tvö. Þegar við byrjum að veiða voru bara 130 dýr á svæðinu. Punktur. Einu svörin sem við fengum voru að finndum ekki dýrin og að við værum klaufar og dýrin myndu koma annars staðar frá, af öðrum svæðum. Það gerðist náttúrulega ekki. Við sögðum í framhaldi af þessu við Umhverfisstofnun að nú væri komið gott og við myndum hætta veiðinni á svæði tvö og að þeir myndu endurgreiða leyfin að fullu. Það var ekki við það komandi. Heldur var skarað veiðinni af svæði tvö yfir á svæði sex og svæði eitt. Þá var verið að skara yfir í svæði sem voru með fullsettan kvóta miðað við dýrafjölda sem var þar. Þetta varð til þess að bæði svæðin eru nú rjúkandi rúst eftir þetta. Þetta er svo sorglegt. Þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera. Maður er bara gráti nær þegar maður fer að tala um þetta. Þetta er svo nöturlegt,“ segir þessi Jökuldælingur sem skotið hefur hreindýr í fimmtíu ár og er einn af reyndustu hreindýraleiðsögumönnum landsins.

Þurfum að leyfa veiðar á kálfum

Nú er kvótinn ákvarðaður í samráði við leiðsögumenn. Vegið þið þungt í því samráði?

„Já. Það er að fullu tekið mark á okkur og þessi breyting varð fyrir tveimur árum. Við vorum ásátt með það við leiðsögumenn og Náttúrustofa Austurlands að fara fram með þessum hætti í ár og sjá aðeins til hver þróunin verður. Það þarf að skipta leyfunum miklu meira upp. Það þarf að fara að leyfa aftur kálfaveiði. Því að í öllum veiðisamfélögum þar sem eru hreindýr eru skotnir kálfar. Þegar þeir eru ekki skotnir leiðir það til þess að stofninn yngist. Það er þekkt í búskap að það eru ekki öll lömb eða kálfar sett á. Við vildum breyta þessu þannig að kálfar yrðu veiddir á ný.“

Að mörgu er að huga við veiðistjórnun á hreindýrum. Sigurður …
Að mörgu er að huga við veiðistjórnun á hreindýrum. Sigurður Aðalsteinsson segir að leiðsögumenn vilji leyfa kálfaveiði og veiði á yngri törfum. Friðrik Tryggvason

Eitthvað fleira sem þið vilduð breyta?

„Já. Við teljum rétt að gera eins og Norðmenn. Í tarfakvótanum í Noregi eru fullorðnir tarfar ekki nema um 25% af þeim törfum sem eru veiddir. Hinu er dreift niður á yngri tarfa og það eru skotið dálítið af veturgömlum törfum og ungtörfum. Þessu þarf að breyta hér. Það þarf að skipta þessu upp í 30% gamlir tarfar, 30% svona miðaldra og 30% ungtarfar. Maður sá það þegar maður horfði í hjarðirnar í haust og var að eltast við simluhópa* að það var upp í 45% af ungtörfum innan um. Það er alltof alltof hátt.“

Hjörðin rataði ekki í sumarhagana

Nú er bannað að skjóta veturgamla tarfa.

„Já og það er einmitt það sem er að gera hjarðirnar alltaf yngri og yngri. Þú getur rétt ímyndað þér ef ég væri bóndi og myndi alltaf setja á öll lömbin og slátra bara elstu rollunum. Hvaða áhrif heldurðu að það hefði? Hjörðin myndi yngjast og yngjast. Þegar hjörðin yngist of mikið þá gerast hlutir. Þau hætta að rata í bestu hagana. Elstu rollurnar leiða hópinn í bestu beitina og það er nákvæmlega það sama hjá hreindýrunum. Það er tvennt sem varð þess valdandi að dýrum fækkaði á svæði tvö. Í fyrsta lagi var það ofveiði. Við vorum búnir að skjóta allar elstu simlurnar og komnir niður í skrokkþunga í kringum þrjátíu kíló. Það sagði okkur að við vorum eingöngu að veiða tveggja vetra simlur. Farið á dýrunum á svæði tvö var þannig að þau fóru af svæðinu í vetrarbeit. Þau fóru þá niður af Öxi og niður í Breiðdal og í Berufjörð. Það er örstutt frá Snæfellinu og þarna yfir. Bara einhverjir tuttugu kílómetrar. Dýrin gerði þetta árlega en svo þegar við vorum búnir að skjóta allar gömlu simlurnar á Fljótsdalsheiðinni og það voru bara eftir tveggja vetra simlur þá fóru þær niður eftir í vetrarbeitina en skiluðu sér ekki til baka. Þessi ungu dýr rötuðu ekki í sumarhagana aftur. Þess vegna núllaði svæði tvö því dýrin komu ekki aftur í sumarhagana á Snæfellssvæðinu og á Fljótsdalsheiðinni.“

Framboð og eftirspurn

Alveg er þetta magnað Siggi. En hvað segir þú um verðhækkunina sem nú verður á leyfunum?

„Hún er alveg eðlileg. Þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar ríkir þá hækkar verð þegar eftirspurn er meiri en framboðið og um er að ræða takmörkuð gæði. Þetta verð hefur ekki fylgt verðlagsþróun og þessi hækkun dugar ekki til að ná henni. Ef það ætti að vera þá færi leyfið yfir þrjú hundruð þúsund krónur, miðað við það sem var fyrir ekki svo mörgum árum.“

Verð fyrir hreindýratarf er nú 231.600 krónur og hækkar úr 193.000. Verð fyrir beljuna/simluna fer úr 110.000 í 132.000 krónur. Hafa sprottið upp heitar umræður vegna þessa á samfélagsmiðlum og sitt sýnist hverjum.

Austurfrétt birti frétt síðasta sumar þar sem tekið hafði verið saman fjöldi umsókna um hreindýraleyfi og kvóti dýra. Þær tölur má sjá hér að neðan en Austurfrétt fékk tölurnar frá Umhverfisstofnun.

   Ár    Útgefinn kvóti  Fjöldi umsókna

2024        800                3.199

2023        901                2.923

2022       1.021              3.298

2021       1.220              3.343

2020       1.325              2.910

2019       1.451              3.127

2018       1.450              3.176

2017       1.315              3.301

2016       1.300              3.209

2015       1.412              3.673

2014       1.277              3.602

2013       1.229              3.610

2012       1.009              4.327

2011       1.001              4.050

2010       1.272              3.804

2009       1.333              1.333

2008       1.333              3.038

2007       1.137              2.728

2006        909                1.988

2005        800                1.659

2004        800                1.158

*Sigurður Aðalsteinsson veiðileiðsögumaður talar ekki um kýr þegar rætt er hreindýr. Hann talar bara um simlur og vill meina að það sé eina rétta orðið. Hér að neðan er linkur á viðtal við Sigurð í Dagmálum Morgunblaðsins, þar sem hann útskýrir þetta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert