Vorveiðin í Skotlandi er að byrja betur en undanfarin ár. Fjölmargar ár hafa nú opnað og vorlaxinn sem margir hafa óttast um er farinn að láta sjá sig. Veiði í febrúar er algert happadrætti í Skotlandi. Sérstaklega síðari ár eftir að vorlaxinum fór að fækka. Það sem af er febrúar hefur veiðin verið betri en síðustu ár. Þetta eru ekki margir fiskar og prósentutölur sveiflast því gjarnan mikið með hverjum og einum laxi.
Áin North Esk opnaði í byrjun viku og fyrsta daginn veiddust þar fimm laxar. Fallegir og vel haldnir „springerar.“ Ness vatnasvæðið er að byrja betur en undanfarin ár. Þar má segja að sextán punda laxinn sem Michael Martin landaði á Dochfour svæðinu í ánni Ness tali sínu máli. Ekki hefur veiðst lax í febrúar á því svæði síðan árið 2011.
Ness svæðið er mjög stórt og margar ár tilheyra því vatnsvæði, eins og Oich, Gary, Moriston og fleiri. Sjálft Loch Ness sem er í hugum margra þekkt fyrir sögusagnir um vatnaskrímsli, er hluti af vatnasvæðinu.
Göngur vorlaxins ná hámarki sínu í mars og apríl. Febrúarveiði síðustu ár hefur meira snúist um útiveru en líkur á að setja í lax. Nú virðast aðeins fleiri laxar á ferðinni og er það fagnaðarefni fyrir alla þá sem eru að fara til Skotlands að veiða. Töluverður fjöldi Íslendinga fer reglulega til Skotlands og Írlands í vorveiði. Það styttir biðina og í ár virðist vera ástæða til meiri bjartsýni.
Fyrir þá veiðimenn sem hafa áhuga á veiði í Skotlandi er vert að benda á hópinn á facebook sem heitir Atlantic Salmon Fishing. Þar eru birtar myndir af veiðimönnum með feng sinn. Hefur hópurinn verið óvenju líflegur miðað við að það er enn bara febrúar og í takt við það að nú er líflegar en oft áður.
Þessir fiskar sem hafa verið að veiðast eru vel haldnir. Þykkir og glæsilegir. Hvort þetta á sér einhverja tengingu í það að íslenskir veiðimenn geti búist við góðu vori er algerlega óvíst. Það er hins vegar jákvætt að sjá að sjávardvölin hefur reynst þessum fiskum góð.
En eins og við höfum minnst á hér á þessari síðu er útlit fyrir spennandi byrjun á laxveiðitímabilinu. Góð aukning í smálaxi í fyrra gefur fyrirheit um meira magn af tveggja ára laxi úr sjó. Þeir mæta jú fyrr en smálaxinn. Það eru hins vegar allar líkur á að minna verði af smálaxi í sumar en í fyrra.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |