Áhugaverðar breytingar verða á Syðri Brú, efsta veiðisvæðið í Soginu í sumar. Byrjun veiðitímans er seinkað fram til 10. júlí þó svo að veiði megi hefjast 21. júní. Þá bætast við þrjár stangir í silungi á nýju og spennandi svæði milli virkjana. Svæðið hefur ekki verið veitt í mörg ár og geymir bæði bleikju og urriða. Þessar stangir fylgja með laxveiðileyfinu og er bónus fyrir veiðimenn sem kaupa veiðileyfi í Syðri Brú.
Einar Páll Garðarsson og Jóhannes Þorgeirsson eiga og reka Veiðikló ehf, sem er leigutaki að Syðri Brú. Þeir félagar eru einnig með Gíslastaði í Hvítá á leigu og hafa bæði svæðin notið vinsælda, og þá ekki síst fyrir að bæði Syðri Brú og Gíslastaðir bjóða upp á sjálfsmennsku og verðið er viðráðanlegra en á mörgum veiðisvæðum.
„Við erum að horfa til þess í Syðri Brú að það sé öruggt að laxinn sé kominn. Að við séum að selja veiðifólki góða möguleika frá fyrsta degi og að það sé stígandi í veiðinni,“ upplýsir Einar Páll Garðarsson, þegar Sporðaköst spurðu hann út í styttingu á veiðitímanum á svæðinu.
„Syðri Brú er skemmtilegt laxveiðisvæði og eitt af fáum laxveiðisvæðum á landinu þar sem er bara ein stöng. Mikill meirihluti veiðinnar kemur af Landaklöpp sem er þekktasti veiðistaður Syðri Brúar en þar eru fleiri góðir staðir eins og Bláhylur og Sakkarhólmi. Menn festast oft lengi á Landaklöppinni enda liggur þar alltaf fiskur. Allt sumarið.“
Eins og sagði hér að ofan bætast við þrjár stangir sem til að veiða silung í Lóninu svokallaða eða milli stífla eða virkjana. Þar má veiða flugu, maðk og spún. Þetta svæði hefur ekki verið opið veiðimönnum í langan tíma og verður forvitnilegt að heyra af aflabrögðum. Fiskurinn sem er í lóninu er staðbundinn og er fastur þar inni og væntanlega má finna þar aldna höfðingja innan um.
Fyrir áhugasama eru frekari upplýsingar inni á vefnum hjá félaginu, sem er www.veidiklo.is
Vakin er athygli á því að veiðimenn noti björgunarvesti þegar veitt er á þessum stöðum og eru þau til staðar í veiðihúsinu. Þá eru tveir björgunarhringir á veiðisvæði Lónsins með þrjátíu metra langri áfastri línu.
Heimilt er að taka einn lax á dag á Syðri Brú en sleppa skal öllum laxi yfir sjötíu sentímetra.
Silungastangirnar þrjár sem fylgja með í kaupum á leyfi í Syðri Brú opna alls konar möguleika því veiðihúsið sem veiðifólk hefur til afnota og stendur skammt frá Landaklöpp hýsir tíu til tólf manns.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |