Hnúðlax mun ganga í íslenskar ár í sumar. Þetta gerist orðið annað hvert ár í flestum löndum við Atlantshaf. Mótvægisaðgerðir sem Norðmenn hafa reynt að fara í eru ekki að skila þeim árangri sem vonast var eftir. Líkast til verðum við að treysta á guð og lukkuna að hnúðlaxinn nái ekki þeim veldisvexti sem sést hefur í nyrstu héruðum Noregs.
„Í fyrsta lagi, er hægt að gera eitthvað og er eitthvað vit í Því? Og hverjar eru þá aðrar afleiðingar?“ Spyr Guðni Guðbergsson, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun þegar rætt er um mögulegar aðgerðir til að sporna við framgangi hnúðlaxins hér við land.
Guðni var gestur Sporðakastaspjallsins í síðasta mánuði og ræddi þá meðal annars hnúðlaxinn og hvað mögulegt væri að gera.
Hann segir að tvær grímur séu að renna á Norðmenn sem hafa víða sett fyrirstöður og gildrur í ár í nyrstu héruðunum til að koma í veg fyrir stórfelldar göngur hnúðlax upp í ár. Margt bendir til þess að slíkar aðgerðir hafi slæm áhrif á lax og sjóbirting sem er að ganga í sömu árnar. Hnúðlaxinn er árásargjarn og það að loka á gönguleiðina upp í ána, þar sem náttúrulegi fiskurinn bíður með hnúðlaxinum er mögulega að valda tjóni þegar upp er staðið.
Mörgum var létt sumarið 2023 þegar minna kom af hnúðlaxi í íslenskar ár en menn óttuðust. En kannski var meira af honum en margur áttaði sig á. Guðni segir að norsku kafararnir sem komu hingað til lands haustið 2023 og herjuðu á eldislaxa sem gengu upp í árnar, hafi séð meira af honum en menn bjuggust við. Hann segir að hnúðlaxinn sé að ganga í ágúst og hrygni fyrr en Atlantshafslaxinn. Þegar líði á sumar sé minna um að veiðimenn stundi neðstu veiðisvæðin í ám, enda elti þeir laxinn. Það kann að vera að hnúðlaxinn hafi verið í meira mæli á neðstu svæðum laxveiðiánna en menn gerðu sér grein fyrir. „Þeir urðu varir við hnúðlaxa í þó nokkru magni, þá neðst í ánum sem að menn vissu ekki af. Það getur alveg verið að þrátt fyrir tölurnar sem að við höfum þá séu þeir í rauninni fleiri heldur en að við erum að gera okkur grein fyrir. Það skiptir máli fyrir okkar fá góðar upplýsingar um hnúðlaxinn,“ segir Guðni.
Hann hvetur menn jafnframt til þess í sumar að skrá hnúðlaxinn og halda til haga upplýsingum um hann. Þessar upplýsingar skipti miklu máli. Hann segir jafnframt að vart hafi orðið við tilhneigingu að vera ekki að skrá þessa fiska og tala lítið um þá. Það skiptir miklu máli að þessar upplýsingar skili sér og menn geti metið umfangið.
Hnúðlax hefur hrygnt í tugum íslenskra laxveiðiáa síðustu ár. Lífsferill hans er tvö ár og því kemur hann á tveggja ára fresti. Oddatöluár eru hnúðlaxaár. Hér er móðir náttúra í aðalhlutverki og ómögulegt að spá fyrir um fjölda þeirra hnúðlaxa sem munu ganga í sumar í íslensku árnar. Það getur verið allt frá því að vera lítið upp í það að vera gríðarlegt magn. Staðan sem nyrstu norsku árnar er að glíma við er nánast hryllingsmynd þegar tugþúsundir hnúðlaxa ryðjast upp á stuttum tíma, eins og dæmi eru um.
Með þessari frétt fylgir brot úr viðtalinu við Guðna Guðbergsson, en með því að smella á linkinn hér að neðan er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni. Þar ræðir Guðni ýmis mál er tengjast laxveiði, rannsóknum og fleira.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |