Unnið að lausn ólöglegs eldis að Laxeyri

Matvælastofnun er enn með mál ólögmæts seiðaeldis í Borgarfirði opið. …
Matvælastofnun er enn með mál ólögmæts seiðaeldis í Borgarfirði opið. Uppfylla þarf ýmis atriði ef komast á hjá því að seiðunum sem eru í stöðinni að Laxeyri, verði fargað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöglegt fiskeldi í Borgarfirði sem Matvælastofnun MAST, upplýsti um í síðasta mánuði er enn til umfjöllunar hjá MAST. „Staðfest hefur verið að eldið er á vegum Veiðifélags Eystri Rangár og að seiðin voru flutt frá  eldisstöðinni að Eyjarlandi,“ segir í eftirlitsskýrslu MAST sem nú hefur verið gerð opinber á heimasíðu stofnunarinnar.

MAST barst ábending um að stundað væri fiskeldi án starfs– og rekstrarleyfis að Laxeyri í Borgarfirði. Tveir starfsmenn MAST fóru á vettvang og staðfestu að þar væri í gangi seiðaeldi. Við lestur á eftirlitsskýrslunni má sjá að landeigandi að Laxeyri taldi að starfsleyfi eldisstöðvarinnar að Eyjarlandi gilti einnig um Laxeyri. Svo er ekki.

Fjölmargar athugasemdir voru gerðar við aðstöðuna. „Augljóst var að aðbúnaður eldisins var ófullnægjandi," segir í skýrslunni.

Seiðin sem eru í stöðinni eru í ágætu ásigkomulagi og er fjöldi þeirra um 130 þúsund.

Smit– og strokvörnum áfátt

Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldisdeildar MAST segir málið enn opið og samtöl eigi sér stað milli stofnunarinnar og veiðifélagsins. Nú er beðið eftir upplýsingum um hvernig eigendur stöðvarinnar og seiðanna hyggist tryggja úrbætur þannig að smit- og strokvörnum verði sinnt með þeim hætti sem lög og reglugerðir kveða á um.

Ljóst er að vilji er til þess í lengstu lög að komast hjá því að farga seiðunum. En til að svo megi fara þarf Veiðifélag Eystri Rangár og eigandi stöðvarinnar að Laxeyri að geta sýnt fram á ofangreinda hluti.

Veiðifélag Eystri Rangár leigir veiðiréttinn að Eystri Rangá og fleiri vatnasvæðum til þriðja aðila og hefur leigutaki ekki aðra aðkomu að seiðaeldi, en að kveðið er á um í leigusamningi hversu mörgum seiðum skal sleppt í árnar.

Aðal seiðaeldisstöð Veiðifélagsins er að Eyjarlandi í Bláskógabyggð og þar eru tilskilin leyfi uppfyllt.

Eftirlitsskýrslur MAST eru birtar á mælaborði fiskeldis hjá stofnuninni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka