Hæstiréttur hefur sent deiluna við Eystri Rangá aftur í Landsrétt til efnislegrar meðferðar. Rétturinn kvað í gær upp sinn dóm þess efnis að „enginn vafi“ leiki á því að Veiðifélag Eystri Rangár njóti aðildarhæfis í dómsmáli.
Málið er flókið en upphaflega deilan stóð um það að eigendur jarðanna Bakkavöllur, Vallarhjáleiga og hluti jarðanna Árgilsstaða 1 og 2 meinuðu veiðimönnum umferð um slóða á jörðunum til að komast á veiðistaði og hindruðu aðgengi að sleppitjörnum og komu í veg fyrir nýtingu þeirra.
Landsréttur vísaði málinu frá þar sem Veiðifélag Eystri Rangár (VER) hefði ekki aðildarhæfi í málinu þar sem samþykktir félagsins voru ekki samþykktar af Fiskistofu. Hæstiréttur hafnar þessu og vísar til dómafordæma þegar kemur að aðildarhæfi. Vaknar nú Veiðifélag Rangæinga úr dvala sínum en það félag var stofnað löngu á undan VER. Náði svæði félagsins yfir það svæði sem VER starfar á og er það mat Hæstaréttar að VER sé deild í Veiðifélagi Rangæinga en ekki veiðifélag í skilningi laganna. Það breytir því ekki að VER nýtur aðildarhæfis fyrir dómstólum og getur gert samninga. Þannig er það niðurstaða réttarins að samþykktir gamla félagsins séu enn í gildi.
Fiskistofa fær á sig gagnrýni frá Hæstarétti. Í dómnum segir: „Samþykktir annarra deilda Veiðifélags Rangæinga hafa verið samþykktar af Fiskistofu og virðist nokkurs ósamræmis gæta í þeim efnum af hálfu stjórnvaldsins. Ekki hafa þó verið gerðar ráðstafanir af hálfu Fiskistofu eða veiðiréttarhafa til að endurskoða umdæmi veiðifélaga í fiskihverfinu.“
Málið fer nú aftur til Landsréttar sem þarf að dæma í málinu. Taka efnislega afstöðu til deilu annars vegar VER og hins vegar landeigenda sem eru systkinin Einar Lúðvíksson, Dagmar Lúðvíksdóttir og Dóra Lúðvíksdóttir. Sú síðastnefnda lét málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti.
Hér að neðan eru nokkur brot úr dóminum þar sem tekin er afstaða til meginatriða. Fyrst er það staðfesting á að Veiðifélag Rangæinga er á lífi.
„Samkvæmt framansögðu og með vísan til fyrrnefndrar ákvörðunar Fiskistofu 17. febrúar 2022 er ljóst að þegar til sóknaraðila var stofnað var fyrir hendi veiðifélag sem náði meðal annars yfir svæði hans. Enda þótt ekki sé annað komið fram en að Veiðifélag Rangæinga sé í reynd óvirkt og ekki hafi verið gerður reki að því að breyta samþykktum þess, að því leyti sem það var nauðsynlegt vegna laga nr. 61/2006, eru þær samþykktir enn í gildi eins og fram kemur í fyrrnefndri ákvörðun Fiskistofu“
Hér fær Fiskistofa ádrepu frá Hæstarétti.
„Samþykktir annarra deilda Veiðifélags Rangæinga hafa verið samþykktar af Fiskistofu og virðist nokkurs ósamræmis gæta í þeim efnum af hálfu stjórnvaldsins. Ekki hafa þó verið gerðar ráðstafanir af hálfu Fiskistofu eða veiðiréttarhafa til að endurskoða umdæmi veiðifélaga í fiskihverfinu.“
Stóra málið snerist um aðildarhæfi. Hæstiréttur er ekki í vafa.
„Þótt sóknaraðili hafi, eins og áður er rakið, ekki stöðu veiðifélags samkvæmt lögum nr. 61/2006 leikur samkvæmt framansögðu enginn vafi á því að hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og nýtur því aðildarhæfis í dómsmáli.“
Og loks um hæfi stjórnar VER segir Hæstiréttur.
„Loks hafa varnaraðilar borið brigður á að stjórn sóknaraðila hafi verið bær til að taka ákvörðun um málshöfðunina þar sem sakarefnið sé þess eðlis að aðalfundur hafi einn getað tekið hana. Þegar litið er til tilefnis málshöfðunarinnar og þeirra aðkallandi hagsmuna sem henni var ætlað að tryggja verður ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila.“
Einar Lúðvíksson og Dagmar Lúðvíksdóttir eru dæmd til að greiða VER eina milljón króna í kærumálskostnað.
Lögmaður VER var Guðjón Ármannsson og lögmaður Einars og Dagmar var Jón Sigurðsson.
Sporðaköst hafa heimildir fyrir því að Landsréttur hafi móttekið dóm Hæstaréttar og verður málið tekið til efnislegrar meðferðar eins fljótt og auðið er.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |