Svikavor tekur á þandar taugar

Jakub Szweda með urriða sem hann veiddi á svarta straumflugu …
Jakub Szweda með urriða sem hann veiddi á svarta straumflugu í Höfðabrekkutjörnum á föstudag. Þessum var sleppt. Vorveðrið tekur á taugarnar hjá mörgum veiðimönnum en það er víða hægt að komast í veiði. Ljósmynd/JS

Það eru tuttugu dagar eftir af marsmánuði. Veiðitímabilið hefst formlega 1. apríl og eiga margir stangveiðimenn orðið erfitt með biðina. Sumir eru jafnvel byrjaðir og búnir að landa þeim fyrsta. Ekki auðveldar það mönnum biðina þegar svikavor skellur á okkur með hægu og mildu veðri. 

Víða er hægt að komast í veiði þó að enn sé mars mánuður. Þannig er til dæmis Gíslholtsvatn opið allt árið. Þar er urriði og hann getur tekið hressilega í ætisleit. Gíslholtsvatn er inni í Veiðikortinu og með kaupum á því er að hægt að skella sér í veiði strax, eins og býsna margir eru farnir að þrá eftir langan vetur.

Kokkurinn Jakub Szweda á hótel Kötlu, að Höfðabrekku, rétt austan við Vík í Mýrdal tók fram flugustöngina síðastliðinn föstudag og í vorveðrinu fór hann í tjarnirnar við hótelið. Hann setti í og landaði þessum líka fína urriða. Jakub sleppti urriðanum. Veiðileyfið í tjarnirnar er afskaplega hófstillt eða 2,500 krónur dagurinn. Um er að ræða þrjár tjarnir beggja vegna þjóðvegarins og er hægt að kaupa leyfi á hótelinu allan ársins hring. Dags daglega ganga tjarnirnar undir nafninu Höfðabrekkutjarnir.

Jakub fékk þennan urriða á svarta straumflugu. Var ekki viss um nafnið, enda skiptir það ekki öllu. Hann var hæst ánægður að vera kominn á blað veiðiárið 2025.

1. apríl er svo sem ekkert heilagur dagur í vatnaveiðinni. Mörg vötn má veiða um leið og ísa leysir. Svo eru fjölmargir að dorga gegnum ís og þar eru hlýindi ekki endilega vel séð.

En 1. apríl er merkisdagur því að þá hefst vorveiðin í sjóbirtingi og fjölmörg vatnasvæði opna formlega og blákaldir veiðimenn gleðjast. Sjóbirtingsárnar fyrir austan, Tungufljót, Eldvatn, Tungulækur, Skaftá, Vatnamót, Geirlandsá og fleiri taka þá á móti fyrstu veiðimönnunum. Og ekki bara á Suðurlandinu hefst veiðin. Eyjafjarðará með sinn vaxandi fjölda af sjóbirtingi opnar, Húseyjarkvísl, Leirá og margar fleiri ár og vatnasvæði.

Svikavor kallast það þegar hlýindakafli, eða góðviðriskafli kemur í febrúar, mars eða apríl. Það er nefnilega enn vetur og hann á eftir að minna á sig áður en yfir lýkur. Hins vegar er um að gera að njóta þessara daga því að vissulega styttist í vorið og sól hækkar ört á lofti.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert