Aðalfundur Skotveiðifélags Íslands, SKOTVÍS var haldinn í gær og sérstakur gestur fundarins nýr ráðherra veiðimála, Jóhann Páll Jóhannsson. Nokkur spenna ríkti meðal fundarmanna hvernig tóninn yrði hjá nýja ráðherranum.
Skemmst er frá því að segja að fundargestir voru að stærstum hluta ánægðir með ráðherra. Hann lýsti yfir lítilli þekkingu á málaflokknum en sagðist hafa sérfræðinga sér við hlið í ráðuneyti umhverfis-, loftslags og orkumála. Þá undirstrikaði ráðherra mikilvægi þess að eiga samráð við félag á borð við SKOTVÍS.
Ráðherra fékk margvíslegar spurningar að ræðu lokinni og játaði hann þörf á skoða ýmis mál. Áður en hann kvaddi bað hann um símanúmer formanns SKOTVÍS og minnti á í leiðinni að hann hefði ekki verið að lofa neinu en játað að skoða þyrfti ýmsa hluti sem hefðu verið nefndir.
Jóhann Páll var spurður að því hvort hann væri veiðimaður. Hann svaraði því neitandi en tók fram að það væri aldrei of seint að byrja. Skautaði ráðherra í gegnum fyrirspurnirnar af pólitískri list og vitnaði til þess að gott fólk væri í ráðuneytinu. Honum var reyndar bent á að enginn sérfræðingur í veiði væri í ráðuneytinu.
Hefur skotveiðimönnum gjarnan fundist í gegnum árin að meira sé lagt upp úr því að hlusta á þá sem kalla eftir friðun og fulltrúar slíkra félaga hafi jafnvel átt greiðari aðgang að fundahöldum en fulltrúar skotveiðimanna.
Áki Ármann Jónsson var endurkjörinn formaður SKOTVÍS og að sama skapi stjórn félagsins utan þess að einn stjórnarmaður gaf ekki kost á sér og var Indriði Ragnar Grétarsson kjörinn í stjórn. Félagið nýtur mikils meðbyrs og hefur fjöldi félaga þrefaldast á stuttum tíma og í dag eru skráðir félagar 3,087 talsins. Ánægja ríkir með störf félagsins meðal skotveiðimanna og ljóst að hagsmunagæsla hefur tekist vel á undanförnum árum. Áki Ármann á von á frekari fjölgun og eins og hann orðaði það í samtali við Sporðaköst, „Hver einasti nýr félagsmaður styrkir okkur og samtök og ég hvet allt skotveiðifólk til að ganga formlega til liðs við okkur. Þannig aukast áhrifin okkar og ekki veitir af.“
Í skýrslu stjórn fór formaður yfir margvísleg atriði. Veiðikortakerfið sem tekið var upp árið 1995 í mars, er þrjátíu ára um þessar mundir. Skotveiðimenn hafa greitt um 1,600 milljónir króna inn í þetta kerfi frá stofnun í formi veiðikortsgjalda. Þar af hafa tæplega 900 milljónir runnið til rannsókna og um 700 milljónir í umsýslugjaldi.
Það er hins vegar pottur brotinn í utanumhaldi og endurgjöf sem kveðið er á um í lögum. Þannig ber þeim aðilum sem fá fjárframlög til að skoða og meta lykiltegundir að skila skýrslum og uppfræða um leið skotveiðimenn. Sú uppfræðsla hefur ekki átt sér stað. „Það hefur lítið gerst á því sviði frá árinu 2018. Lengi vel var Covid afsökunin, en eftir því sem ég best veit er þeim faraldri löngu lokið,“ sagði Áki á fundinum.
Eitt af því sem bar á góma var friðun rjúpu á Reykjanesi og í nágrenni Reykjavíkur. Upphaflega var þessi friðun sett á í rannsóknarskyni en þeim rannsóknum er löngu lokið. Náttúrufræðistofnun og umhverfisstofnun hafa nú í tæp sjö ár skoðað hvort hægt sé að aflétta þeirri friðun. Áki fór yfir þetta mál með ráðherra og benti á að líkast til væri um að ræða ákvörðunarfælni embættismanna. Sjö ár þyki langur tími þegar enn lengra er frá því að rannsóknum var hætt.
Aðkoma SKOTVÍS að hreindýraráði var einnig til umræðu en mörgum þykir sæta furðu að skotveiðimenn eigi ekki fulltrúa þar.
Skoðanakönnun sem Maskína vann fyrir SKOTVÍS í febrúar var kynnt á aðalfundinum. Þar kom fram að 54% þeirra sem afstöðu tóku eru jákvæð eða mjög jákvæð gagnvart veiðum á fuglum og spendýrum. 21% neikvæð eða mjög neikvæð. Í kynningu á niðurstöðum úr könnun Maskínu fór Áki Ármann yfir það að gjarnan væri umræðan á þeim nótum að 99% almennings væri á móti skotveiðum. Sú ályktum væri úr lausu lofti gripin og umræðan á miklum villigötum.
Margt fleira var rætt eins og mögulegt vanmat á stofni grágæsar, sem leiddi til sölubanns. Þegar nýjar tölur úr talningum berast verður fróðlegt að sjá stöðuna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |