Veiði í gegnum ís eða dorgveiði er mörgum framandi. Þó er hópur fólks sem stundar þetta sport reglulega. Þeir Jakob Róbertsson, búsettur á Húsavík og félagi hans úr Kinninni, Daði Jóhannesson iðka svo gott sem allan veiðiskap og hafa verið að fikra sig inn í ísveiðina, hratt og örugglega. Þeir eru nú búnir að koma sér upp búnaði til geta stundað þetta af krafti.
Í vikunni fóru þeir á ísilagt vatn í um fjögur hundruð betra hæð. „Ísinn var 66 sentímetra þykkur. Ég ætlaði varla að komast í gegn,“ lýsir Jakob. Þeir félagar fengu þar fimm litlar bleikjur og svo tvær glæsilegar. Önnur mældist fimmtíu sentímetrar og sú stærsta sem reyndist 56 sentímetrar. „Frábær dagur og við erum að fara þarna aftur um helgina,“ upplýsti Jakob.
En kíkjum aðeins á búnaðinn. Jakob smíðaði sleða fyrir þá sem rennur á skíðum. Það fylgir þeim orðið mikið hafurtask þegar þeir leggja á ísinn. Gimsteinninn er Costco tjaldið sem þeir festu nýlega kaup á. Kostnaðurinn við það kom þeim skemmtilega á óvart. Innan við tíu þúsund krónur og langt undir því verði sem þeir hafa séð á netsíðum víða um heim. Tjaldið skýlir þeim fyrir vindi og vatni og menn geta látið fara vel um sig. „Ég sá á facebook að maður hafði keypt svona tjald og sagt það vera leikbreytir. Við stukkum á þetta og þetta breytir svo sannarlega leiknum.“
Tjaldið er hannað fyrir ísveiði og er botnlaust. Snjó er mokað á mottur sem eru áfastar tjaldinu og þannig verður vindvörnin alger. Þeir félagar byrja á að hreinsa snjó af ísnum og koma tjaldinu fyrir. Þeir bora því næst holurnar. Þar er Jakob búinn að mixa festingu á ísborinn þannig að þeir bora götin með batterís borvél. Stólar eru settir upp. Borð og annar nauðsynlegur búnaður. Kveikt á prímusnum og fiskleitartæki. Svo er beitt og rennt í gegnum holuna. Fiskleitartækið virkar býsna vel og þeir sjá þegar fiskur er á ferðinni. „Daði fékk flotta bleikju um daginn. Við sáum fisk koma inn á fiskleitartækið og hann var töluvert frá botni. Daði dró upp til að leggja þetta í hans hæð og bleikjan tók þegar í stað. Við fengum svo góðan urriða sem var alveg niður við botn á sjö metra dýpi. Við misstum tvo sem voru alveg upp við ísinn þannig hann var alveg um allt þegar við horfum á dýptina,“ upplýsti Jakob.
Þeir hafa stundað Vestmannsvatn og Ljósavatn en það fyrrnefnda hefur gefið þeim betri fiska. En eins og Jakob segir það eru góðar bleikjur, bæði í ánni sem rennur í Ljósavatn og sömuleiðis Djúpá sem rennur út því. Hins vegar hafa þeir bara veitt þar smáar bleikjur og kemur það heim og saman við það sem margir þekkja úr sumarveiðinni.
Hvergi ríkir meiri leynd um veiðistaði en í ísveiðinni. Þannig er afar öflugur hópur í kringum Cezary Fijalkowski sem stundar ísveiði af krafti. Sá félagsskapur hefur fundið staði þar sem er hægt að setja í risasilunga. Myndirnar sem Cezary hefur verið að birta á samfélagsmiðlum bera vott um það. Bleikjur í yfirstærð og sömuleiðis urriðar.
„Það eru orð að sönnu að tjaldið breytir leiknum. Sama hversu mikinn áhuga þú hefur þá vinnur kuldinn á þér, sérstaklega þegar er mikill vindur. Nú erum við í skjóli og getum hitað tjaldið aðeins þannig að nú er þetta meira spurning um hvað við viljum eyða miklum tíma, ekki hvað við tórum lengi. Við getum grillað pylsur og hitað vatn. Þannig að, já þetta breytti leiknum mikið fyrir okkur,“ segir Jakob.
Ísþykktin er eitthvað sem allir sem fara í dorgveiði þurfa að vera mjög meðvitaðir um. Ísinn þarf að lágmarki að vera tíu sentímetra þykkur og helst þykkari til að vera traustur. Ef vafi leikur á hvort ísinn sé traustur gildir gamla reglan, ef þú ert ekki viss slepptu því. Hér fylgir með mynd sem Cezary birti á facebook og sýnir þykkt á ís og burðargetu. Tölurnar eru aðeins til viðmiðunar og ís getur verið misþykkur á sama vatni. Adam sonur hans bjó myndina til en upplýsingarnar eru fengnar frá slökkviliði í Póllandi.
En það má ekki gleyma sér við að njóta þægindanna. Þannig voru þeir félagar Daði og Jakob búnir að gera allt klárt á Vestmannsvatni. Daði beitti og renndi rækjunni ofan í dýpið. Á sama tíma var komin upp suða í katlinum á prímusnum. Kakógerð stóð yfir. Um leið og Daði var að hella sjóðandi vatninu yfir kakóduftið. Fór veiðistöngin af stað og stakkst ofan í vökina. Daði náði að leggja frá sér kakómálið án þess að brenna sig og kastaði sér á ísinn. Á síðasta augnabliki mögulegrar björgunar stakk hann hendinni á kaf ofan í gatið og náði taki á stönginni áður en vatnið gleypti hana. Fiskur var á. En það var allt í hönk. Fiskurinn var búinn að flækja sig í línunni hjá Jakobi og Birki félaga þeirra sem var með í för. Ekki nóg með það. Hann hafði líka náð að flækja sig í fiskleitartækið. „Fyrir rest kom svo þessi fiskur upp. Ég ætlaði ekki að trúa því hvað hann var stór. Hann ætlaði aldrei að hætta að koma upp úr. Við höfðum fram til þessa bara fengið smá titti í vatninu. En Daði nær taki á urriðanum og tekur úr honum krókinn. Ég veit ekki alveg hvað gerðist næst nema það var engu líkara en að Daði hefði fleygt fiskinum frá sér og hann rann beinustu leið ofan í holuna aftur. Daði kastar sér aftur á ísinn á eftir fiskinum. Höndin á kaf og hann var orðinn blautur upp að olnboga áður en hann samþykkti að þessi fiskur væri farinn. En Daði er alvanur að kasta sér á ísinn. Fyrr þennan sama dag fékk ég flotta bleikju og losaði úr henni og þá allt í einu breyttist hún í sápustykki og skaust úr hendinni á mér. Daði fleygði sér á ísinn og stakk hendinni á kaf og kom upp með bleikjuna.“ Jakobi er skemmt yfir þessari frásögn. Sérstaklega þegar hann bætir við að Daði hafi orðið mjög hissa að Jakob skutlaði sér ekki á eftir urriðanum.
Framundan er meira dorg hjá þeim félögum en rétt er að hafa í huga að hlýindakafli er framundan næstu daga og þá getur brugðið til beggja vona varðandi veiði í gegnum ís.
Ef þú hefur stundað dorgveiði í vetur væri gaman að fá sendar myndir af afla og aðstæðum á netfangið eggertskula@mbl.is
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |