Áhugi á fluguhnýtingum hefur verið með mesta móti í vetur. Segja má að þessi mikli áhugi eigi rætur að rekja til Covid áranna þegar fólk var mun minna á ferðinni og viðburðir heyrðu nánast sögunni til. Jákvæð áhrif heimsfaraldursins eru ekki mikil. Þó gæti þessi aukni áhugi fallið þar undir. Hvergi sést þess aukning betur en í verkefninu Febrúarflugur sem Kristján Friðriksson hefur leitt á síðunni sinni FOS.is Síðasta febrúarmánuð var slegið enn eitt metið í fjölda innsendra mynda af flugum. Vissulega voru þær fleiri á Covid árunum en Sporðaköst eru sammála Kristjáni sem í uppgjöri sínu undanskilur Covid árin þegar hann horfir til fjölda og þeirrar aukningar sem hefur orðið. Þetta hefur leitt til þess að framboð á fluguhnýtingaefni er aftur orðið mjög fjölbreytt í veiðiverslunum yfir vetrartímann og tilboð og vöruþróun blómstra.
„Þetta er kærkomin breyting frá árunum áður. Í „gamla daga,“ árdaga Veiðihornsins um aldamótin voru fluguhnýtingar mjög vinsælar en það voru þó einkum laxaflugur sem menn voru að hnýta þá,“ segir Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu í samtali við Sporðaköst.
En hvað gerðist svo. Af hverju slokknaði á þessum áhuga?
„Á góðærisárunum þegar allir voru að flýta sér svo mikið dofnaði áhuginn mjög mikið. Svo mikið að sumar veiðibúðir voru jafnvel hættar að bjóða fluguhnýtingaefni.
Blessuð Covid árin kveiktu svo líf aftur í fluguhnýtingum og hefur áhuginn aukist jafnt og þétt síðustu árin.
Úrval af fluguhnýtingaefni hefur aukist jafnt og þétt hjá okkur og öðrum verslunum í samræmi við aukinn áhuga.
Internetið og samfélagsmiðlar hafa einnig orðið til þess að áhuginn hefur aukist og ekki síst átakið Febrúarflugur sem fluguhnýtarinn og veiðimaðurinn Kristján Friðriksson hefur haldið úti af miklum myndarskap síðustu árin.
Í dag er fjöldi frábærra fluguhnýtara þarna úti, ekki síst hnýtarar sem tileinka sér silungsveiði og hafa náð mikilli leikni í að endurskapa hin ýmsu skordýr á hnýtingakróka.
Í apríl forum við að pakka niður hnýtingaefni sem þakið hefur hluta búðarinnar í allan vetur. Vor- og sumarvörurnar streyma nú í hús og þær þurfa sitt pláss.
Fluguhnýtingaefnið verður því fáanlegt í netverslun eingöngu frá maí og fram á haustið þegar allt fer á fullt á ný.
Nú er komið að því að við förum að veiða og láta reyna á allar flugurnar sem við höfum hnýtt í vetur,“ brosir Ólafur. Auðvitað er það stóra markmiðið að vel vafðir og fjöðrum prýddir krókarnir hljóti náð fyrir augum dómarans. Sá er kröfuharður og lætur ekki glepjast af hverju sem er. Vorveiðin í sjóbirtingi hefst eftir tólf daga og þá munu margar heimasmíðarnar verða teknar til kostanna.
Í fréttatilkynningu sem Veiðihornið hefur sent frá sér er vakin athygli á nýju verkefni, sem til er orðið í beinu framhaldi af þeim mikla áhuga sem fluguhnýtingar njóta. Þar segir:
„Hnýtum sjálf er nýtt verkefni sem Veiðihornið ýtir úr vör nú á föstudag. Hnýtum sjálf er fluguefnispakki þar sem í hverjum pakka er ein fyrirmyndarfluga ásamt efni til að hnýta 15 stykki af sömu flugu ásamt upplýsingum um fluguna og að lokum QR kóða sem leiðir eigandann að kennslumyndbandi þar sem flugan er hnýtt.
Um er að ræða sex pakka sem fara í sölu næstu sex föstudaga. Í seríunni eru tvær púpur, tvær straumflugur og tvær laxaflugur.
Í fyrsta pakkanum er hin vel þekkta og veiðna púpa Peacock eftir Kolbein Grímsson og í pakkanum sem kemur eftir viku er Heimasætan eftir Óskar Björgvinsson.
Þetta er skemmtilegt „konsept“ sem við ætlum einkum þeim sem eru að byrja að hnýta en einnig öllum þeim sem vilja hnýta og veiða á sínar eigin flugur.
Við erum með tilbúið prógram fyrir næsta vetur en við ætlum að fara af stað aftur í haust ef vel tekst til með þessar sex flugur sem fara í sölu fyrir vorið.
Pakkarnir eru gerðir fyrir okkur hjá Shadow Flies í Thailandi en þar eru nánast allar flugur Veiðihornsins hnýttar. Vel þekktur sænskur fluguhnýtari, Niklas Dahlin sem starfar hjá Shadow hnýtir flugurnar og María Anna Clausen les. Á myndböndunum er einnig enskur texti fyrir þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.“
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |