Útlit gott og stefnir í spennandi opnanir

Svona leit Þórðarvörðuhylur í Eldvatni út í morgun. Sjálfsagt fá …
Svona leit Þórðarvörðuhylur í Eldvatni út í morgun. Sjálfsagt fá einhverjir vatn í munninn við að sjá þetta. Aðeins frostgrámi við ána en ekkert sem dægursveifla í hita vinnur ekki á. Ljósmynd/Jón Hrafn Karlsson

Mars hefur verið óvenju mildur og nánast gert tilkall til þess að vera hluti af vorinu. Veðurspá er enn á sömu nótum. Milt áfram og frekar hlýtt. Nú þegar níu dagar eru í að sjóbirtingsveiðin hefjist eru að teiknast upp afar spennandi skilyrði.

Snjólaust á láglendi og árnar í góðu vatni. Sporðaköst tóku stöðuna hjá leigutökum Eldvatns í Meðallandi og Tungufljóts. Erlingur Hannesson einn af leigutökum Eldvatns segist orðinn mjög spenntur að opna. „Áin lítur vel út og margir farnir að titra af spenningi,“ svaraði Elli aðspurður um útlitið.

Í morgun var fallegt veður við Eldvatnið. Jón Hrafn Karlsson, einn af leigtökunum sagði aðstæður góðar. Hann skaust fyrir Sporðaköst og tók mynd af ánni. Fyrir valinu varð Þórðavörðuhylur sem lítur vel út. „Við höfum séð allar aðstæður í þessu. Opnað í tuttugu metrum á sekúndu og tíu gráðu frosti. Svo höfum við líka fengið sól og blíðu og allt þar á milli,“ svaraði Jón Hrafn, þegar hann var spurður hvort þetta liti ekki óvenju vel út.

Iðnaðarmenn hafa verið á fullu í veiðihúsinu við Tungufljót. Húsið …
Iðnaðarmenn hafa verið á fullu í veiðihúsinu við Tungufljót. Húsið tekið í gegn og gert kótelettuklárt. Veiði þar hefst 1. apríl. Ljósmynd/Hreggnasi

Sem betur fer ekki með stöng

Nýr leigutaki er með Tungufljót. Það er félagið Hreggnasi sem samdi við veiðifélag í vetur. Jón Þór Júlíusson er mikill aðdáandi Tungufljótsins og þó að hann sé ekki að veiða þar í apríl sjálfur er tilhlökkunin mikil. „Það er verið að taka húsið í gegn og uppfæra. Nú er kominn ofn þannig að kótelettur í raspi er ekki vandamál fyrir þá sem það kjósa og líka fröllur ef menn vilja það. En einn iðnaðarmönnunum sem var að vinna í húsinu kíkti upp á brú og sá þar bara fjörutíu til fimmtíu fiska, hringsólandi. Sleggjur innan um. Hann sagðist hafa verið feginn að vera ekki með stöng í bílnum því hann hefði varla ráðið við sig,“ hlær Jón Þór.

Útlitið er vissulega gott, þegar horft er á veðurspá. Virðist eins og mars ætli að enda á þessum mildu nótum, en það þekkja flestir veiðimenn að skjótt skipast veður í lofti. Báðar árnar eru uppseldar í apríl og færri komast að en vilja. 

Það vita það flestir hvort sem þeir stunda vorveiði eða ekki að páskahret kemur. Það er bara spurning hvenær og hversu lengi. Jú og hversu mikið. Páskarnir eru að þessu sinni 17. til 21. apríl. Svo kemur tveggja daga hlé og þá skellur sumarið á. Alla vega er sumardagurinn fyrsti 24. apríl. Þá opnar Elliðavatn og er það merkisdagur í hugum margra.

Sporðaköst deila eftirvæntingu með veiðifólki og munu flytja ykkur fréttir af vorveiðinni um leið og hún byrjar. Af nógu verður að taka á fjölmörgum veiðisvæðum og hundruð veiðimanna mun halda til veiða þriðjudaginn fyrsta dag aprílmánaðar, ef að líkum lætur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka