Selur sjálfur veiðileyfi í Tungufljót

Gísli Halldór Magnússon, eða Dóri eins og hann er ávallt …
Gísli Halldór Magnússon, eða Dóri eins og hann er ávallt kallaður gerir sig hér kláran í að leggja net fyrir sínu landi. Nú hefur Dóri fengið sig fullsaddan af því sem hann kallar yfirgang. Hann ætlar að selja stangir fyrir eigin landi. Ljósmynd/Guðmundur Bergkvist

Veiðileyfi í Tungufljóti, fyrir landi Eystri og Ytri Ása í Skaftártungu eru boðin til sölu í auglýsingu í Morgunblaðinu í dag.

Er um að ræða þrjár stangir á hverjum degi frá 1. apríl. Gísli Halldór Magnússon er ábúandi á þessum jörðum og settu Sporðaköst sig í samband við Gísla. Hann staðfesti að hann væri að selja þessi veiðileyfi.

Spurður um veiðireglur og hvort mætti veiða á allt, svaraði Gísli: 

„Já. Ég hef aldrei áttað mig því að veiða og sleppa. Það er heimskasta skepna veraldar sem gerir það. Ég veit ekki um neina skepnu svo heimska. Þegar kötturinn er að leika sér að músinni sleppir hann henni nokkrum sinnum en étur hana svo,“ sagði Gísli.

Spurður um ástæður þessa að hann er að selja sjálfur veiðileyfi fyrir sínu landi á austurbakka Tungufljóts segir hann. 

„Þeir hafa haldið mér fyrir utan veiðifélagið hér í Tungufljóti og segja að ég eigi engan veiðirétt í Tungufljótinu þó að það rennir fyrir landi Eystri og Ytri Ása. Ég ætla ekki að láta þá komast lengur upp með þetta. Það er fallinn dómur í Hæstarétti í landamerkjamáli og þetta svæði er þar sem Ásavatn kemur út í Tungufljót. Þetta er svæðið beint vestur af Lambafelli. Fyrst að þeir vilja ekki hafa mig í veiðifélaginu þá bara varðar þeim ekkert um þetta. Þá bara auglýsi ég mína veiði.“

Gunnar Árnason með flottan og hnausþykkan geldfisk í opnun í …
Gunnar Árnason með flottan og hnausþykkan geldfisk í opnun í Tungufljóti í fyrra. Spennustigið við ána gæti orðið meira í ár. Ljósmynd/Sigurður M. Guðmundsson

Óhætt er að draga þá ályktun að deilur séu í uppsiglingu varðandi veiðirétt í Tungufljóti í Vestur–Skaftafellssýslu. Veiðitímabilið hefst á þriðjudag og vorveiðin í Tungufljóti þykir mjög eftirsóknarverð og stór hluti hennar fer einmitt fram á Vesturbakkanum á móti landi Gísla. Nýr leigutaki tók nýverið við Tungufljóti. Veitt er á fjórar stangir í ánni. 

„Það er megnið af veiðinni sem er þarna í vatnaskilunum og þeir þykjast þá eiga orðið báða bakka en Tungufljót skiptir alls staðar jörðum á milli austurbakka og utanfljótsjarða frá upptökum.“

Gísli segir að áður hafi komið upp deilur og fyrir þrjátíu árum var veiði í hans landi kærð til sýslumanns, sem á þeim tíma var Einar Oddsson. Gísli segir að sýslumaður hafi ráðlagt sér að láta þá hina sækja málið á hendur honum. 

„Ég var svo mikill bjáni og var að reyna að vera almennilegur. Ég hélt að menn myndu átta sig. En þeir ætla ekkert að átta sig því menn eru oft frekir til fjörsins eftir peningum þegar þeir þurfa ekki að beygja sig eftir þeim.“ 

Gísli hefur stundað ádráttarveiði í net í Kúðafljótinu, og aflað vel. Sama má segja um bæi neðar með fljótinu.

En þú verður nú varla vinsæll í sveitinni að fara að selja leyfi núna, eða hvað?

„Ég hef hvergi sóst eftir vinsældum. Ég hef aldrei haft neitt af neinum. Hún amma mín kenndi mér það ungum dreng. Hún sagði við mig og fór með vísu sem ég held að sé eftir Hallgrím Pétursson: „Hvar þú finnur fátækan á förnum vegi, gjörðu honum gott en grættu hann eigi því guð mun launa á efsta degi.“ Ég hef nú reynt að fara eftir þessu. En þessi leikaraskapur sem hér er viðhafður er ekki mér að skapi.“

„Veiði mér til matar en ekki til skammar“

Þú ert ekki sáttur?

„Nei, ég er það auðvitað ekki. Þetta er ræfilsháttur eins og hann gerist verstur. Nú skulu þeir reyna sig. Nú skulu þeir sækja til mín. Ég mun verja mína veiðimenn. Mér blöskrar svona yfirgangur. Þeir eru að skipta með sér fjármunum og hafa af mér töluverða fjármuni á hverju ári.“

Gísla er full alvara og hefur hann tilkynnt þessar fyrirætlanir til yfirvalda veiðimála á Suðurlandi. Hann hefur stundað veiði á þessu svæði áratugum saman og veiðir mikið af fiski í ádráttarnet á hverju hausti. 

„En ég sleppi þeim ekki. Það er engin hætta á því. Mig varðar ekkert um hvað aðrir gera en ég kann ekki á svona veiðimennsku. Ég veiði mér til matar en ekki til skammar.“

Gísli upplýsti að hann hræddist ekki nokkurn skapaðan hlut. Hvorki lifandi eða dauðan. „Ég er farinn að moka skít og hef unnið við það alla ævi," sagði hann að endingu og kvaddi. 

Nú verður forvitnilegt að sjá framgang þessa máls en víst er að einhverjir hrökkva við, bæði nágrannar og væntanlegir veiðimenn.  

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka