Veiðitímabilið hafið og aðstæður góðar

Ólafur Garðarsson með fallegan vorbirting úr Húseyjarkvísl. Það er magnað …
Ólafur Garðarsson með fallegan vorbirting úr Húseyjarkvísl. Það er magnað hversu mikið af birtingnum þar er vel haldinn á vorin. Ljósmynd/Valli

Veiðitímabilið hófst formlega í morgun. Fjölmörg veiðisvæði tóku opnum örmum á móti veiðiþyrstu veiðifólki. Víða hafa menn verið að setja í hann enda skilyrði hagfelld. Þannig voru kappar að veiða í Geirlandsá og búnir að landa fimmtán birtingum þegar morgunvaktin var að klárast. „Engir stórir ennþá en það er nóg af honum. Flestir sem við höfum fengið eru í kringum sjötíu sentímetrana og sá stærsti um 75,“ sagði Bjarki Bóasson í samtali við Sporðaköst fyrir stundu.

Þessi var tekinn í Neðri Ármótum í Geirlandsá í morgun. …
Þessi var tekinn í Neðri Ármótum í Geirlandsá í morgun. Þar voru komnir einir fimmtán á land. Loftur Þór Einarsson fékk þennan. Menn eru léttklæddir í hægviðri og fimm gráðum. Ljósmynd/Bjarki Bóasson

Í öðrum landshluta voru veiðimenn að opna Húseyjarkvísl í Skagafirði. Kvíslin geymir svo magnaða sjóbirtinga allt árið um kring. Myndin sem er efst í fréttinni sýnir þann stærsta sem þar er kominn á land í morgun. Þetta er áttatíu sentímetra birtingur. Þykkur og nánast minnir á nýgenginn vorlax. Ólafur Garðarsson fékk þennan í veiðistað 27 og tók hann gulan Golla. Þeir félagar Ólafur og Valgarður Ragnarsson eru að venju að opna þessa skemmtilegu á. Búið var að landa nítján fiskum þegar klukkan var að daðra við eitt. „Flott skilyrði sem koma ekki nema á fimm til tíu ára fresti,“ sagði Ólafur.

Aðstæður eru mun betri í ár en í fyrra. Fyrir ári þurfti ísaxir og mikið púl til að opna vakir og geta veitt. Menn voru bláir og marðir eftir þá opnun. Nú hins vegar er snjólétt og áin opin og aðgengileg.

Stefán Sigurðsson landaði þessum í Leirá. Aðstæður eru fínar og …
Stefán Sigurðsson landaði þessum í Leirá. Aðstæður eru fínar og tveir mjög stórir misstust. Ljósmynd/Harpa

Í Eyjarðará áttu margir von á veislu en þar voru rólegheit fyrir hádegi. „Bara nokkrir litlir,“ upplýsti Stefán Hrafnsson, sem er þar við veiðar. En eins og flestir veiðimenn vita þá er Celsíus besti bandamaðurinn á þessum köldu vordögum og miðbik dags oft besti tíminn. Spyrjum að leikslokum þar.

Líf var í Leirá. Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir, leigutakar voru mætt að vanda. Sjö hafði verið landað og eins og svo oft áður. „Við settum í tvo mjög stóra og þeir sluppu,“ upplýsir Harpa. Hún var í axlaraðgerð í vetur og segir að sér henti ágætlega af þeim sökum að vera í minni fiskunum. Það vita það allir sem þekkja Hörpu að það er ekki rétt en virkar sem fín afsökun við þessar aðstæður.

Harpa er að jafna sig eftir axlaraðgerð. Þess vegna er …
Harpa er að jafna sig eftir axlaraðgerð. Þess vegna er hún í litlu fiskunum. Naglalakkið hefur gleymst á fyrsta degi. Ljósmynd/Stefán

Margar fleiri ár eru komnar af stað og við færum ykkur fréttir af gangi mála þar í dag eða kvöld.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert