„Ég hélt allan tímann að ég væri að glíma við vænan hoplax,“ segir stangveiðimaðurinn og blaðamaðurinn Baldur Guðmundsson í samtali við Sporðaköst. Hann gerði sér lítið fyrir og landaði 75 sentímetra staðbundnum urriða á urriðasvæðinu í Laxá í Aðaldal í morgun.
Baldur hefur veitt urriðasvæðin í Aðaldalnum árlega frá árinu 2009 og hefur landað þar að sögn fleiri hundruð fiskum. Þetta er stærsti urriðinn sem Baldur hefur dregið þar að landi.
„Við erum hér í góðu yfirlæti með leigutakanum Matthíasi Hákonarsyni hjá Iceland Fishing Guide í veiðihúsinu í Mýrarkvísl. Við hófum veiðar í gær í blíðskaparveðri og náðum nokkrum ágætum urriðum – og tveimur hoplöxum – seinnipartinn í Mýrarkvísl í gær,“ segir Baldur sem rak í rogastans þegar hann vaknaði í morgun. „Við sáum ekki bílana á bílastæðinu þegar við fórum á fætur. Það var blindbylur. Við fórum ekki út fyrr en eftir hádegi.“
Í dag veiddu þeir í Laxá, fyrir neðan Laxárvirkjun. „Það var frekar róleg taka enda hafði lofthiti fallið um ansi margar gráður frá því í gær,“ segir Baldur sem var klæddur í forláta lopabuxur sem amma hans prjónaði um árið – buxur sem hafa iðulega komið að góðum notum í vorveiðinni. Hann reyndi púpur og straumflugur en allt kom fyrir ekki. „Ég hnýtti þá squirmy á tauminn, sem ég fékk hjá hnýtaranum Árna Kristni Skúlasyni fyrir ferðina. Ég hef enga fordóma fyrir squirmy, enda finnst mér fyrst og fremst gaman að fá fisk,“ segir hann.
Ekki leið á löngu þar til tökuvarinn hvarf sjónum. Takan var þung. „Fyrsta hugsun var að fast væri í botni því línan haggaðist varla fyrstu sekúndurnar. Þegar „botninn“ svo synti í burtu varð mér ljóst að stór fiskur væri undir. Ég var viss um að þetta væri vænn lax á niðurleið,“ segir hann. Eftir um 20 mínútna viðureign, á fimmu með sjö punda taum, stýrði hann fisknum í hrollkaldar hendurnar á Matthíasi leigutaka, sem fann lengi á eftir ekki fyrir höndunum á sér. Háfurinn hafði orðið eftir í bílnum.
Að myndatöku lokinni var fisknum sleppt. „Svona höfðingja hittir maður ekki oft – og þeir fá að njóta vafans,“ segir hann. 75 sentímetra langur staðbundinn urriði er fiskur sem flokkast sem draumafiskur.
Með Baldri á stöng var Óli Jón Gunnarsson, sem er að stíga sín fyrstu skref í veiðinni. Hann landaði sínum fyrsta urriða á sömu flugu, skömmu síðar. „Það er alltaf gaman að fá væna fiska – en gleðin sem fylgir því að horfa upp á veiðifélaga landa sínum fyrsta fiski slær stórfiskinn út,“ segir Baldur alvörugefinn.
Skammt er stórra högga á milli. Þeir félagar munu veiða í Mýrarkvísl, Laxá og Reykjadalsá fram á föstudag. Viku síðar heldur Baldur svo Húseyjarkvísl í Skagafirði, sem opnaði með stæl þetta árið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |