Eyjafjarðará hefur síðustu ár styrkt sig í sessi sem afar áhugaverð sjóbirtingsá. Segja má að þær breytingar sem hafa orðið á landsvísu, þar sem bleikja hefur átt undir högg að sækja og sjóbirtingur verið að eflast hafi heldur betur komið skýrt fram í Eyjafjarðaránni.
Áin opnaði á mánudag og hefur byrjunin verið hreint ágæt, að sögn þeirra sem hafa veitt fyrstu dagana. Snjókoma fyrri hluta dags í gær gerði það að verkum að menn voru ekki að flýta sér og hófu ekki veiðar fyrr en eftir hádegi. Opnunardagurinn hafði gefið ágætlega og var um þrjátíu birtingum landað á mánudag. Leiðsögumenn úr Vopnafirði eru fyrsta holl í ánni. Síðari hluta dags í gær hlýnaði og tók upp snjó. Þá rifu veiðimenn sig upp úr sjónvarpsglápi og héldu til veiða.
Fiskur var vel dreifður og voru þeir setja í birtinga víða. Sveinn Björnsson, Denni lenti í fjöri niður á svæði eitt sem er að mati þeirra sem vel þekkja til frekar óalgengt í byrjun apríl, en þykir vita á gott. „Já, við fórum ekki af stað fyrr en eftir hádegi. Það var bylur fram að hádegi en seinniparturinn var fínn. Við fengum einhverja tuttugu birtinga og allt upp í áttatíu sentímetra,“ sagði Stefán Hrafnsson í samtali við Sporðaköst.
Jón Gunnar Benjamínsson sem hefur átt sæti í stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár staðfesti í samtali við Sporðaköst að ásókn í sjóbirtinginn í ánni hefði verið að aukast jafnt og þétt síðustu ár. Þannig er apríl mánuður nánast uppseldur. „Þetta er orðin aðal söluvaran hjá okkur, myndi ég segja. Við erum að fá veiðimenn árlega erlendis frá til að veiða sjóbirting. Það þekktist ekki í Eyjafjarðará áður fyrr,“ upplýsti Jón Gunnar aðspurður hvort áhuginn á birtingnum hefði verið að aukast.
Vissulega er bleikjan enn til staðar í Eyjafjarðará en eins og Jón Gunnar segir þá hefur hún mátt muna sinn fífil fegurri. Hér áður fyrr var stórbleikja hennar aðal vörumerki. Hún gaf á hverju ári mikið magn af bleikjum fimm pund og upp úr. Hvort sá tími kemur aftur er ómögulegt að segja til um.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |