Umtalsverður fiskadauði í Varmá

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tóku myndir og sýni úr Varmá. Hér má …
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tóku myndir og sýni úr Varmá. Hér má sjá hluta af þeim seiðum og einn stærri fisk sem þeir fundu í ánni. Ljósmynd/Hrafnkell Karlsson

Umtalsvert magn af fiski hefur drepist í Varmá í Hvergerði. Starfsmenn frá Hafrannsóknastofnun ásamt veiðiréttareigendum könnuðu aðstæður í dag og berast böndin að sundlauginni í Hveragerði.

Hrafnkell Karlsson bóndi á Hrauni í Ölfusi og einn af veiðiréttarhöfum í Varmá og Þorleifslæk staðfesti að hann og formaður Veiðifélagsins hefðu kannað aðstæður. 

„Þetta er bara hrikalegt mál að þetta skuli gerast. Við fórum um þetta svæði í dag og þeir komu á vettvang tveir starfsmenn Hafró á Suðurlandi og staðfestu þetta. Tóku myndir og sýni. Það varð vart við þetta fyrst í gærkvöldi og þá sást talsvert af stærri fiski. En við sáum bara tvo stóra núna og við reiknum með að það sé vegna þess að bæði er fuglinn að hirða þetta og hann rúllar betur eftir botninum en smáseiðin. Við sáum mest ársgömul seiði sem eru frá fimm og upp í 10 sentímetra löng sem lágu þarna í hundraðatali,“ sagði Hrafnkell í samtali við Sporðaköst.

Heldurðu að þetta sé mikið magn af fiski sem drapst?

„Það vitum við ekki. Það er mjög líklegt að lífríkið fari mjög illa ef þetta er klór eins og gerðist hérna um árið. Þá varð aldauði á lífríkinu á kafla og það var mörg ár að jafna sig. Þó að þetta sé að öllum líkindum takmarkaður hluti árinnar þá er þetta einn viðkvæmasti hluti hennar, þetta svæði.

Það sem okkur finnst alvarlegt er að þetta hafi gerst aftur þrátt fyrir það að það var gerð krafa af okkar hálfu að það yrði sett þró fyrir framan úrrennsli laugarinnar þannig að það væri hægt að koma í veg fyrir að klór færi út í ána.“

Dauð seiði sem þeir Hrafnkell og formaður veiðifélagsins gengu fram …
Dauð seiði sem þeir Hrafnkell og formaður veiðifélagsins gengu fram á í dag í Varmá. Ljósmynd/ Hrafnkell Karlsson

Engin tilkynning barst

Hrafnkell segir að það hafi ekki verið gert. „Svo er einnig mjög alvarlegt að þegar þetta gerist, sennilega í fyrradag. Það er komið í ljós að það var eitthvað verið að gera í lauginni. Það er búið að staðfesta það. Það er alvarlegt að þetta skuli ekki tilkynnt. Það er mjög alvarlegt. Þegar svona kemur fyrir þá ber viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að tilkynna það strax til heilbrigðiseftirlits og annarra aðila eins og stjórnar veiðifélagsins. Þetta var ekki gert.“

Hrafnkell segir að það hafi verið athugull útivistarmaður sem var á ferli sem tók eftir dauðum fiskum í gærkvöldi. „Við veiðiréttarhafar lítum þetta mjög alvarlegum augum. Við munum taka þetta sérstaklega fyrir á okkar vettvangi.

Seiðin sem þeir fundu voru þar sem straumlag var hægara.
Seiðin sem þeir fundu voru þar sem straumlag var hægara. Ljósmynd/Hrafnkell Karlsson

Þéttbýlið í Hveragerði hefur gengið mjög hart að ánni. Við vorum mjög ánægðir þegar þriggja þrepa hreinsunarstöð var sett upp árið 2002. Síðan hafa afköst hennar verið aukin en alls ekki í takt við þá fjölgun sem hefur orðið í bænum. Það hefur ekkert verið hugsað til framtíðar og þeir hafa flotið sofandi að feigðarósi.

Þetta er þriðja árið sem við verðum að loka á veiði í ánni vegna mengunar. Þeir tala um að vera búnir að leysa þetta fyrir veiðitímabilið 2026, en það verður alls ekki miðað við þær fjárhæðir sem verið er að tala um, þó að bærinn hafi fengið vilyrði um styrk frá Evrópusambandinu upp á tvö til þrjú hundruð milljónir.

Sár og leiður

Svo kemur þetta ofan á allt annað. Ég segi það nú bara sem veiðiréttarhafi þá er bara mælirinn fullur. Þetta gengur ekki lengur. Ég óttast að það sem við sáum í dag hafi bara verið toppurinn á ísjakanum. Maður verður svo sár og leiður að sjá horfa upp á þetta,“ sagði Hrafnkell.

Benoný Jónsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun á Selfossi fór á staðinn í dag og kannaði aðstæður. Hann sagði að þeir hefðu skoðað ána frá Reykjafossi og niður að bænum Þúfu. Ekki samfellt en skoðað á nokkrum stöðum. Þeir fundu dauða fiska frá útrennslinu af sundlauginni og niður að skólphreinsistöðinni sem er aðeins fyrir neðan þjóðveg.

Benoný vildi ekki slá neinu föstu um umfang fiskadauða eða ástæðu en taldi ljóst að fiskurinn hefði drepist af völdum eitrunar. Hann sagði þó að telja mætti líklegt að stóri sjóbirtingurinn hefði verið kominn neðar í ána og því að öllum líkindum sloppið að mestu. Hafi verið um klór að ræða þá þynnist hann út þegar neðar dregur.

„Við hvetjum fólk til þess að hafa samband ef það er á ferli við ána og sér dauða fiska. Allar slíkar upplýsingar eru vel þegnar,“ sagði Benoný.

Við síðasta slys 2007 mátti meta áhrifin frá sundlaugarútfallinu og alveg niður að þjóðvegi. Við skoðun á aðstæðum í dag bar mest á dauðum seiðum um fjögur til fimm hundruð metrum neðan við útfallið. Hér að neðan er linkur á frétt mbl.is um málið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert