Óttar Yngvason, lögmaður og laxveiðibóndi við Haffjarðará hefur gripið til þess ráðs að taka svil úr villtum laxi árinnar og hafa þau verið fryst til framtíðar við alkul, eða 190 gráður í mínus. Óttar stefnir að því að taka sýni fimm ár í röð, eða sem nemur einum kynslóðahring í Haffjarðará. Hann stefnir að því að sýnin verði geymd í þremur heimsálfum.
Þetta kemur fram í nýútkomnu tímariti Veiðihornsins í Síðumúla, Veiði XIV.
„Aðgerðir sem við fórum í, í samstarfi við okkar fiskifræðinga, var að fara um haustið þó að seint væri og taka laxa til að ná í svil. Það gekk vel og við tókum samtals um tuttugu laxa á þremur stöðum í ánni, til að fá breidd úr stofninum. Það voru tekin svil úr þessum fiskum og hver og einn skráður og svilin voru fryst niður í mínus 190 gráður. Þannig að þau eru í alkuli. Það voru tekin tuttugu sýni úr hverjum fiski. Enda fer ekki mikið fyrir hverju sýni. Svilin eru fryst í plaströrum sem eru hálfur millimetri í þvermál. Þetta var allt gert hjá öðlingnum Sveinbirni Eyjólfssyni á Hvanneyri, þar sem nautasæði er fryst og geymt.
Við höfum nú gert þetta tvö ár í röð og gengum að sjálfsögðu úr skugga um að þetta væri villtur íslenskur lax. Við erum komin með tveggja ára sett og við horfum til þess að hafi klakist út erfðablönduð seiði, þá eru þau í ánni þrjú ár að minnsta kosti og jafnvel fjögur. Svo ganga þau til sjávar og koma aftur í ána eftir eitt til tvö ár til hrygningar. Þannig að þetta eru væntanlega fimm ár eftir að alvarleg erfðablöndun verður. Með sviljatökunni erum við að tryggja að til sé erfðaefni af upprunalega stofninum. Það er reyndar ekki hægt að frysta hrognin því að þau springa við frystinguna,“ segir Óttar í viðtalinu. Hann bætir því svo við síðar að til standi að halda þessu áfram næstu þrjú ár þannig að fimm sett verði til reiðu fari illa.
Kveikjan að þessu var stóra slysasleppingin sem varð haustið 2023. Hann ætlaði ekki bara að sitja hjá með hendur í skauti og vona það besta. Komi til þess að nota þurfi svilin í framtíðinni þarf að finna sem bestu hrygnurnar á móti. Óttar viðurkennir að komi til þess að þessi öryggissvil verði notuð verður það væntanlega löngu eftir hans tíð. En hér er komin trygging til að stofninn glatist ekki.
Og þá aftur að tímaritinu. Það er hið glæsilegasta og efnismikið. Ólíkt svo flestum tímaritum liggur blaðið frammi í verslun Veiðihornsins og er vorglaðningur til viðskiptavina. Forsíðumynd blaðsins er eftir verðlaunaljósmyndarann Golla, Kjartan Þorbjörnsson. Hvaða veiðistað er um að ræða og hvað sérðu marga laxa?
Í tilefni af útkomu blaðsins og þeirri staðreynd að vorið er nánast að flýta sér að taka við af vetri, jú og vorveiðin er komin á fullt þá verður Veiðihornið opið alla helgina og hægt að nálgast blaðið þar fyrir áhugasama. Nú eða kíkja á vortilboðin sem Óli og María montuðu sig af í gær þegar þau voru að stafla blaðinu í búðinni.
Meðal efnis er viðtal við Áka Ármann formann SKOTVÍS, makríldrottninguna fyrrverandi, Örn silungahvíslara, Hafliða gæsabónda, Kötku að veiða heiminn, spennandi áfangastaðir í veiði víða um heim og síðast en ekki síst: upplýst er hvenær laxinn mætir.
Veiðihornið er samstarfsaðili SporðakastaLengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |