Félögum í Skotveiðifélagi Íslands, SKOTVÍS hefur fjölgað gríðarlega hin seinni ár. Árið 2018 var félagafjöldinn um þúsund manns en er í dag kominn yfir þrjú þúsund. Með þessari aukningu hefur félagið eflst og hagsmunabaráttan skilað meiri árangri.
Í dag eru um 55% virkra skotveiðimanna aðilar að félaginu. Áki Ármann Jónsson er í ítarlegu viðtali í nýútkomnu tímariti Veiðihornsins, Veiði XIV þar sem hann fer yfir sviðið. Félagaaukning er eitthvað sem Áki horfir til sem merki um árangur. En hann og stjórn SKOTVÍS stefna hærra. Markmiðið er að ná um 80% skotveiðimanna inn í félagið, en það er hlutfallið sem þekkist víða í nágrannalöndunum.
Í Veiði XIV ræðir Áki mörg þeirra mála sem brenna á skotveiðimönnum. Hann gerir að umtalsefni hvernig mörg tilvik hafi komið upp þar sem aðilar sem ekkert hafa að gera með veiðistjórnun ætli sér að ráðskast með slíka hluti. Slíkar tilraunir hefur SKOTVÍS hrakið oftar en einu sinni. Hann er í framhaldi af því og umræðu um hvernig stjórnmálin hafa höndlað veiðimál spurður hvernig standi á þessari framkomu. Hann svarar:
„Það eru einfaldlega fordómar í okkar garð. Fordómar í garð veiði og veiðimanna er því miður mjög víða að finna. Sjálfbærar veiðar eru af hinu góða og mikilvægar. En við sjáum þetta svo víða. Það er stöðugt verið að skipta fólki upp í fylkingar og flokka. Margir virðast trúa því að ef þú ert veiðimaður þá hljótir þú að vera dýrahatari og ekki náttúruverndarsinni. Þetta er fásinna. Allir veiðimenn sem ég þekki hafa ekki gaman af því að drepa dýr en finnst gaman að veiða og borða og njóta. Það að vera að búa til einhverja vondukalla ímynd af veiðimönnum er óásættanlegt.“
Áki nefnir fjölmiðla sem dæmi þar sem honum finnst vinnubrögðin mjög léleg og sérstaklega þegar kemur að skotveiði og veiðimönnum almennt. „Gott dæmi er þegar Independent í Bretlandi birti fregnir af því að þúsundir breskra veiðimanna færu til Íslands að skjóta lunda og flyttu út tugþúsundir uppstoppaðra lunda til að selja. Það var hringt í mig frá FACE sem eru Evrópusamtök veiðimanna. Ég var spurður hvort þetta væri rétt. Ég útskýrði fyrir þeim að þetta væri alger vitleysa og ætti ekki við nein rök að styðjast. Ég hafði svo samband við Independent og benti þeim á að þetta væri bara tilbúningur. Svo hafði samband við mig blaðamaður frá Times til að spyrja út í þetta. Sá aðili ætlaði að birta frétt og reka vitleysuna ofan í Independent. Þetta var um verslunarmannahelgi og ekki náðist í neinn formlegan aðila á Íslandi þannig að þá varð ekkert úr þessu. Eftir helgina var momentið einhvern vegin búið. Ég sendi samt skjöl og gögn á Independent og bað þá um að leiðrétta og draga fréttina til baka. Nei. Það var ekki hægt af því að fréttin hafi fengið svo marga smelli og hafði skapað svo mikla umræðu.“
Áki segir að því miður sé þetta sá veruleiki sem veiðimenn búi við þó svo að veiðimenn séu þverskurður af samfélaginu. Pabbar, mömmur, afar, ömmur, bræður, systur, synir og dætur stunda skotveiði.
Í viðtalinu í Veiði XIV fer Áki yfir stöðu hinna ýmsu fuglastofna sem nytjaðir eru á Íslandi. Hann bendir á grágæsina og er ekki einn um það. Sporðaköst hafa heyrt frá veiðimönnum og þeim sem til þekkja, svipaða umræðu. Áki segir:
„Talningar á grágæs klikkuðu í Covid og niðurstaðan var að stofninn væri mjög lítill. Alþjóðlegt samráð leiddi til þess að við vorum beðnir um að draga mjög úr veiðum, í samvinnu við Íra og Breta. Þar af leiðandi var ráðist í sölubann á grágæs. Það átti líka að stytta veiðitímann en við lögðumst gegn því fyrst og fremst vegna þess að þá hefðum við ekki getað metið áhrif sölubannsins ef gripið hefði verið til tveggja aðgerða á sama tíma. Ráðherra féllst á þau rök og setti bara á sölubann. Við það dró snarlega úr veiðum. Við teljum að stofninn hafi verið stórlega vanmetinn á þessum tíma. Það kemur í ljós fljótlega hvort það sé rétt.“
Eftir að hafa farið yfir helstu nytjastofna bendir Áki að bönn eru sett á en án þess að hafa einhver viðmið hvað taki við ef hlutir breytast.
„Vandamálið hér á Íslandi er að við setjum á bönn en það fylgja aldrei nein viðmið. Hvenær má byrja aftur að veiða? Það eru bara sett á bönn en ekki hugað að neinu viðmiði. Af hverju settu menn ekki eitthvert viðmið varðandi sölubann á grágæs. Ef stofninn fer yfir ákveðna stærð, þá má aftur byrja að selja hana. Nei. Það er bara sett á bann. Svo þorir aldrei neinn að taka ákvörðunina um að banninu skuli aflétt. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa fengið stjórnunar- og verndaráætlun um rjúpuna. Þar eru viðmið í kerfinu.“
Veiði XIV er tímarit Veiðihornsins og þar er hægt að nálgast blaðið en opið er í Síðumúlanum í dag.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |