Hópur sem lauk veiðum í Vatnamótunum á hádegi í dag gerði hreint út sagt frábæra veiði. Þegar upp var staðið lönduðu félagarnir 106 birtingum á tveimur veiðidögum.
Páll Gísli Jónsson var einn þeirra sem var við veiðar í hollinu. „Þetta var alveg magnað. Mikið af fiski og við vorum að finna hann út um allt. Fengum náttúrulega frábært veður og þetta voru magnaðir dagar. Þetta er mikið labb og maður er að leita að álum til að kasta á. Ég persónulega fíla svoleiðis veiðiskap,“ sagði Páll í samtali við Sporðaköst.
Hollið á undan þeim félögum gerði líka góða veiði en ekkert hafði verið bókað eftir fyrstu dagana. Páll vissi ekki hvort að menn hefðu ekki haft tíma til að skrá eða hreinlega engin verið að veiða.
Fiskurinn sem þeir félagar fengu var mikið í kringum fimmtíu til sextíu sentímetrar en líka gott hlutfall af birtingi sem var á bilinu 74 og upp í 85 sentímetrar.
„Við vorum að fá þetta á allskonar. Best var að virka fyrir mig hvítt og silfur. Dímon var að gefa mér vel. Já ég hugsa að ég hafi fengið mest á hana. Svo voru menn að fá á Dýrbít og ýmislegt. Það var fiskur úti um allt. Við höfum veitt þarna í mörg ár og oft hefur fiskurinn verið á þremur til fjórum stöðum. Núna var hann úti um allt. Efst upp frá og niður úr öllu.“ upplýsti Páll.
Aðstæður voru eins góðar og hægt er að hugsa sér. Þeir fengu milt veður og skýjað. Oft hefur frost bitið á þessum tíma og snjór verið mikill. „Það var svo sannarlega vor í lofti fyrir austan,“ sagði Páll að lokum.
Veitt er á fimm stangir í Vatnamótunum
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |