Lax sem veiddist í Selá í fyrra var nánast skorinn í sundur, eftir að hafa, að því er virðist synt inn í plasthring sem seiði. Hringurinn sat fastur við bakuggann og eftir því sem laxinn stækkaði þrengdi hringurinn meira og meira að honum. Að endingu hafði hringurinn skorist svo langt inn í holdið að svöðusár myndaðist á fiskinum. Þessi lax var veiddur í Langhyl í Selá, sem er næst neðsti veiðistaðurinn í ánni. Hann var nýgenginn úr sjó og ákvað leiðsögumaðurinn sem var Stefán Hrafnsson að leyfa laxinum að njóta vafans og var honum sleppt. Viðurkennir Stefán í samtali við Sporðaköst að hann hafi haft miklar efasemdir um að laxinn myndi lifa af. Stefán klippti plasthringinn af laxinum. Er greinilega um að ræða innsiglishring á einhvers konar olíubrúsa. Að lokum merkti hann laxinn með grænu slöngumerki. Bara ef svo kynni að fara að hann lifði.
Leið og beið og sumarið kláraðist og haustið var tekið við. Klakveiði í Selá er býsna umfangsmikil. Sækja þarf töluvert mikið magn af fiski vegna þeirra aðgerða sem ráðist er í til að stækka búsvæði. Hrogn eru grafin í hliðarlækjum þar sem laxinn hefur ekki hrygnt og einnig eru fluttir lifandi laxar langt upp með vatnakerfinu. Nokkrum af þessum löxum hefur meðal annars verið sleppt í Hrútá sem er ein af hliðarám Selár og erum við þá komin mjög langt frá sjó.
Jón Hugó Bender, leiðsögumaður var að veiða í klak þann 10. september. Hann var staddur á Bryggjum sem er veiðistaður nokkuð fyrir ofan Selárfoss. Hugó setti í fínan fisk sem barðist kröftuglega. Hugó náði honum í háfinn og þá blasti við honum áhugaverð sjón. Lax með gróið ör um sig miðjan. Hugó hafði séð myndbandið hjá Stefáni og áttaði sig strax á því að þetta var hinn stórskaddaði lax sem hafði veiðst í Langhyl í júlí. Græna slöngumerkið tók svo af allan vafa. „Mér fannst þetta alveg magnað. Ég ákvað að þessi fiskur færi ekki í kistu. Hann fengi frelsi eftir að hafa lifað þessar hremmingar af. Þetta var bara vinur. Þannig að hann fór aftur út í,“ sagði Hugó í samtali við Sporðaköst. Hér að neðan er myndband þar sem Hugó landar laxinum.
Þessi fiskur hefur án efa tekið tekið þátt í hrygningu enda var hraustur og ekki að sjá að þetta mikla svöðusár sem hann hafði fengið væri að há honum nokkuð. „Ótrúlegt að dýrið lifði af,“ sagði Hugó þegar hann fór yfir þessa sögu með Stefáni í samtali við Sporðaköst. Þessi lax fékk að njóta vafans og kannski geymdi hann dýrmætt erfðaefni sem mun áfram nýtast Selá og komandi kynslóðum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |