Það er rólegt yfir sjóbirtingsveiðinni ef marka má tölur úr þeim lykilám sem Sporðaköst fylgjast með. Sólskinið er vissulega ekki að hjálpa og sjaldnast eiga veiðimenn samleið með meginþorra þjóðarinnar þegar kemur að veðri. Ýmislegt bendir til þess að birtingurinn sé snemma í niðurgöngunni.
Tungulækur hefur gefið langbestu veiðina eins og alla jafna. Samt er lækurinn mikill eftirbátur síðasta árs. Nú er búið að landa 458 sjóbirtingum en á sama tíma í fyrra voru þeir 586. Vissulega var árið í fyrra það allra besta sem menn hafa séð þar lengi. Allt árið 2024 veiddust 1.136 sjóbirtingar í Tungulæk sem er algert metár miðað við síðustu ár. Þess þá heldur hefðu menn átt von á áframhaldandi moki nú á vordögum. En þá komum við að stóru spurningunni hvort birtingurinn hafi verið snemma á ferðinni til sjávar þetta árið. Sama gæti verið uppi á teningnum í Eldvatni í Meðallandi. Veiðin þar í apríl er um 25% niður frá því sem var á sama tíma í fyrra. 61 birtingi hefur verið landað þar en voru komnir 85 á land á sama tíma í fyrra og 115 á sama tíma árið 2023. Miðað við veiðibók hefur besta veiðin verið neðarlega í Eldvatninu og það styður þá hugsun að milt vor, eða síðari hluti vetrar flýti fyrir honum og birtingurinn haldi fyrr niður. Hins vegar er líka spurning hvort veiðin eigi eftir að glæðast á nýjan leik þegar alvöru vor heldur innreið sína. Áhugavert að hugsa til þess að í gær veiddist sjóbirtingur í Fossi og er það einn allra efsti veiðistaður Eldvatnsins.
Svo er það Tungufljót. Þar hefur veiðin verið heldur betri en í fyrra og hafa veiðst þar 135 birtingar. Það er um tíu prósent aukning frá því á sama tíma í fyrra. Svipuð staða er uppi í Tungufljótinu og Eldvatni. Allra sterkustu staðirnir eru Syðri Hólmi og Flögubakki og er þeir jafnframt með allra neðstu stöðum.
Húseyjarkvíslin er á svipuðu róli og Tungufljótið. Hefur gefið aðeins betri veiði en í fyrra. Er í dag í 141 birtingi en var á sama tíma í fyrra með 125.
Allar árnar hér að ofan voru á rólegu nótunum í gær. Þannig voru sex birtingar bókaðir í Tungulæk, tveir í Eldvatni, einn á þriðjudag í Tungfljóti og þrír á þriðjudag í Húseyjarkvísl.
Þá er ljóst að kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í mörgum þessara áa. Það komu ár, eins og 2022 þar sem hreint út sagt ótrúlegur fjöldi sjóbirtinga yfir níutíu sentímetra veiddist. Það haust var svo toppað með 107 sentímetra tröllinu sem Stefán P. Jones veiddi í Búrhyl í Tungufljóti. Það var þriðji birtingurinn það haustið í fljótinu sem náði hundrað sentímetrum. Birtingurinn í ár er minni og það gæti orðið nokkuð í annað sambærilegt ár og 2022. Hins vegar mun það koma aftur. Nánast allar sjóbirtingsár eru með veiða og sleppa og þessir fiskar verða fjörgamlir og líka um leið mjög stórir.
Forvitnilegt verður að sjá hvað páskahelgin gerir í þessum ám, því þær verða fullmannaðar kappsfullum veiðimönnum.
Athyglisvert er að kíkja á tölur í Litluá í Kelduhverfi. Í apríl hafa verið færðir til bókar þar 114 birtingar. Á sama tíma í fyrra voru þeir ekki nema 15. Hvað veldur er ekki gott að segja. En það er ljóst að sjóbirtingi er að fjölga þar mikið og er það í takt við ýmsar aðrar ár á landinu, eins og Eyjafjarðará, svo dæmi sé tekið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |