Draumafiskar geta verið svo mafgvíslegir. Oft eru það risafiskar eða sá stærsti sem viðkomandi veiðimaður hefur landað. Það getur líka verið ný tegund eða, eins og í þessu tilfelli, við sérstakar aðstæður. Helga Gísladóttir veiðikona og ein af kvennanefndarkonum SVFR veiddi draumafisk um helgina.
Hann var ekki risavaxinn en virkilega flottur fimmtíu sentímetra urriði. Það voru hins vegar aðstæðurnar sem lyftu þessum fiski upp fyrir meðallagið og það hressilega. Helga var í góðum veiðihópi að heimsækja Minnivallalæk í fyrsta skipti. Aðstæður voru gluggaveður. Sól og bjart en svo þegar út var komið, frekar hvasst og kalt.
Helga var meðal annars vopnuð stöng sem hún hafði smíðað sjálf undir dyggri handleiðslu Júlíusar Guðmundssonar, sem kennir slíka smíð. Stöngin hafði þegar sannað sig en ekki skilað fiski. Að þessu sinni var undir púpa sem Helga hannaði sjálf og kallast Moonshine sem gæti útlagst sem landi eða heimabrugg. Flugan á ekkert skylt við sjónvarpsþáttinn Landann.
Helga hafði aflað sér allra mögulegra upplýsinga hjá reyndum lækjarmönnum. Öllum bar saman um það að Stöðvarhylur væri besta veðmálið. Með heimasmíðuðu púpuna og stöngina var haldið í hylinn. Fyrst reyndi hún Moonshine en án árangurs. Fleiri púpur fóru undir en áhuginn var lítill. Eiginlega bara enginn. Aftur fór Moonshine undir, annað afbrigði og að þessu sinni stoppaði línan allt í einu. Viðbragð. Urriði hafði tekið púpuna og var ekki sáttur. Óð um allan hyl eins og urriða er siður þegar svona stendur á. Helga landaði þessum fiski og mældi. Sléttir fimmtíu. „Já. Veistu þetta var alveg svona draumafiskur. Fyrsti á stöngina sem ég smíðaði og tók flugu sem ég hannaði og í fyrsta skipti í þessari á. Ég setti í annan fisk en missti hann. Svo öskraði á tvo aðra sem voru á ferðinni. En þetta voru erfiðar aðstæður og sérstaklega þegar hvessti á okkur. En ég var mjög hrifin af Minnivallalæk og á örugglega eftir að fara þarna aftur,“ upplýsti Helga í samtali við Sporðaköst.
Moonshine hefur vissulega gefið fiska áður, bæði urriða í Laxárdal og bleikjur í veiðivötnum en þetta var sá fyrsti sem kom á land á stöngina.
Frekar róleg veiði hefur verið í Minnivallalæk í apríl. 21 urriði er færður til bókar og ein bleikja. Enginn regnbogi hefur veiðst í ár. Eins og svo oft áður er Stöðvarhylurinn sá staður sem hefur gefið flesta fiska eða níu samtals.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |