Nú er lag í Elliðavatni. Toppflugan er að klekjast út og mun það ástand vara næstu daga og jafnvel vikur. Hrafn Ágústsson annar af Caddisbræðrum var við veiðar í vatninu í gær, á sjálfan plokkdaginn og veiddi á flugu sem hnýtt var úr rusli.
Ef þú ert einn af þeim veiðimönnum sem átt erfitt með að fá fisk í Elliðavatni, eins og er með ritstjóra Sporðakasta þá er nú lag. Hrafn Ágústsson landaði níu urriðum í gær og öllum á þurrflugu. Hann var með litla cdc Shipman buzzer undir. „Já. Næstu dagar gætu orðið góðir. Toppflugan er að klekjast og urriðinn er að éta hana. En þetta er klikkuð þolinmæði,“ sagði sérfræðingurinn Hrafn Ágústsson þegar Sporðaköst leituðu til hans.
„Langur taumur og frammjókkandi. Svona 4 til 5 pund næst flugunni,“ upplýsir Hrafn. Hann segir það betra að aðeins sé gára á vatninu. Svo er að komast í tæri við vakandi fisk. Þegar hann er að vaka er hann nefnilega að taka toppfluguna rétt undir eða í yfirborðinu.
„Ef maður er í yfirborðsveiði þá þarf að bíða eftir klaki og síðan að finna stað þar sem golan hjálpar til við að skila flugunni í stemminguna og bara bíða og stara,“ segir Hrafn. Spurður um tímasetningar dags þá horfir hann mest til klukkan 10 til 12 fyrir hádegi og svo aftur seinnipartinn milli klukkan 16 og 18. Auðvitað er þetta ekki undantekningalaust og fer væntanlega eftir hvernig dagurinn þróast. Bæði hitastig og vindur.
Í gær var plokkdagurinn þar sem margir keppast við að tína upp rusl eftir veturinn. Hrafn er kominn skrefi lengra. Hann hnýtti buzzerana sem sjást á myndinni úr rusli að hluta. Bæði búkur og stél eru úr plastpokaræmu. Notar smá brúnt túss og cdc fjöður.
Hér er komin uppskrift sem vert er að reyna við í Elliðavatninu einhvern næstu daga þegar skilyrði eru rétt. Mikilvægt að muna að þetta er mikil þolinmæði. Hrafn landaði sjálfur níu urriðum í gær í vatninu, eins og fyrr segir og það var með þeim hætti sem lýst er hér að ofan.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |