Það er víða búið að vera gaman hjá silungsveiðimönnum í ám og vötnum á síðustu dögum. Hlýindin og birtan kveikja á lífinu. Skordýrin fara á stjá og þá aukast líkur á fiski og svo er það veiðimaðurinn sem er kominn á fullt.
Veiðimenn sem hafa verið í sambandi við Sporðaköst hafa sagt frá veiði og ævintýrum í kringum þau. Er engu líkara en að þau ævintýri komi á færibandi þessa síðustu daga. Þeir Víkingur Manúel Elíasson og Páll Gísli Jónsson gerðu góða ferð í það vanmetna veiðivatn Laugarvatn um helgina. Þeir settu í nokkra urriða, bæði á maðk og flugu. „Þetta var þræl skemmtilegt. Aðeins kalt en það fylgir þessum árstíma. Vanalega hef ég verið að veiða bleikju þarna en núna var urriði á svæðinu. Við lönduðum tveimur og þetta voru flottir urriðar,“ sagði Páll í samtali við Sporðaköst. Hann er einn af þessum sem er með ódrepandi veiðidellu. Er það ekki? „Jú. Það er víst. Við fórum eitt árið í Laugarvatnið í febrúar og vorum þá að kasta flugu á ísinn og draga hana fram af skörinni. Við vorum að nota Langskegg og þær negldu þetta um leið og Langskeggurinn datt út í. Við fengum á stuttum tíma einhverjar tíu bleikjur,“ hlær hann.
Hólaá sem rennur í Laugarvatn er ein af þessum silungsperlum sem frábært er að skreppa í dagstund eða hálfa. Hún Unnur Guðný María Gunnarsdóttir, leiðsögumaður er þegar búin að taka nokkra daga þar í vor. „Kuldaboli var á svæðinu en það er mökkur af fiski í Hólaánni. Svo var gaman að sjá að bleikjan er komin þó að urriðinn sé enn í miklu magni. Æ. Það er svo gaman að vertíðin sé byrjuð,“ sagði þessi öflugi leiðsögumaður.
Sjálf hefur hún komist að veiða í vor og lenti í algeru ævintýri. „Bara moki,“ lýsir hún. Árni Kristinn Skúlason var með henni og það var flugan Góðar stundir sem stóð svo sannarlega undir nafni. Áfram var kalt en þegar veiðist þá á kuldaboli ekki roð í veiðimanninn. Villingavatnið hefur líka verið að gefa og þar var Unnur með ánægða og þakkláta veiðimenn sem lönduðu sumir sínum fyrstu fiskum á Íslandi.
Enn eitt ævintýrið smíðuðu þau saman veiðiparið Anna Lea Friðriksdóttir og Hafsteinn Már Sigurðsson. Vettvangurinn var Villingavatn og fallegir urriðar sem Anna Lea hélt betur en Hafsteinn Már. Hún landaði tveimur eðal eintökum og mátti heyra á myndbroti sem Hafsteinn deildi á samfélagsmiðlum að hann átti fullt í fangi með háfinn og stöðug hlaup til veiðifélagans að háfa. En þessir fiskar voru vandlátir. „Veðrið var heldur hryssingslegt. Blautt og hvasst og talsverður öldugangur á vatninu og pusaðist upp með bökkunum.
Við ákváðum því að hafa straumflugur undir og prófuðum ýmislegt en það eina sem hann leit við þennan dag var flugan Hot Head Blue Flash Damsel. Ég fékk báða urriðana á hana en ekkert líf á aðrar flugur. Við fengum fleiri tökur á hana og tog. Haffi missti svo einn í lokin sem var vænn. Við sáum hann vel þegar hann hreinsaði sig alveg upp úr. Það var einmitt á þessa flugu,“ sagði Anna Lea í samtali við Sporðaköst.
Framundan er skemmtilegasti tími ársins í vatnaveiðinni. Þegar allt er að kvikna og margir veiðimenn reyna að líkja eftir klaki skordýra sem nú er á mikilli ferð. Svo eru straumflugurnar einmitt oft gott ráð þegar er vindur og lítið um flugu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |