Þurrflugan er farin að virka og leiðsögumenn í veiði eru að skríða úr vetrardvalanum Þannig er fyrrum flugfreyjan Unnur Guðný María Gunnarsdóttir löngu búin að taka fram vöðlurnar. Hún átti góða daga með heiðursmönnum frá Bandaríkjunum við Villingavatn um helgina. Þeir félagar Ken og Darrell nutu leiðsagnar Unnar og skemmtu sér konunglega. Raunar öll þrjú segir Unnur Vorið er fyrr á ferðinni í ár en oft áður. Þetta sá Unnur svo glögglega í vikulok.
„Fyrsti fiskurinn á þurrflugu tók hjá veiðimanni sem ég var að leiðsegja á Þingvöllum á föstudag. Félagarnir Darrell og Ken komu hingað frá Bandaríkjunum til að freista þess að ná í ísaldarurriða. Þeir voru við veiðar með mér á Þingvöllum í tvo daga en halda svo í Vatnamót í sjóbirting,“ upplýsir Unnur. Hún heldur áfram frásögninni.
„Fyrri daginn hafi Ken fengið þrjá fiska á straumflugu en misst einn stóran sem stökk og losaði sig. Við vildum því reyna aftur við vatnið á föstudag.
Morguninn hafði verið rólegur en þegar við snérum til baka úr hádegismat hafði hitastigið hækkað upp í níu gráður og viti menn, fluga á yfirborðinu og vatnið iðaði. Þrátt fyrir rokið mátti vel sjá þetta.
Við vorum að veiða með dry dropper en „sú digra“ var sá fyrsti sem lét vaða í þurrfluguna sem var Black Gnat númer 12. Við fengum svo fleiri fiska en þeir tóku dropperinn.
Þetta var bara eitt af þessum augnablikum sem maður gleymir aldrei þegar kjafturinn kemur og rífur í þurrfluguna og ríkur í burtu. Ég er ennþá með hjartslátt! Þessi hrygna sem mældist 72 sentímetrar var svakalega sterk og spólaði út nokkrum sinnum út af veiðihjólinu hjá Darrell. Ég var að fá hjartaáfall við að háfa hrygnuna, því ennþá var góður kraftur í fisknum en þetta var bara svo lítil fluga að allt getur auðvitað gerst í slíkum eltingaleik.“
Það var hörð keppni á milli þeirra félaga enda verið saman í sportinu mjög lengi. „En leikar enduðu fimm á hvorn veiðimann en keppnisskapið og óvæginn húmor svo ekki sé meira sagt þeirra á milli sem létu hvorn annan hafa það óþvegið skapaði brjálæðislega fyndna stemningu þessa tvo daga, ég er eiginlega ennþá að hlæja og spennandi verður að sjá hvernig þeim gengur í birtingum.“
Þeir hafa veitt saman um allan heim og fara nokkrar ferðir á ári. Það var mikil spenna að koma til Íslands og var stór áfangi hjá þeim að koma Íslandi á kortið.
„Þeir mæta aftur, ég er viss.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |