Vatnshæð í Blöndulóni er að nálgast yfirfall. Einungis vantar nokkra sentímetra upp á að lónið nái yfirfallshæð, sem er 478 metrar yfir sjávarmáli. Í gær var vatnsstaðan 477,64 metrar yfir sjávarmáli. „Þetta gerðist síðast árin 2003 og 2004, að lónið fylltist svona snemma,“ upplýsti Jónas Þór Sigurgeirsson, stöðvarstjóri Blöndustöðvar í samtali við Sporðaköst.
Allt að 200m3/sek. innstreymi hefur verið í lónið síðustu daga. Í gegnum Blöndustöð eru að fara um 60m3/sek. á dag í fullri keyrslu. Vatnsveður í síðustu viku leiddi til þess að mikil hækkun varð á yfirborði lónsins. Frá 1. maí hefur hækkað í lóninu um rúman meter. Ef fer fram sem horfir getur yfirfall brostið á fljótlega. Þeir sem mestar áhyggjur hafa af þessari stöðu eru veiðimenn sem stefna á lax eða silungsveiði í Blöndu, sem liðast um Langadal og á ós í Blönduósi. Silungsveiði er hafin og laxveiðin hefst í byrjun júní.
Jónas Þór stöðvarstjóri bendir á að í tvígang í vetur kynni að hafa skapast neyðarástand vegna vatnavaxta á svæðinu ef Blanda væri ekki virkjuð. „Tvisvar höfum við séð í vetur að gríðarlegt vatnsmagn á skömmum tíma hefði að öllum líkindum valdið neyðarástandi í Langadal. Það má segja að það sé lukka Langadals að Blanda var virkjuð, þegar við horfum til þessa. Þetta vill stundum gleymast í umræðunni,“ upplýsti Jónas Þór.
En að mörgu er að huga. Í lok maí hefst viðhaldsframkvæmd á einni af vélum Blöndustöðvar og dregur þá eitthvað úr því magni sem í gegnum virkjunina fer. Síðustu sumur hefur flæðið verið tæplega 40m3/sek. og nokkuð jafnt.
Veðurspá fyrir næstu viku er býsna góð og lítið um úrkomu í spánni, nánast engin. En þá taka við aðrir þættir eins og bráðnun á þeim snjó sem eftir er á hálendinu og ekki síður bráðnun jökla. Þegar horft er til yfirfalls, sem hefur í för með sér að Blanda verður illveiðanleg er ómögulegt að segja til um hver þróunin verður. Jónas Þór þekkir þó fordæmi í byrjun aldar þar sem þetta slapp til.
„Það má segja að þetta sé tuttugu ára viðburður því við eigum sögu um yfirfall að vori árið 2003 og 2004.
Yfirferð í gagnagrunni sýnir að 2003 fylltist lónið í byrjun maí, en fór aftur af yfirfalli og kom ekki aftur á yfirfall fyrr en í byrjun ágúst. Svipað gerðist 2004. Þá fylltist lónið í mars, fór aftur af yfirfalli og fylltist ekki fyrr en í byrjun ágúst. Svo það er nú möguleiki að Blöndulón sleppi við yfirfall í vor eða byrjun sumars en alveg ómögulegt að segja til um það. Gæti líka orðið svipað og fyrir rúmlega tuttugu árum. Yfirfall í smá tíma og síðan ekkert fyrr en síðla sumars, hvað veit maður?“ Spyr stöðvarstjórinn.
Þetta er enn eitt óvissuatriðið sem Blanda glímir við. Sala á laxveiðileyfum í þessa þekktu laxveiðiá hefur samkvæmt heimildum Sporðakasta ekki gengið sem skyldi. Þar spilar inn í að veiðin hefur verið léleg síðustu ár. En málið er nú í höndum veðurguðanna og það eina sem er vitað um þá er að þeir eru ólíkindatól.
Nýr aðili, Fish Partner er tekinn við Blöndu og annast sölu veiðileyfa. Þar er um að ræða svokallaðan umboðssölusamning en þá er áhætta leigutaka og landeigenda skipt. Prósenta af sölunni rennur til leigutaka. Í góðu ári hagnast báðir aðilar á slíku fyrirkomulagi en þegar illa árar kemur minna í hlut hvors aðila. Þetta fyrirkomulag hefur verið tekið upp í nokkrum ám undanfarin ár. Má þar nefna Norðurá í Borgarfirði, Ytri Rangá og svo auðvitað Blanda.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |