Afar harðorð ályktun var samþykkt á aðalfundi Landssambands veiðifélaga vegna sjókvíaeldis á laxi við Íslandsstrendur. Talað er um atlögu að íslenskri náttúru og hermdarverk á villtum laxastofni Íslands. Í ályktuninni setur Landssambandið fram áherslur í fjórum liðum þar sem krafist er að einungis verði heimillt að ala ófrjóan lax þar til slíkt eldi verði bannað með lögum.
Kallað er eftir friðun á fimm fjörðum fyrir sjókvíaeldi. Þá vill aðalfundurinn að eldisfyrirtæki verið gerð ábyrg fyrir því tjóni sem þau kunna að valda og vilja í því samhengi að félög í slíkum rekstri verði gert skylt að vera með umhverfistryggingar til að bæta slíkan skaða.
Loks vill fundurinn breyta samsetningu stjórnar Umhverfissjóðs fiskeldis og að stjórnin verði að meirihluta skipuð fulltrúum tilnefndum af Landssambandi veiðifélaga. Að sama skapi að úthlutanir sjóðsins verði meðal annars til að bæta tjón sem eldið hefur valdið á náttúrulegum laxastofni. Ályktunina í heild sinni má lesa neðst í fréttinni.
Jón Helgi Björnsson, formaður stjórnar LV, fór yfir starfið á árinu. Hann fjallaði um sjókvíaeldi og alla þá vinnu sem farið hefur í þann málaflokk síðastliðið ár. Í því samhengi nefndi Jón að mörg veiðifélög, einkum í nágrenni við eldið, þyrftu að huga að því að banna alfarið dráp á laxi til að styrkja stofna til að auka viðnám þeirra við innrás eldisfiska.
Þá fjallaði Jón sérstaklega um mikilvægi þess að veiðifélög leiði starf um verndun stofna og fari í hvívetna að lögum og reglum varðandi fiskrækt og fiskeldi.
Gengið var til kosninga um tvö stjórnarsæti. Fulltrúar Norðurlands og Suðurlands, Þorsteinn Baldur Helgason og Ólafur Þór Þórarinsson, gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Í stjórn voru kosnir Kristján Þorbjörnsson, formaður Veiðifélags Vatnsdalsár, og Ari Árnason frá Veiðifélagi Ytri-Rangár og vesturhluta Hólsár.
Ályktun LV um sjókvíaeldi má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Aðalfundur Landssambands veiðifélaga haldinn 26.-27. apríl 2025 fordæmir það hermdarverk sem unnið er á villtum laxastofni Íslands í skjóli stjórnvalda. Við lýsum ábyrgð á hendur stjórnvöldum fyrir alvarlega atlögu að íslenskri náttúru. Við krefjumst þess að náttúrulegir laxastofnar hafi forgang, séu verndaðir og hvergi sé gengið á rétt þeirra. Engar mótvægisaðgerðir eru til sem koma í veg fyrir skaðann af opnu sjókvíaeldi. Hvergi í heiminum hefur tekist að reka laxeldi í opnum sjókvíum án þess að stórskaða villta laxstofna. Því leggur fundurinn áherslu á eftirfarandi:
a) Í opnum sjókvíum verði aðeins heimilt að ala ófrjóan lax þar til opið sjókvíaeldi verði bannað með lögum.
b) Eyjafjörður, Öxarfjörður, Seyðisfjörður, Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík verði friðuð fyrir sjókvíaeldi.
c) Eldisfyrirtæki verði gerð ábyrg fyrir því tjóni sem þau valda og verði m.a. skylt að vera með umhverfistryggingar sem bæti þann skaða sem fiskeldi veldur.
d) Að stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis verði mönnuð að meirihluta með félögum tilnefndum af Landssambandi veiðifélaga og úthlutanir á hans vegum verði m.a. til að bæta fyrir þau inngrip sem sjókvíaeldi hefur valdið náttúrulegum laxastofnum á Íslandi.
Þá lýsir aðalfundur Landssambands veiðifélaga fullum stuðningi við baráttu Seyðfirðinga gegn laxeldi í firðinum.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |