Eftir mikið áfall þegar um sex hundruð þúsund kviðpokaseiði drápust í seiðaeldisstöð Veiðifélags Eystri Rangár, telur ný formaður félagsins að málum verði bjargað. Nýlega var undirritaður tíu ára samningur við núverandi leigutaka um veiðirétt í ánni og jafnframt tekur leigutaki yfir seiðaeldisstöðina að Eyjalandi og annast reksturinn.
Hörður Þórhallsson er nýr formaður Veiðifélags Eystri Rangár. Óhætt er að segja að hann taki við á umbrotatímum. Byrjum á seiðadauðanum. Er hægt að bæta slíkt áfall eftir á?
„Auðvitað var þetta mikill skaði fyrir okkur. En það drapst ekki allt og við erum í samtali við systurána okkur um að hlaupa undir bagga með okkur. Þannig að við teljum okkur komast í gegnum þetta,“ upplýsti Hörður í samtali við Sporðaköst.
Hann staðfestir töluna sex hundruð þúsund seiði og segir þetta mega rekja til „hræðilegra mannlegra mistaka“ en seiðin drápust í stöðinni þegar of heitu vatni var hleypt á þau. Hörður segir áætlanir í gangi um að bregðast við þessari stöðu og hann er vongóður um að það muni bjargast.
Peter Rippin sem er leigutaki Eystri Rangár sagði í samtali við Sporðaköst að vissulega hefði verið áfall að missa þetta stóran hluta árgangsins sem fyrirhugað var að sleppa næsta sumar sem gönguseiðum. Þau seiði eiga að vera uppistaðan í smálaxinum sumarið 2027. „Við misstum sem betur fer ekki allt og erum með töluvert magn af seiðum. Það er ekki nóg og við erum í viðræðum við Ytri Rangá. Vonandi gengur það upp en ef ekki þá munum við upplýsa okkar viðskiptavini um það. Ef við náum ekki að sleppa þeim fjölda sem við viljum á næsta ári þá munum við skoða stöðuna sumarið 2027. Ein hugmyndin er að fækka stöngum það sumar úr átján niður í átta eða tíu. En þetta er enn alger óvissa og framtíðartónlist. Við munum hins vegar bregðast við með þeim hætti að viðskiptavinir okkar viti að hverju þeir ganga og það er mikilvægast. Vonandi verðum við með nóg af seiðum og fulla á af fiski. Þetta hefur engin áhrif á sumarið í sumar eða það næsta. Auðvitað erum við líka í viðræðum við Matvælastofnun og pössum okkur mjög að vera á grænu ljósi þar með okkar áform,“ upplýsti Peter.
Orðrómur hefur verið um að Veiðifélagið hafi ekki sleppt því magni af seiðum sem um var samið og það hafi leitt til þess að leigutaki hafi haldið eftir hluta af leigugreiðslu. Er þetta rétt?
„Leigutaki hefur staðið við sitt og það höfum við líka gert. Leigusamningurinn kveður á um ákveðið magn sem okkur ber að sleppa árlega. Auðvitað getur það hlaupið á einhverjum prósentum plús mínus til eða frá. Þetta er aldrei nákvæmlega niður á seiði en við höfum uppfyllt samninginn. Vissulega höfum við verið að glíma við vandamál í stöðinni en þetta hefur tekist,“ segir Hörður. Peter Rippin staðfestir einnig að samningar hafi verið uppfylltir og að samstarfið hafi verið gott.
Nýr langtímasamningur hefur verið gerður um Eystri Rangá og var hann kynntur á aðalfundi veiðifélagsins. „Samningurinn var einróma samþykktur en hann felur það í sér að leigutakinn mun taka að sér rekstur Eyjalands, sem er okkar seiðaeldisstöð á samningstímanum. Við sömdum til tíu ára og það segir náttúrulega allt um samkomulagið milli okkar og leigutaka. Seiðaeldi er eins og hver annar rekstur og við í stjórn félagsins erum öll í öðrum störfum og þetta var orðið allt of mikið álag. Þá er betra að fá einhvern aðila sem getur sinnt þessu vel,“ sagði Hörður.
Er fólki þá ekki bara létt við þessa grundvallarbreytingu?
„Jú. Það má segja það og nákvæmlega út af því hversu mikil vinna þetta er. Eins og ég segi þetta er eins og hver annar rekstur. Það þarf að sinna starfsmannamálum og halda utan um starfsemina sem er tímafrekt.“
Rekstur Eyjalands verður samkvæmt nýjum samningi í umsjón Peters og félaga.
„Já. Við erum að fara vel yfir alla verkferla og ætlum að leggja okkur fram við að búa til sem best seiði. Við erum að vinna öll okkar áform í samráði við MAST. Við ætlum að bæta við rannsóknaraðstöðu og fá þar inn sérmenntaðan mann til að tryggja sem besta útkomu,“ upplýsir Peter.
Leigutaki Eystri Rangár er félagið East Ranga Sporting ehf og þar er Peter Rippin annar tveggja eigenda. Félagið sér einnig um sölu í Affallið og Þverá fyrir Veiðifélag Eystri Rangár. Peter er svo sjálfur með Breiðdalsá fyrir austan á leigu. Leiðréttist það hér með. Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að félagið East Rangá Sporting væri leigutaki þar.
Félagið Kolskeggur sér um sölu á veiðileyfum í Affallið og Þverá og sér einnig um sölu veiðileyfa í Eystri Rangá.
Eystri Rangá er laxveiðiá sem byggir alfarið á seiðasleppingum og hafa þau seiði verið alin í seiðaeldisstöðinni að Eyjalandi. Raunar hafði félagið fært út kvíarnar og var með eldi á fleiri stöðum, eins og í Borgarfirði og Matvælastofnun gerði nýlega athugasemdir við.
Eins og fyrr segir var tíu ára samningur við Peter Rippen samþykktur á aðalfundi. Hörður vill ekki gefa upp hver leigan er á samningstímanum. Hins vegar sagði hann, „Þetta er bæði hagstætt fyrir okkur, miðað við núverandi samninga og líka hagstætt fyrir leigutakann.“
Mun þessi samningur verða til þess að loksins verði greiddur út arður til landeigenda við Eystri Rangá?
„Já og það er frábær niðurstaða. Við vorum að fara yfir þetta í veiðifélaginu og ég held að það hafi gerst einu sinni á síðustu tíu árum að það hafi verið greiddur út arður.“ Hörður segir að þegar núverandi stjórn tók við rekstri félagsins hafi skelfileg fjárhagsleg staða blasað við og hann viðurkennir að stjórn hafi velt fyrir sér að óska eftir gjaldþrotaskiptum félagsins. Nú sé staðan önnur og mun betri. Veiðifélagið sé í dag með gott eigið fé og eiginfjárhlutfall. „Skuldir orðnar viðráðanlegar og við orðin fjárhagslega öflug.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |