Veiðistríðið um veiðisvæðið Iðuna, eins og veiðisvæðið er kallað heldur áfram. Iðumenn hafa selt veiðileyfi á svæðið í sumar en Stóru–Laxármenn hafa lýst því yfir að svæðið verði hluti af veiðisvæði Stóru-Laxár í sumar. Iðan er svæðið þar sem Stóra Laxá mætir Hvítá. Þar hefur um árabil verið veitt á þrjár stangir.
Nú liggur fyrir krafa Stóru Laxárdeildar sem er undir regnhlífinni Veiðifélag Árnesinga, um nýtt ósamat. Það mál er fyrir matsnefnd sem kveðið er á um í lögum um lax– og silungsveiði í lögum númer 61/2006. Í október í fyrra óskaði Stóru–Laxárdeildin og Finnur B. Harðarson, landeigandi að Ásbrekku við Stóru–Laxá að nefndin tæki fyrir beiðni um ósaafmörkun Stóru–Laxár í Hreppum gagnvart Hvítá.
Fyrirtaka í málinu var hjá matsnefndinni 21. janúar og svo aftur í mars. Á fundina voru boðaðir allir þeir sem gætu átt hagsmuna að gæta. Kom fram hjá Iðumönnum að þeir töldu að Finnur og Stóru–Laxárdeildin gætu ekki verið aðilar málsins og var það byggt á samningi um veiðina á Iðu, frá 1978.
Á miðvikudag hittist svo nefndin á nýjan leik til að úrskurða um aðildarhæfi. Var úrskurður nefndarinn á þann veg að jörðin Ásbrekka ætti ekki sjálfstæða aðild að málinu. Hins vegar var viðurkennd aðild Stóru–Laxárdeildarinnar til að óska eftir ósamati. Ekki var því fallist á kröfu Iðumanna um að vísa málinu frá.
Eftir því sem næst verður komist er vettvangsferð nefndarmanna til að skoða svæðið þar sem Hvítá tekur á móti Stóru–Laxá fyrirhuguð í dag. Finnur B. Harðarson landeigandi að Ásbrekku er jafnframt leigutaki Stóru–Laxár. Finnur fagnar niðurstöðuinn um aðildarhæfi, sem er reifuð hér að ofan, á facebook síðu sinni í gær og birtir þar úrskurðinn í heild sinni. Finnur skrifar: „Fórum með málið áfram með belti og axlabönd, axlaböndin dugðu. Stóra Laxá er aðildarhæf og Iða hluti af ósnum okkar, nú er bara að sjá hversu langt ósinn nær niður fyrir brú, enda ferskvatn greinilegt þar og þar lágu netalagnirnar hérna áður fyrr, á gamla ferjustaðnum fyrir neðan brú.“ Finnar vitnar því næst til fordæma um ósamat, annars vegar varðandi ós Tungufljóts við Hvítá og nýlegs mats um Eyjafjarðará, þar sem hún fellur til sjávar.
Deilur um veiðina á Iðusvæðinu hafa staðið í nokkur ár og stigmagnast. Hefur þetta gengið svo langt að margir hafa óttast að til átaka kæmi. Finnur leigutaki hefur sótt málið hart og sviðið að horfa upp á laxa veidda og drepna á Iðusvæðinu. Laxar sem hann vill meina að bíði þess að ganga upp í Stóru–Laxá. Hafa veiðimenn og landeigendur við Iðu læst hliði á vegarslóða að veiðisvæðinu með lásum og keðju en Finnur hefur jafn harðan mætt með slípirokk og önnur þau tæki sem hafa dugað til að vinna á keðjum og lásum. Teljast þau atvik nú orðið í tugum. Þannig hefur hann í vor sagað og klippt sjö lása.
Lögregla hefur verið kölluð til í þó nokkur skipti síðustu ár vegna þessara deilna. Ekki hefur þó komið til sakfellinga í málum af þessum toga, ekki í það minnsta svo Sporðaköst hafi frétt af því.
Væntanlega mun matsnefnd um ósasvæðið skila af sér úrskurði fyrir veiðitímabilið sem hefst síðari hluta júní mánaðar.
Veiðileyfi á Iðunni hafa verið eftirsótt. Leyfi hafa verið seld fyrir þetta tímabil. Sporðaköst vita líka til þess að veiðimenn hafa í einhverjum tilvikum verið hikandi við að kaupa leyfin og jafnvel hætt við vegna óvissunnar. Finnur leigutaki hefur lýst því yfir að Iðusvæðið verði hluti af veiðinni á neðra svæði í Stóru–Laxár í sumar. Hefur kallað það frísvæði, sem mun fylgja neðra svæðinu.
Veiðimaður sem stundað hefur Iðuna og Sporðaköst ræddu við um málið taldi réttast að áhugamenn um veiði myndu birgja sig upp af poppi upp úr 20. júní þegar draga mun til tíðinda. Hvorugur aðili virðist ætla að gefa eftir og þarna munu mætast stálin stinn. Ja, nema nýtt ósamat breyti leiknum. Þessa úrskurðar er beðið í ofvæni.
Finnur B. Harðarson, leigutaki að Stóru–Laxá sendi Sporðaköstum athugasemd vegna fréttarinnar hér að ofan. Hún hljóðar svo. „Skipulagsyfirvöld hafa staðfest að vegurinn að Iðu er ekki einkavegur og það er ólöglegt að læsa honum, hef svo sem fjallað um það áður. Enda er þetta eini vegurinn að sameiginlegum ós okkar og Iða 1 og 2 í okkar veiðifélagi, staðfest af nýlegum úrskurði nefndar um lax- og silungsveiði. En Iðufólkið kallar það ofbeldi að við vitjum óssins okkar,„ skrifar Finnur. Þessu til viðbótar vitnar hann í Vegalög frá árinu 2007.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |