Fyrsti laxinn í Vatnsdalsá sást í Hólakvörn í gær. Björn K. Rúnarsson leigutaki var á útkíkki og sá fisk mættan á þennan dæmigerða vorstað. „Að sjá lax hér í maí er stórkostlegt,“ sagði Björn í samtali við Sporðaköst.
Björn fór aftur á útkíkk í dag. Vindur var á Hólakvörn svo þar var ekki hægt að skyggna. Álkan var vatnsmikil, en þar má oft sjá laxa snemma. Fyrir rælni skellti hann sér upp í Stekkjarfoss og eftir að hafa rýnt lengi ofan í hylinn og skoðað þrjá fiska sem hann var ekki sannfærður um að væru laxar, kom skyndilega einn silfurbjartur upp úr dýpinu. „Ég hef aldrei verið að kíkja eftir laxi svona snemma en þetta er alveg magnað. Þær fréttir sem maður er að heyra benda til þess að tveggja ára fiskurinn verði sterkur eins og margir hafa verið að búast við.“
Þetta vor virðist vera að fara í sögubækurnar, þegar kemur að snemmgengnum laxi. Þannig er myndbandið sem fylgir fréttinni úr laxateljaranum í Ytri Rangá. Þar má sjá 75 sentímetra hrygnu láta sig vaða í gegn, en teljarinn er í Ægisíðufossi. Stefán Sigurðsson einn af umsjónarmönnum Ytri segir þetta mjög snemmt. „Það er ennþá maí,“ sagði Stefán. Raunar eru þetta síðustu klukkutímarnir sem hægt er að segja það. En þetta er mögnuð staða.
Þegar Sporðaköst voru að skrifa þessa frétt gekk annar lax í gegnum teljarann í Ægisíðufossi. Skaust inn í hann með látum og eftir stutta stund var hann horfinn. Mælingin á honum var 78 sentímetrar. Sá silfraði er að flýta sér eins og við sögðum um daginn.
Þannig virðist laxinn mættur í Elliðaárnar og hafa fiskar sést í fossinum og Ásgeir Heiðar sá þrjá fallega 8 til 10 punda fiska á Neðri–Breiðu. „Náðu ekki að „sanna“ sig sem laxar. Gætu verið vænir birtingar...“ skrifaði Ásgeir á facebook. Það eru nokkrir sem tjá sig undir færslu Ásgeirs og tveir segjast hafa séð laxa í fossinum. Annar í gær og hinn í dag. Þannig að líkast til er hann mættur þar eins og svo víða.
Þeir árnefndarmenn í Sandá sem sáu lax á Fossbrotinu þar sendu mynd í dag sem tekin er í gegnum polaroidgleraugu og þar má sjá þennan fallega Sandárfisk.
Veiðitímabilið hefst svo formlega í fyrramálið þegar Urriðafoss opnar. Sporðaköst verða þar og fylgjast með framgöngu mála. Svo er stór dagur á miðvikudaginn þegar Norðurá opnar. Þar er búið að sjá töluvert af fiski og verður forvitnilegt að sjá hvernig perlan í Borgarfirði opnar. Daginn eftir er komið að Blöndu að opna og það er ekki síður forvitnilegt. Bændur þar eru bjartsýnir, eins og komið hefur fram hér á Sporðaköstum. Blöndulón er hins vegar fullt og ríflega það, sem sé komin á yfirfall. Það getur svo vel verið að liturinn á henni sé í lagi og menn geri veiði. Sjáum hvað setur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |