Óhætt er að segja að opnunardagurinn í Norðurá skilaði fínni niðurstöðu. Sautján laxar komu á land og nokkrir misstust. Þetta er tveimur löxum færra en í opnuninni í fyrra. „Þetta var geggjaður dagur og ekki síst í ljósi aðstæðna. Ég er ekki viss um að menn hafi átt von á því að landa sautján löxum þegar þeir litu út um gluggann í morgun. Hífandi rok og skítakuldi,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson rekstraraðili Norðurár í samtali við Sporðaköst í lok dags.
Norðurá var ekki nema í tíu rúmmetrum og hitatölur voru ekki upp á marga fiska. Lofthiti á miðnætti í gær fór niður í frostmarka og var í kringum fjórar gráður þegar menn gerðu sig klára eftir morgunmat. Vatnshiti var í kringum fimm til sex gráður.
Fyrri vaktin gaf níu laxa og eftir hádegi komu svo átta á land. Eyrin var langsterkasti veiðistaðurinn og gaf ellefu laxa. Þar ræður mestu vatnsmagn og hvaða leið laxinn velur til göngu.
Einungis tveir laxar voru með lús en opnunarhollið að þessu sinni lendir á milli strauma. Áhugavert verður að sjá hvað gerist þegar hlýnar og næsti straumur nálgast. Sett var í tvo „nagla“ í dag. Fiskar sem ekki náðust á land en voru gríðar sterkir. Það er alltaf spennandi að vita af slíkum fiskum og ekki síður spennandi að mæla þá.
„Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig næsta vika verður. Vissulega sterk opnun og mikið af þessum löxum í dag var að taka smáflugur og hitchið var líka að gefa. Maður tók líka eftir því að þessir fiskar eru vel haldnir og það veit á gott. Ég ætla alveg að leyfa mér að vera bjartsýnn á framhaldið. Aðstæður í dag voru alveg hrikalega erfiðar. Þetta byrjaði á því þegar við vorum að keyra upp að Glitstaðabrú að stangirnar fuku af bílnum. Ég hef aldrei séð það gerast og við erum stangahaldara sem eru segull og þetta á ekki að hreyfast. Svo var maður orðinn svo loppinn á höndunum nú undir kvöld að ég hefði ekki getað skipt um flugu í restina,“ hló Rabbi.
Stærsti laxinn í dag mældist 86 sentímetrar og kom hann á Eyrinni.
Á morgun er svo virkilega spennandi opnun þegar Blanda tekur á móti á fyrstu veiðimönnunum. Í þeim hópi er Árni Baldursson sem þekkir Blöndu betur en flestir.
Straumarnir og Brennan opna líka á morgun og það er ekki síður spennandi að fá fréttir af þessum neðstu svæðum Þverár og Norðurár. Raunar kom fyrsti lax sumarsins úr Skugga í lok síðasta mánaðar. Skuggi er svæðið þar sem Grímsá mætir Hvítá. Sporðaköst munu fylgjast með framgangi mála á öllum þessum svæðum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |