Þeir Blöndubræður, Árni Baldursson og Reynir Sigmundsson lönduðu tveimur löxum í morgun í Blöndu. Þetta telst til tíðinda því að opnanir síðustu tvö ár hafa ekki skilað laxi.
Reynir landaði 92 sentímetra hrygnu í morgun á Breiðu suður. Þegar langt var liðið á vaktina fór Árni Baldursson upp í veiðihús og pakkaði saman farangri til að geta ekið beint í bæinn. „Þegar ég kom aftur að Blöndu var enginn á Breiðunni að norðanverðu. Klukkan var hálf eitt og ég hljóp niður stigann. Sá allt í einu að það var kominn hettumávur á ánna. Fyrst tveir og svo voru þeir allt í einu orðnir sex. Ég tengi alltaf saman fugla og fiska. Ég óð út í með German Snælduna mína. Þetta hefur verið svona í fimmta kasti. Þá tók hann með látum,“ greindi Árni frá aðspurður um hvernig þetta hefði viljað til.
„Það er langt síðan að ég hef séð svona glampa í augunum á honum eins og eftir þetta,“ hló Reynir í spjalli við Sporðaköst. Hann segist hafa reynt að tala við Árna þegar hann var að fikra sig í land með fiskinn á en hann hafi verið nánast stjarfur af stressi og spenningi. Það er mikil guðsgjöf fyrir mann á sjötugsaldri sem hefur landað um tuttugu þúsund löxum að verða enn stjarfur af spenningi þegar hann setur í fisk.
Eftir snarpa og spennandi viðureign háfaði Reynir 86 sentímetra hnausþykka hrygnu sem ekki hafði staðist German Snælduna. Deginum var bjargað fyrir afa, eins og Árni Baldursson kallar sig til hátíðabrigða. Hrygnunni var sleppt enda geymir hún næstu kynslóð og þessi stærð hrygna er sú dýrmætasta þegar horft er til hrygningar.
„Þú ferð ekki út í,“ kallaði afi á Reynir. „Ég ætla að taka annan,“ sagði hann og óð út í, enda stutt í vaktarlok. Þegar Árni var kominn vel út í og upp í klof byrjaði hann að úffa. „Vöðlurnar mígleka,“ og hann sneri sér til lands. Þá kom í ljós að hann hafði gleymt að renna upp rennilásnum í óðagotinu og vöðlurnar voru fullar af vatni. Klukkan var orðin eitt og opnunarhollinu í Blöndu þar með lokið.
Það er mjög jákvætt að Blanda gaf nú laxa í opnun. Eins og segir að ofan náðist ekki lax í opnun síðustu tvö ár. Margir hafa haft áhyggjur af Blöndu og veiði þar í fyrra var með minnsta móti. Þessir tveir fiskar gefa góð fyrirheit og það ekki bara fyrir Blöndu. Heldur einnig fyrir Norðvesturlandið í heild sinni. Fyrst hann er mættur í Blöndu er hann kominn víðar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
100 cm | Miðfjarðará | Christopher Hill | 19. júlí 19.7. |
100 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 15. júlí 15.7. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 7. júlí 7.7. |
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |