Það eru nýir tímar í Noregi þegar kemur að laxveiði. Veiða og sleppa er í flestum ám orðið skilyrði. Margir innfæddir veiðimenn eru ósáttir. Hilmar Hansson og Haugurinn veiddu „nýjan Noreg“ og gerðu góða ferð.
Síðasta ár var það lélegasta í sögu laxveiða í Noregi. Skorður voru settar við veiði og nokkrum ám var lokað í fyrra sökum þess hversu lítið gekk af laxi. Nú er nýtt veiðitímabil komið af stað o það undir breyttum formerkjum. Veiða og sleppa hefur innleitt af stjórnvöldum og er í raun meginforsenda þess að veiði yfir fékk að hefjast í ár.
Nokkrir íslenskir veiðimenn veiddu undanfarna daga Orklu og Stjördalselva, sem báðar eru þekktar laxveiðiár þar í landi. Hvað segir Hilmar um stöðuna og tóninn í norskum veiðimönnum?
„Ég hef mest verið í samandi við fólk sem tilbúið í veiða og sleppa og stuðla að uppbyggingu. Þar heyrir maður bjartsýnan tón. Hins vegar er stór hluti norskra veiðimanna alfarið á móti þessu fyrirkomulagi. Þeir vilja bara halda áfram að setja sína fiska í reyk. Þetta er svo rótgróið í veiðimenninguna hér að margir vilja frekar sitja heima og veiða ekki, frekar en að veiða og sleppa,“ upplýsir Hilmar.
Er þetta almennt Hilli, meðal norskra veiðimanna?
„Þetta er held ég mest bundið við eldri kynslóðirnar sem hafa stundað sinn veiðiskap í áratugi og þekkja ekkert annað en að drepa sinn fisk og borða.“ Hilmar var formaður Landssambands stangaveiðifélaga á þeim tíma sem Veiðimálastofnun gaf það út að það yrði að sleppa stórlaxinum. „Við gáfum það út og fórum að berjast fyrir því að stórlaxinum yrði sleppt. Þetta er í kringum 2000. Það varð allt brjálað og maður var bara holdgervingur djöfulsins og það voru yfirlýsingar á borð við „fyrr dett ég dauður niður,“ og mikið í þessum dúr. Þetta tók hins vegar ekki nema tvö þrjú ár. Þá voru allir farnir að sleppa. Þetta er erfitt á meðan að á þessu stendur, sársaukafullt fyrir marga en svo bara kemur þetta.
Hann veiddi Orklu í fimm daga ásamt fleiri Íslendingum. Hilmar og Óskar Páll Sveinsson sem var í hópnum settu báðir í fisk og misstu. Svæðið sem þeir félagar veiddu er tíu stanga svæði og á fimm dögum veiddust tveir fiskar. Báðir þessir laxar voru voru yfir hundrað sentímetrar. 102 og 103. Það er þessi stærð sem togar í Hilmar og hann langar að veiða slíka fiska og það er staðreynd að Noregur er með laxastofn sem verður mun stærri en sá íslenski. Enda kom það á daginn að þegar Hilmar og félagar yfirgáfu Orklu á leið í Stjördalselva fengu þeir hringingu frá landeigandanum og 114 sentímetra lax hafði veiðist. Nýgenginn hængur. „Það eru um þrjú hundruð stangir í Orklu, giska ég á og veiðin kannski í kringum tuttugu laxa á dag,“ ályktar Hilmar. Svæðið sem þeir voru á ber tíu stangir og er um fimm kílómetrar að lengd. Á hinum bakkanum er sami stangafjöldi og þegar horft er til hversu löng áin er þá er þrjú hundruð stangir ekki fjarri lagi. „Þetta er mikil veiði þegar við horfum til þess hvernig þetta er heima. En vissulega eru þetta fyrstu dagarnir og væntanlega á þetta eftir að aukast þegar líður fram á sumarið. En ég er hérna þessa fyrstu daga til að veiða stóran lax. Allir laxarnir í ánni eru stórir en hér er möguleiki á að ná í þá allra stærstu. Hér á þessum tíma snýst þetta ekki um magn heldur að setja í þessa stóru.
Eftir veiðina í Orklu færðu þeir sig um set og yfir í Stjordalselva. Þetta er annað árið í röð sem þeir veiða hana á þessum tíma. „Það var ekkert af fiski í henni í fyrra. Núna sjáum við fisk í hyljunum sem er að ganga framhjá. Við sáum fisk í öllum hyljum og þeir hafa verið að stökkva og rjúfa yfirborðið. Þetta sáum við ekki í fyrra. Ég fékk bara einn í fyrra en núna lönduðum við þremur. Við sjáum alveg jákvæðan mun á svæðinu frá því í fyrra.“
Hilmar er að elta þessa stóru. Hann landaði tveimur. Annar var níutíu sentímetrar og hinn var 106 sentímetrar. „Þetta er svona tólf kílóa fiskur eða í kringum 26 pundin. Þegar ég fékk hann vorum við að veiða neðsta svæðið og við þetta er allt annar leikur en heima. Við erum að nota þungar sökklínur og þurfum að koma þessu niður. Þetta er alveg rosaleg vinna miðað við veiðina heima. Þegar ég setti í þennan þá var þetta alveg svakalegt tog og stöngin verður bara bein. Hann fór langt niður á undirlínu og þetta er fyrst og fremst þolinmæðisvinna. Þetta eru svo þykkir fiskar og miklu þykkari en okkar lax. Fyrsti fiskurinn er alltaf smá stress og svolítið uppnám og sérstaklega eftir að hafa séð hversu svakaleg blaðkan var. Þá kemur auka slag í hjartað í manni. Þá er líka gott að hafa Sigga Haug sér við hlið með háfinn. Maður sem er búinn að háfa nokkur þúsund laxa á ævinni. Siggi kom sér fyrir á steini og ég náði honum að og Siggi renndi háfnum undir hann og þá var þetta komið,“ segir Hilmar. Hann viðurkennir að baráttan hafi verið „svakaleg“ en þó ekki staðið nema í 25 mínútur. Hjólið á mestu bremsu og allt í botni.
Sigurður Héðinn veiddi Stjordalselvan með Hilmari og fékk hann einmitt „smálax“ í ferðinni. Smálaxinn hans Sigga var 84 sentímetrar. En flestir laxar standast illa samanburð við 106 sentímetra laxinn hans Hilla.
Banana fly var að virka vel fyrir þá félaga. Hilli er vinur Mikael Andersson sem hannaði þá flugu. „Ég varð svolítið heillaður af þessu. Við vorum að veiða í Orklu einu sinni og hann veiddi ógeðslega vel og allt á þessa Bananaflugu. Hann gaf mér nokkrar og ég fór að hnýta ýmis tilbrigði af henni. Meðal annars í Sunray hexacon útfærslu. Ég var með Banana litinn sem undirvæng og svartan apa sem yfirvæng. Ég tók mína laxa báða á þessa flugu. Svo sagði Siggi við mig. „Æi gefðu mér þessa helvítis Bananaflugu.“ Ég gaf honum eina hefðbundna slíka. Ég fór að hlæja og spurði hvort hann væri ekki með fleiri þúsund flugur í töskunni. „Láttu ekki svona, láttu mig hafa eina svona helvítis Bananaflugu.“ Það var svo magnað að karlinn fór út og setti í lax og landaði honum 84 sentímetra. Það var svo magnað að þessi litur gaf okkur alla þrjá laxana.“ Hilli verður vopnaður Bananaflugunni heima í svona. Hann segist hafa fengið laxa á hana á Íslandi en nú ætlar hann að hnýta Sunray útgáfuna og hún verður tekin til kostanna í ám sem geyma þá stóru. Viðbúið er að Aðaldalurinn taki á móti nokkrum slíkum.
Það er eitthvað svo rökrétt að vera með svartan apa sem yfirvæng þegar Bananaflugan er hnýtt. Hilli tekur undir það og hlær. „Api og banani, klikkar ekki.“
Tvennt sem verður áhugavert að fylgjast með í sumar. Hvernig laxasumarið í Noregi verður. Þeir búa við það að á miðju sumri fer fram stöðumat á laxinum. Hversu mikið hefur gengið og hver staðan er á hinum ólíku svæðum. Þar gæti dregið til tíðinda. Svo verður ekki síður áhugavert að sjá hvernig Hilla gengur með Bananafluguna hér heima.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
100 cm | Miðfjarðará | Christopher Hill | 19. júlí 19.7. |
100 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 15. júlí 15.7. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 7. júlí 7.7. |
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |