Fyrsti laxinn úr Grímsá í Borgarfirði veiddist síðdegis í gær. Hann fékkst í Lækjarfossi og tók Hauginn. Laxinn mældist 79 sentímetrar og það var Stefán Þór Bjarnason sem veiddi hann. Sett var í stórlax í Strengjum en eins og oft gerist með þessa stærstu þá slapp hann.
Þrátt fyrir rólegan opnunardag eru Grímsárbændur bjartsýnir með Jón Þór Júlíusson fremstan í flokki, en hann stýrir Hreggnasa, félaginu sem leigir Grímsá.
Laxar sáust víða í Grímsá í gær. Laxfoss, Svartistokkur, Stórlaxaflöt, Hörgshylur og Sýslumannsbrot geymdu allir laxa þó að þeir hafi ekki gefið sig.
Jón Þór Júlíusson horfði til himins og kíkti á veður.is. „Nú eru veðrabrigði í kortunum og það verður bingó á morgun,“ sagði leigutakinn innblásinn bjartsýni eftir að hafa rýnt í veðurkortin. Hann er sem sagt að tala um daginn í dag, enda viðtalið tekið eftir að veiðidegi lauk í gær.
Það er rigning í kortunum og um leið fá laxar og veiðimenn hvíld frá sólinni, sem getur gert báðum lífið leitt. Smá súrefni í vatnið og jafnvel áherslubreyting í vatnsmagni geta gert gæfumuninn. En bingó? Hver veit?
Hítará opnaði líka í gær og þar byrjuðu veiðimenn eftir hádegi. Þrír laxar komu á land. Tveir úr Flesjufljóti og einn úr Breiðinni. Það verður nú bara að flokkast sem góð byrjun þar vestra. Það var hinn knái veitingamaður, Ingvar Svendsen sem fékk einn af opnunarlöxunum í Flesjufljóti.
Í dag er svo Víðidalsá að opna og við flytjum ykkur fréttir af gangi mála þar í dag.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |